Við fórum á tónleika undir yfirskriftinni "ertu að verða náttúrulaus?" í gær. Málefnið var gott, miðinn ódýr og fullt af uppbyggjandi áróðri gegn Framsóknarflokknum og skemmdarverkum ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunnar.
Þegar við komum, rétt fyrir klukkan átta var KK að klára atriðið sitt, ég get því ekki dæmt um hvort hann var góður... hann hlýtur að hafa verið góður hann er það alltaf *** handa honum.
Björk og Zeena Parkins tóku við af honum og fluttu fimm lög eftir því sem Meinvill taldi. Mjög fínt ***
Múm spiluðu á eftir þeim, þau voru með flesta hljóðfæraleikara á sviðinu, þau voru líka með flottasta atriðið að mínu mati ***** fullt hús stjarna og gæsahúð allan tímann.
Sigurrós komu á eftir Múm og spiluðu eitt lag, þeir voru með litla yfirbyggingu, fá hljóðfæri og spiluðu bara eitt lag. Lagið var gott og flutningurinn góður eins og þeirra er von og vísa, en eitt lag er soldið lítið að mínu mati. **
Magga Stína var næst. Hún gekk eins og fíll um sviðið með fiðluna, hljómurinn á þeim var ekki góður í fyrstu tveimur lögunum, gítarinn rann saman í einn hljóm sem varð að hávaða. Síðasta lagið þeirra var "fílahirðirinn frá zúrín" flott útgáfa af laginu sem Rás tvö nauðgaði allt of lengi. **
Rass átti salinn meðan þeir spiluðu sín þrjú lög. Í þriðja og síðasta laginu fengu þeir liðsstyrk skólahljómsveitar vesturbæjar, meðan þeir stóku lagið "congratulations/celebrations" Það var ekki bara fyndið heldur eitthvað miklu meira. Báðar hljómsveitirnar voru í hljómsveitarbúningum, Rass var í hvítum bolum og bar hver liðsmaður einn staf í nafni hljómsveitarinnar, Skólahljómsveit vesturbæjar var aftur á móti í hefðbundnum rauðum lúðrasveitarbúningum. ****
Dr Spock spilaði eitt lag, Prófesorinn skipti um föt og kom aftur á svið, nú í bleikum spandex buxum og ber að ofan. ***
Damien Rice fór á kostum í sínum flutningi, ég átti ekki von á öllum þessum krafti frá honum, enda ekki heyrt mikið meira en eitt lag með honum. Lisa Hannigan söng með honum eins og svo oft áður, hún hefur eina fallegustu söngrödd sem ég hef heyrt. Þvílík skemmtun og upplifun að hlusta á þau. ****
Mugison var fullur held ég, en hann var fyndinn, sérstaklega þegar hann hætti í miðju lagi til að stilla sér upp fyrir gítarsóló. Hann spilaði eitt lag einn og eitt með Hjálmum ***
Hjálmar byrjuðu á að taka lagið með fulla kallinum Mugison, svo tóku þeir tvö eða þrjú lög einir, Segi það og skrifa Hjálmar er ein skemmtilegasta hljómsveit landsins. *****
Ghostigital tóku þetta á kraftinum. Ég held að fáir hafi skilið tónlistina þeirra, ég skil hana og finnst þeir frábærir, ég get ekki beðið eftir að kaupa plötuna þeirra þann 7. Mars. Damon Albarn tók tvö lög með þeim, í öðru laginu spilaði hann á hljóðfæri sem ég veit ekki hvað heitir en er eins og lítið hljómborð sem blásið er í endann á. Í hinu laginu spilaði hann á gítar og söng lagið Aluminium. ****,5
Ham voru næst síðastir. Ég hef ekki séð Ham spila á tónleikum síðan ég veit ekki hvenær, sennilega eru 15-16 ár síðan. Það var eins með þá og Möggu Stínu hljóðið varð ekki almennilegt fyrr en í síðasta lagi, gítarhljómurinn rann saman í samfelldan hávaða sem gerði ekki annað fyrir mig en að búa til suð í eyrun mín.**
Egó enduðu partíið á gömlum slögurum sem allir þekkja og geta sungið með. Bubbi var flottur og ekki skemmdi að fá flugeldsýningu innanhús. Gítarsólóin draga eina stjörnu af þeim því þeir stilltu sér ekki upp fyrir þau. ***
Ef ég á að setja út á eitthvað þá eru það borðarnir með slagorðunum sem voru hengdir á veggina í höllinni. 99% gesta á tónleikunum voru íslendingar sem tala væntanlega ágæta íslensku og því engin ástæða til annars en að hafa skilaboðin til okkar á íslensku en ekki ensku. Annars var allt annað til fyrirmyndar.
<< Home