sunnudagur, október 30, 2005

Helgin er búin að vera viðburðarík. Föstudagurinn fór í að sveigja fimlega framhjá föstum, klesstum, oltnum, brunnum og heilum bílum sem siluðust mis hratt og beint um göturnar í þessu fyrsta vetrarskoti á höfuðborgarsvæðinu. Ég ákvað að reka ekki nef út fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir. Það gekk líka eftir.

Laugardagurinn hófst á ferð í musteri mammons í Kópavogi því okkur vantaði afmælisgjöf handa mágkonunni sem er gift bauna bró. Þegar gjöfin var fundin, borguð og innpökkuð var haldið á æskustöðvarnar til að gefa hana. Þar fengum við kökur og kruðerí í maga og kaffi með. Ákaflega gott og móðins eins og þeirra er von og vísa.

Þegar það var frá var brunað í höfuðstaðinn til að horfa á sætasta frændann sem ég á enn eftir að fylla myndavélina mína með. Hann var hress og sendi mér fyrsta hornaugað sem hann hefur litið mig, enda ekki skrýtið því ég, þessi stóri andstyggilegi frændi, færði sængina hans aðeins frá andlitinu á honum þar sem hann svaf værum hádegisblundi. Þegar við vorum búin að horfa nóg á hann í bili fórum við í Fjarðarkaup og eyddum aleigunni í mat og rúðuvökva.

Dagurinn í dag er samt búinn að vera sá fyndnasti sem ég hef upplifað lengi. Rétt fyrir hádegi brá ég mér til mömmu og pabba og sníkti þar kaffi. Meðan ég lapti kaffið úr bolla sem er samstæður undirskálinni strikaði ég utan um hendurnar á bróður dóttur minni.

Þegar ég keyrði inn götuna þeirra sá ég mjög stuttann blaðburðardreng, sem var ekki mikið meira en 8 ára, þar sem hann dró blað upp úr töskunni sinni og braut saman, í sömu mund missti hann bækling innan úr blaðinu án þess að taka eftir því. Þegar ég fór svo heim sá ég að hann hafði komið við hjá mömmu og pabba því það lá bæklingur við tröppurnar þeirra og reyndar við öll hin húsin í götunni líka. Annaðhvort er þessi blaðburðardrengur svo latur að hann nennir ekki að beygja sig eða svo utan við sig að hann tók ekki eftir því að blaðið léttist um helming í hvert sinn sem hann braut það saman.

Hálfi ítalinn er hjá okkur núna, hann fékk far hjá afa sínum til okkar í nýja bílnum rétt fyrir hádegi. Rétt fyrir kaffi ákváðum við að skella okkur niður að læk til að gefa köldum og hröktum öndum og gæsum nýbakað brauð. Sá stutti sá um matarútdeilinguna meðan við hin stærri stóðum hjá og hrópuðum hvatningar og leiðbeiningarorð til hans. Fuglagerið kringum hann stækkaði og þéttist í hlutfalli við hvað pokinn léttist uns ein gæsin gerðist of nærgöngul og beit stubbinn í puttann, honum var að sjálfsögðu mjög brugðið og hrópaði "ÁI baba beit á puttann minn". Mér fannst þetta býsna fyndið og hristist allur af hlátri sem ég reyndi að bæla niður svo ekki heyrðist til mín, Meinvill fannst þeta ekki eins fyndið og beygði sig niður að stubbnum til að hugga hann, skipti þá engum togum að ein gæsin teygði upp hálsinn og beit Meinvill beint í rassinn gegnum vel hannað gat á gallabuxunum hennar. Þá gat ég ekki meir og datt næstum út í lækinn í hláturskasti. Djöfull vildi ég að vídeóvélin hefði verið með í för. Þess ber að geta að þau þáðu ekki far hjá mér í bílnum heim til mömmu þar sem vöfflur og súkkulaðikakaka voru á borðum. Til að sjá myndir af atburðinum má smella hér.