sunnudagur, október 10, 2004

Mikill matur

Færeyingar hafa voðalega svipaðar matarvenjur og við hinumegin við pollinn. Þeir fara ekki á veitingastað til að kaupa sér fisk, þeir taka nokkurs konar slátur og borða lappir og svið, hakka garnir og gera hamsatólg sem þeir borða út á siginn fisk sem þeir kalla rastaðan fisk.

Kokkurinn okkar heitir Palli og er lítill feitur kall sem er með beyglaðan munn og talar út um munnvikið, hann er mikill áhugamaður um fótbolta og ber staðurinn hans þess merki. Kallinn kvaddi okkur fyrir rúmri viku og kynnti okkur fyrir afleysinga kokkunum, það er tveir fyllibyttulegir kallar. Fyrir réttri viku þegar við vorum ný farnir út af veitingastaðnum tók annar kokkurinn sig til og kveikti á loftræstikerfi staðarins meðan hann flamberaði steik. Þegar búið var að slökkva eldinn komu kokkarnir niður í bræðslu, báðir búnir að skvetta aðeins í sig eftir hasarinn, þeir voru ægilega aumir og sögðu okkur að við þyrftum að fara eitthvað annað til að borða því það væri allt í sóti og vatni á staðnum okkar. Við keyrðum yfir til Runavíkur og enduðum á einhverjum pizzastað sem selur hamborgara og kokteilsósu frá E.Finnsson. Í hádeginu daginn eftir vorum við sendir aftur til Runavíkur en þá í mötuneyti einhvers fyrirtækis sem var mjög ervitt að finna þar fengum við kjötbollur.

Seinna um daginn kom tæknifræðingur bræðslunnar til okkar og sagði að það væri fjöskylda í Fuglafirði sem hafði samþykkt að taka okkur í fóstur þar til búið væri að laga eldhúsið á veitingastaðnum.

Hjónin sem tóku okkur að sér eru milli sextugs og sjötugs og komu frá Danmörku klukkutíma áður en við mættum í mat til þeirra. Við komumst að því að færeyingar hafa ekki tekið frönsku línuna upp í eldhúsum sínum því skammtastærðirnar hjá þeim eru SVAKALEGAR, þeim þykir ekkert bogið við að bera 5 Kg svikinn héra + allt meðlætið á borð fyrir fjóra kalla og þykir bara hálf undarlegt að menn skuli skilja eitthvað eftir af 8 kg af mat sem borinn er á borð.

**************

Í gær fórum við í mat til mömmu og pabba, við fengum íslenska kjötsúpu, ég skaffaði eftirréttinn, grillað ávaxta kebab með hunangssósu.

************

Á morgun fer ég aftur til útlandssins í rokið og rigninguna, strákarnir halda að ég stjórni rigningunni með því að fara regngalla og stígvéla laus undir pallinn sem við erum búnir að setja upp, þeir hafa gengið svo langt að krefjast þess að ég fari ekki úr pollagallanum meðan þakið lekur enn.