föstudagur, ágúst 20, 2004

Hollívúdd spollívúdd

Ég er að vinna í Hollívúddgötu númer 6. Ég vinn samt ekki neitt við kvikmyndir eða nokkuð annað þeim tengt og fer bara annað hvert ár í bíó. Engu að síður er ég um þessar mundir að vinna í næsta húsi við tvo mjög fræga ammiríska leikara. Allavega frétti ég í dag að þau væru að vinna hinumegin við götuna, ég sperrtist allur upp í matartímanum og horfði eins og hver annar plebbi út um gluggann í von um að sjá annað hvort Juliu Stiles eða Forest Whitaker bregða fyrir eitt augnablik en þau létu ekki sjá sig utan við tökustaðinn á þeim tuttugu mínútum sem ég góndi, þau voru heldur ekki úti þegar ég brunaði heim um sexleytið. Ég sá um daginn þegar verið var að gera klárt fyrir kvikmyndatökuna en skildi ekki hvað var í gangi því stúdeóið sem þau nota er í tiltölulega nýju húsi með hallandi bárujárnsþaki, samt voru menn að hífa torfrúllur upp á þakið. Nú er ég mun fróðari og veit að torfið er til að loka sólarljós úti, en það var sett yfir gegnsæjar lúgur á þakinu (reyklúgur).
Á morgun ætla ég að halda áfram að horfa út um gluggann á matsalnum þannig að ég hafi frá einhverju að segja á síðunni.

*************

Árið 2004 hefur reynt mikið á öll þau farartæki sem ég á eða átti, fyrst dó Pónyinn um páskana, þremur vikum seinna datt ég og braut á mér hnéð, nokkrum vikum eftir brotið var jeppinn dæmdur í gröfina og nú síðast var hringt í mig frá reiðhjólaverkstæðinu og mér sagt að reiðhjólið mitt væri orðið hálf ónýtt vegna ofnotkunar á fyrri árum.
Þetta er ekki samgjart eins og einn vinur minn orðar það.

*************

Meinvill talar um verkalýðsfrömuð með derring á síðunni sinni í dag, hún kom heim úr golfinu í gær í sjokki og sagði mér frá samskiptum sínum við frömuðinn og lýsti með tilþrifum viðskiptum þeirra. Nú hef ég aldrei stigið fæti inn á golfvöll en það verður að teljast í meira lagi freistandi að smella sér á völlinn ef maður á á hættu að fá froðufellandi verkalýðsforingja frá Blönduósi á eftir sér. Nú skilur maður til hvers maður notar dræver.
Tee Off