fimmtudagur, desember 29, 2005

Ég fékk nýtt debetkort í gær, það væri nú ekki í frásögur færandi, nema fyrir þær sakir að það var sérlega mikill eltingaleikur að fá þetta kort. Það byrjaði á því að ég fékk tilkynningu fyrir tveimur mánuðum þess efnis að ég gæti sótt nýtt kort þann 20. des. Ég ákvað að vera tímanlega í því og fór nokkrum dögum fyrr ef ske kynni að kortið hefði dottið inn, því ég var hvort eð er á ferðinni þarna framhjá, það var ekki og mér sagt að koma á réttum tíma því kortið yrði ekki tilbúið fyrr.

20.des var ég aftur á ferðinni framhjá bankanum. Ég snaraði mér inn, þreif gamla kortið upp úr vasanum, skellti því á borðið, rétti út höndina með flatan lófan upp og heimtaði kortið mitt. Konan í afgreiðslunni horfði afsakandi á mig og sagði kortið ekki komið, ég brást hinn skársti við og bað um að kortið yrði sent heim til mín í ábyrgðarpósti, hún hélt nú ekki "við sendum ekki í pósti innan höfuðborgarsvæðissins, en við getum sent þetta í annan banka fyrir þig ef þú vilt"

Ég þáði það og bað um að þetta yrði sent í Sparisjóðinn, næst heimili mínu. Í gær ákvað ég svo að sækja kortið þegar ég var búinn að versla í matinn. Þegar ég renndi upp að Sparisjóðnum sá ég að eitthvað var ekki eins og hafði verið fyrr, annaðhvort var Sparisjóðurinn búinn að snúa sér að ritfangasölu eða þá var hann fluttur. Ég skundaði að hurðinni þar sem hékk tilkynning um að Sparisjóðurinn hefði flutt þaðan snemma í haust. Þá var ekki annað að gera en að fara í höfuðstöðvarnar því fyrst þetta útibú var hætt hljóta þau að hafa sent kortið í höfuðstöðvarnar.

Þegar þangað var komið, kom í ljós að ekkert kort var hjá þeim. ohhh hvar er það þá? Konan í afgreiðslunni tók upp símann og hringdi út um allan bæ til að kanna hvert kortið hefði farið.

Eftir mikla leit og enn meiri eftirgrenslan kom í ljós að kortið hafði verið sent í útibúið sem er staðsett í anddyrirnu á matvöruversluninni sem ég var nýkominn úr.

Í sem fæstum orðum, ég klofaði yfir kortið áður en ég fór í öll önnur útibú til að leita að því. Það besta er að ég mundi ekki eftir kortinu fyrr en ég sá útibúið í anddyrirnu.

***

Það er komin mússík í spíttkerruna aftur, ég setti nýtt útvarp í hann í gærkvöld. Útvarpið sem Meinvill gaf mér í jólagjöf. Mikill var léttirinn að geta keyrt aftur á þess að þurfa að flauta lagstúf sjálfur, fyrir utan hversu mikil móða kemur innan á rúðurnar þegar manni er mikið niðri fyrir og flautar af krafti.

Nú þarf ég bara að muna að kaupa ekki aftur Kenwood með veltiframhlið. Þegar tækið var alveg að smella á sinn stað kom lag af diskinum sem var fastur í gamla tækinu í útvarpinu, tilviljun? Sennilega, ef ekki þá yfirskilvitlegt.