þriðjudagur, janúar 16, 2007

Ég er mættur aftur á Steininn eins og Norðmaðurinn sem er með okkur kallar eyjarnar. Það tók ekki nema 18 tíma að komast hingað í þetta sinn. Við tókum á loft á réttum tíma frá Reykjavík og flugum sem leið lá til Færeyja. Þegar við áttum að fara að fá okkar hellu fyrir eyrun tilkynnti flugstjórinn að það væri snjókoma á vellinum og við myndum taka auka rúnt kringum steininn, sá aukarúntur stóð í klukkutíma. Öðru hvoru galaði kallinn afturí að við værum með nóg bensín, það hljómaði soldið eins og í myndinni "how to irritate people" þegar flugstjórinn kallaði í hátalarann að það væri allt í lagi með vélina og ekki kviknað í hreyflinum.

Eftir að hafa hagað sér eins og mávur í klukkutíma kallaði hann enn einusinni afturí að hann nennti þessu ekki lengur og ætlaði aftur til Reykjavíkur. Ég leit á klukkuna og sá að það væri tæpt að við gætum lent þar því vellinum er lokað klukkan ellefu á kvöldin. Tveimur mínútum síðar kallaði stjórinn enn einusinni í hátalarann og í þetta sinn var það tilkynning um að við lentum í Keflavík en ekki Reykjavík. Komum inn á hótel upp úr miðnætti, barinn var lokaður og minibarinn tómur þannig að ég fór bara í háttinn. Við flugum af stað aftur klukkan tæplega ellefu og lentum rétt um tólf á hádegi.

Hótelið sem við gistum á er eitt það slappasta sem ég hef gist á, þetta er Flughótel í Keflavík. Ég fékk deluxe herbergi sem var jafn stórt og baðherbergið á herberinu sem við gistum í á Sögu um daginn. Morgunmaturinn var allt í lagi en þegar maður er á hóteli þá finnst mér að það megi vera aðeins meira kólestról í matnum. (egg, bacon, pulsur, bakaðar baunir og fleira bráðdrepandi). Mér fannst staffið þarna líka soldið amatöralegt. Einn starfsmaður hótelsins spurði mig með hvaða félagi við værum þarna og hvaða flugstjóri flygi vélinni....ég tel mig góðan ef ég get sagt hvaða litur er á vélinni.