mánudagur, ágúst 23, 2004

Græðgi

Ég hef örugglega bent á það í öðrum pistli að hljómplötusalar á Íslandi eru gráðugir og okrarar, um helgina komst ég enn betur að því að bóksalar eru þeim engir eftirbátar í verðlagningu. Við gengum inn í nýjustu bókabúð bæjarins á laugardag, Meinvill skoðaði reyfarana sem var mikið úrval af en ég brá mér hinumegin í búðina og skoðaði ægilega fín tímarit um matargerð, bakstur og fleira sem hægt er að malla í eldhúsi, ég var mest að spá í hvort ekki væri eitthvað til um asíska matargerð. Ég er ekki viss um að ég hafi fundið það sem ég leitaði að því ég rak augun í verðmiða á einu blaðanna og á honum stóð að blaðið kostaði 1650 íslenskar krónur, jebb segi og skrifa. Nú er það svo að ég er orðinn ansi lunkinn við að gera verðsamanburð milli landa og þessvegna settist ég í gær niður við tölvuna og fletti þessu sama 1650 króna blaði upp hjá amazon í bretlandi, niðurstaðan úr þeirri könnun var að blaðið kostar 2,5 sterlingspund sem samsvarar 325 krónum og mismun upp á 1325 krónur sem hlýtur að stafa af því að einn starfsmaður er sendur út til englands til að sækja c.a 20 blöð í einu og flytja til landsins í handfarangri. Allavega trúi ég því ekki að fólk skuli kaupa varning af svona glæpamönnum sem svífast greinilega einskis til að svíkja peninga út úr fólki.