miðvikudagur, janúar 31, 2007

Ég fór með gjafabréfið mitt í Kringluna fyrir helgi og létti aðeins á því með því að uppfæra aðeins göngubúnaðinn minn og dvd hilluna. Ég keypti nýja göngustafi, peysu sem á að losa svita á tæknilegan hátt frá líkamanum og regnbuxur. Ég skildi stafina eftir heima þegar ég fór út aftur á mánudag en buxurnar og peysan komu með. Ég fór svo og vígði peysuna áðan en skildi regnbuxurnar eftir í ferðatöskunni, ég hefði betur farið í þeim því rigingin hér er bæði blaut og nokkuð viðloðandi líka.

***

Ég er að verða búinn að kaupa allt sem ég þarf að kaupa áður en að Kínaferðinni kemur. Nú síðast keypti ég eina litla linsu á myndavélina þannig að ég geti tekið innimyndir innandyra. Gömlu linsurnar eru of stórar til þess þannig að maður varð að bakka alveg út að vegg eða fara út til að ná myndum af fólki án þess að mikilvæga útlimi vantaði á það. Annars eigum við líka eftir að kaupa hús eða íbúð eða eitthvað svoleiðis líka áður en við förum.

***

Ég rakst á flotta myndasíðu hjá BBC um daginn, ég er búinn að eyða mörgum kvöldum í að skoða hana og ekki sér fyrir endann á því. Hér er síðan og hér er flottasta myndin að mínu mati, takið eftir fótabúnaðinum á börnunum.