þriðjudagur, október 25, 2005

Madrid er æðisleg. Við þurftum reyndar að vaða heimilislausa, betlara og mellur í hné en ef framhjá því var litið er borgin rosalega flott og fólkið indælt. Það skildu fáir ensku en það kom ekki að sök því allir voru af vilja gerðir að aðstoða mann gegn vægu gjaldi, ekki eins og danir sem neita að skilja mann ef maður talar dönsku með hreim.

Áður en við förum aftur til Spánar eða áður en við förum til Kína ætla ég að vera búinn að læra að segja já, nei, takk og að telja. Ég held það komi manni áleiðis.

Það er Dunkin Donutsstaður í Madrdid. Þeir selja gúmelaði og café americana grande(0,5 l svart kaffi í pappamáli), mmmm donuts. Það uxu á mig handjárn og skjöldur við að koma þarna inn.

Það er ekki slor að spóka sig í 18°C og sól eins og var hjá okkur á sunnudag. Það er slor að þurfa að skafa af bílnum sama dag og maður hefur verið í 18°C og sól að spóka sig.


FJ Hópurinn er ekki flinkur að þjónusta farþegana sína, flugvélin þeirra var verri en Peach air vélin sem við nafni flugum með til London um árið. Bæði var hún þrengri og það brakaði líka meira í henni en ferskjuvélinni. Ekki bætti úr skák að starfsfólkið skrökvaði að okkur þegar ég bað um púða, aðal og yfir flugfreyjan sagði enga púða til en fimm mínútum seinna sá ég flugþjón með fullt fang af púðum að útdeila fremst í vélinni. Þegar við vorum rétt sloppin undan hrópum betlara vændiskvenna og umrenninga byrjuðu flugfreyjurnar(og freyjinn) að hrópa Saga bútikk og hringla í baukunum sínum.

Ef einhver er á leið til Spánar mæli ég með öllum stöðum sem selja heitt súkkulaði og djúpsteiktar lengjur sem ég veit ekki hvað heita, en þó sérlega Chocolateria de san ginés í Madrid því það er eina sérhæfða súkkulaðiterían sem ég veit um. Svo er ekki verra að í næsta nágrenni er Plaza Mayor. Það er fallegt torg sem var byggt árið 1619 og var notað til verslunar utan tollmúra, nautaats og opinberra aftaka fyrr á öldum, nú er þetta bara túristastaður og vettvangur safnara sem skiptast á undarlegustu hlutum (frímerkjum, gosflöskutöppum og mynt).

Mig langaði ekki heim eftir þessa ljómandi fínu ferð.