föstudagur, september 03, 2004

Fyrsti dagur í embætti

Ég mætti eldsnemma í vinnuna í morgun til að setja mig inn í embættið sem hringsuðumaður fyrirtækisins, ég byrjaði á að finna mér stól til að sitja á því ég var með fjóra leiðbeiningabæklinga yfir vélina sem ég á að vinna á og það er betra að sitja meðan maður les. Lesturinn hófst yfir kaffibolla klukkan hálf átta stundvíslega. Ég var ekki búinn að sitja lengi með spekingssvipinn þegar bankað var í öxlina á mér og ég beðinn um að skjótast upp í sveit til að klára bryggjuna sem ég smíðaði í sumar fyrir forstjóra ríkisstofnunarinnar, það átti bara eftir að klára að festa hana almennilega niður því það skemmdust einhverjir boltar þegar við settum hana saman á sínum tíma. Bryggjan tók ekki mikinn tíma frá lestrinum, því miður því það var gott veður í sveitinni og hefði verið ágætt að dvelja þar lengur. Forstjórinn var ekki á staðnum þannig að það var ekkert grillað handa okkur að þessu sinni.
Klukkan eitt settist ég aftur og gróf upp spekingssvipinn sem ég hafði lagt til hliðar meðan ég skrúfaði bryggjuna saman. Klukkan korter fyrir sex fann ég loksins hvernig ég gæti fengið fínu vélina til að snúast einn hring og sjóða fyrir mig þannig að ég fór sæll og glaður heim.

*************

Ég sá frétt í bæjarblaðinu um að fyrrverandi nágranni minn hafi lent í því að fá hund inn í garðinn sinn og skipti engum togum að hundurinn drap gæludýrin hans sem eru hænur af landnámskyni og endur sem spóka sig í garðinum hjá þeim í hrauninu á mörkum Hafnarfjarðar og Bessastaðahrepps. Nú telst ég vera nokkur dýravinur og hef verið frá því ég man eftir mér en ég er ekki í öllum tilfellum dýraeigendavinur. Það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér en hundaeigendur í þéttbýli, hundarnir fara lítið í taugarnar á mér því þeir geta lítið gert að því hversu vitlausir þeir eru. Aftur á móti gerir maður örlitla kröfu um að eigendur hundanna hafi eitthvað meira en merg milli eyrnanna. Nú er spurning um að hafa samband við kallinn á álftanesinu sem skaut hundhelvítið sem ruddist inn á jörðina hans(hefði kannski á að reyna við eigandann líka) og gefa honum einn eða tvo skotpakka til þess að reyna að stemma stigu við þessari plágu sem hundarnir eru á þessu svæði sem þau búa á.
Í vor fórum við Meinvill í göngutúr kringum Hvaleyrarvatn, veðrið var gott og fullt af fólki var að æfa flugukast við vatnið, þegar við vorum um það bil hálfnuð með hringinn komu tveir ljótir hundar hlaupandi á móti okkur, þeir hlupu framhjá mér en ráku skítug trýnin í Meinvill því henni er verr við hunda en mér, ég byrsti mig á eigandann þegar hann reyndi eitthvað að gelta á hundana og sagði honum að reyna að hafa hemil á hundunum svo þeir flöðruðu ekki upp um fólk sem kærði sig ekki um það. Svarið sem ég fékk frá honum var:" en þeir eru góðir" jamm og já þeir voru örugglega góðir og ég væri ekki hissa þó þeir væru það enn en samt kæri ég mig ekki um að sjá þeim fyrir slefklút í formi buxnanna minna.
Ég hef stundum velt því fyrir mér þegar hundur flaðrar upp um mig og rekur trýnið á þann stað sem maður vill í flestum tilfellum hafa út af fyrir sig að hlaupa eins og fætur toga að eigandanum, faðma hann og beygja mig svo niður og þefa af klofinu á honum...... ég er allavega viss um að hann reyndi að gera eitthvað til að banda manni frá sér.

Enívei hundar eiga ekki heima í þéttbýli og mér finnst að menn mættu alveg skjóta hund nágrannans eins og einn góður vinnufélagi minn gerði þegar hann var skiptinemi í suður ameríku þ.e. ef maður getur sannað að hundurinn hafi pirrað mann með spangóli og gelti svo ekki sé talað um að hann hafi skitið einhversstaðar annarsstaðar en inni á lóð eigandans.

*************

Mogginn klikkar ekki á smáatriðunum frekar en vanalega, í dag birtist þessi klausa á mbl.is:

Margur íslenskur athafnamaðurinn hefði án efa viljað vera í sporum ungmennanna úr Vestmannaeyjum sem urðu á vegi blaðamanns hins virta bandaríska viðskiptadagblaðs Wall Street Journal fyrr í þessum mánuði og lentu fyrir vikið á forsíðu blaðsins í gær.

Þess ber að geta að þegar greinin var virt var 2. september og því spyr ég eins og þeir sem halda úti batman.is hvenær er fyrr í mánuðinum þegar frétt birtist 2.september?