Áfram með Kína, ég eldaði kínverskan mat í kvöld, mu shu svín. Það er svín með allskonar gúmelaði og allskonar grænmeti, borið fram á pönnu og svo vafið inn í pönnukökur augnabliki fyrir átu. Ég fór í Samkaup til að kaupa það sem vantaði í réttinn, ég fann allt nema pönnukökurnar. Fyrir þá sem ekki vita hvernig kínverskar pönnukökur eru: þær eru litlar og mjög þunnar hvítar og nánast bragðlausar en nauðsynlegar til að moka svona mat upp í sig með. Allavega, ég labbaði fram og aftur meðfram frystinum og starði á frosnu pizzurnar, fiskflökin og hryggina en sá engar pönnukökur. Ég spurði starfsmann hvort hann vissi til þess að þetta væri til í búðinni, hann horfði á mig smá stund vantrúaður og spurði svo: ertu að meina mexíkanskar? Ég: Nei kínverskar. Það hafði hann nú aldrei heyrt fyrr.
Ég mátti því bruna í Fjarðarkaup, búðina sem selur bæði samkvæmisföt og matvöru. Þar voru allar kellingar bæjarins mættar, hver með sína innkaupakerru tóma og búnar að koma sér vel fyrir þar sem þær voru fyrir öllum og töfðu sem mest þær máttu fyrir fólki sem álpaðist þangað inn til að versla. Engar pönnsur þar.
Ég mátti gera þriðju tilraun og nú skyldi reynt við Hagkaup í hinum vonlausa Garðabæ. Þar króaði ég starfsamann í kjötborði af, konu á miðjum aldri, ég spurði hana hvar finna mætti pönnukökurnar þunnu. Hún horfði á mig spyrjandi en jafnframt tómum augum "ertu að meina mexíkanskar?" nei ég er að meina Kínverskar og þessvegna bað ég um kínverskar. Hún vísaði á annan starfsmann sem varla stóð fram úr hnefa. Hann var ekki mikið eldri en bíllinn minn, ég bar spurninguna aftur upp og reyndi að stilla mig því mér var farið að leiðast mikið að ræða við þetta annars ágæta fólk.
Ég: Veist þú til þess að þið seljið kínverskar pönnukökur hér?
Stráksi: Já, svona tortillur (glaður í bragði)
Ég: Nei kínverskar, þær ættu að vera í frysti.
Stráksi tekur á rás í átt að frystinum og ég á eftir.
þegar við komum að frystinum snar snerist stráksi á hæl og tók u-beygju inn eftir einhverri snakkhillu sem var greinilega ekki frystir.
Stráksi: Er það ekki bara svona sem þig vantar og rak framan í mig mexíkanskar tortillur.
Þar sem stráksi hálf kraup við hillurnar lá hann vel við höggi og þessvegna hrinti ég honum í gólfið og setti hnéð í eyrað á honum þar sem hann lá og engdist um.
Ég öskraði á hann að Kína og Mexíkó væri ekki sama landið, það væri langt á milli þessara landa og pönnukökurnar frá kína hétu ekki tortilla. Því næst geip ég tabascosósuglas og hellti í augun á honum svo ég gæti komist úr úr búðinni áður en hann gæti bent á í hvaða átt ég forðaði mér.
Þannig var nú það, nokkurnvegin.
p.s ég fékk pönnsurnar í Hagkaup í smáralind, en fyrst ég var búinn að leita svona víða ákvað ég að kaupa allar pönnsurnar þeirra,án þess að spyrja starfsmann til vegar.
<< Home