sunnudagur, september 19, 2004

Sunnudagsmorgunn

Það er ekki að spyrja að því að ég var vaknaður einum og hálfum tíma seinna í morgun en í gærmorgun, ég fór náttúrulega að sofa eftir einn bjór og mynd sem drap mig næstum úr leiðindum, það var hin geypilega hressa mynd you´ve got mail. Það ætti að koma stórt skilti á skjáinn á undan myndinni þar sem stendur: þessi mynd er ekki ætluð karlkyns áhorfendum eldri en 16 ára.
Ég var kominn út í búð hálftíma eftir að ég vaknaði eða um klukkan hálf níu, ég nennti nefnilega ekki í búðina í gærkvöld þegar við komum heim. Nú ættu skarpir lesendur að vera farnir að átta sig með einföldum reikningi að ég var vaknaður klukkan átta í morgun en klukkan hálf sjö í gærmorgun, jamm ég mætti Meinvill í eldhúsinu klukkan hálf sjö á Laugardagsmorgni og hvorugt okkar var að koma af skralli. Fyrir nokkrum árum hefði eini sénsinn til að ég væri vakandi klukkan hálf sjö á laugardagsmorni verið að ég hefði verið að koma úr partýi eða af einhverri brennivínsbúllu.

************

Ég er búinn að yfirskipuleggja næstu viku. Síðan á föstudag er ég búinn að hræra af og til í forriti sem heitir autoroute 2002, ég er búinn að láta forritið hanna fyrir mig akstursleiðir til Seyðisfjarðar og þaðan til Fuglafjarðar með viðkomu í Þórshöfn. Þetta er ægilega fínt forrit sem teiknar leiðina á kort og gefur leiðbeiningar um hvenær ég á að beygja, stoppa og taka eldsneyti og hvar er skynsamlegt að sofa, semsagt skrambi sniðugt forrit. Ég gerði tvær útgáfur af ferðaplani, annað planið gerir ráð fyrir brottför úr bænum á hádegi á þriðjudag og lýkur upp úr hádegi á fimmtudag í fuglafirði en hitt gerir ráð fyrir að ég leggi af stað um miðja nótt úr bænum og keyri í einum spreng til Seyðisfjarðar. Mér líst betur á að taka þessu rólega og dóla mér austur þannig að maður fari ekki á límingunum þó það springi eitt dekk á leiðinni.

************

Í gær bakaði ég tvær kökur, eina fyrir mína familíu og eina fyrir Meinvills familíu. Tilefnið er ekkert. Mig langaði bara að baka þær, ég veit reyndar ekki hvort þetta kallast kökur því á engilsaxnesku kallast hellegheitin sticky date pudding with caramel sauce. Þetta er geysilegt gúmelaði sem klístrast um allan munn og er ekki á nokkurn hátt hollt, ég held meira að segja að döðlurnar séu óhaollar í þessu.

*************

Ég sá fyrrverandi vinnuveitanda minn í sjónvarpinu í gær, hann er bakari eins og ég en munurinn á okkur er að hann sækist eftir bruna en ég reyndi alltaf að forðast bruna meðan ég starfaði í bakstrinum. Hann var eins og áður þegar hann hefur komið í imbanum að slökkva eld í húsi sem vantaði brunavarnir í. Kallinn kemur alltaf jafn vel fyrir sama hvar talað er við hann. Ég man eftir því þegar ég hitti hann fyrst í Janúar fyrir rúmum tíu árum, þá var ég að sækja um vinnu hjá honum og fór heim til hans í atvinnuviðtal, ég bankaði upp á með hjartað í buxunum því ég var viss um að allir vinnuveitendur væru skapofsamenn sem nærðust á að sýna starfsfólki sínu hversu klárir þeir væru og hversu vitlausir starfsmennirnir væru. Ég man enn eftir því þegar dyrnar opnuðust og hrammurinn kom vaðandi á móti mér og mér var kippt inn um dyrnar svo upphófst mikill hlátur og skemmtilegar samræður.
Þegar viðtalinu lauk fór ég keyrandi heim aftur og ekkert nema eitt risastórt spurningamerki yfir móttökunum sem ég fékk hjá honum. Fáir menn hafa komið mér meira á óvart enn sem komið er.