sunnudagur, ágúst 15, 2004

Leiðinleg keppni

Leiðinlegasta formúlu eitt keppni í mörg ár var haldin í dag í Ungverjalandi. Hún fór eins og allar hinar á árinu og eins og allar á síðasta ári og árið þar áður. Ætli maður fari ekki að finna sér eitthvað annað að gera á sunnudögum í framtíðinni, allavega þangað til að einhver annar en þýski skósmiðurinn dóminerar aðra keppendur.

***************

Við Meinvill erum búin að liggja yfir hótelsíðum á netinu síðustu daga, við ætlum að gista tvær nætur í köben í október. Bauni bró benti mér á Hotel Cabinn, en það er einhver skápaleiga með rúmum í. Við erum spenntust fyrir hóteli sem er beint á móti þessu Cabinn hóteli, það hótel heitir First Vesterbro og er **** en kostar það sama og skápurinn handan götunnar. Þetta hótel er miðsvæðis, við hliðina á Tivoli og skammt frá lestarstöðinni. Á myndum virka herbergin voðalega fín og stærri en kompurnar sem við höfum leigt í London.

***************

Í gær bjó ég til Ístertu í fyrsta sinn, við buðum foreldrum okkar í kaffi og ístertu um kvöldið. Ég átti ekki von á að tertan kláraðist því hún var svo stór og mikill ís í henni. Ég bjóst ekki við að það væri svona einfalt að gera svona tertu, það eina sem þarf er djúpt form (til að frysta í) tveir marengsbotnar, möndlur í bræddum sykri, tveir lítrar af vanilluís og matvinnsluvél.

***************

Ég er brenndur á bringunni. Í morgun vaknaði ég við fleira en hlandsprenginn sem maður vaknar við flesta morgna, nefnilega vaknaði ég við að ég var að klóra mér efst á bringunni. Ég staulaðist fram og hóf morgunverkin eins og venjulega en þegar föstu liðunum lauk tók aftersun meðferð við. Við sátum nefnilega úti á svölum stærstan hluta gærdagsins og lásum blöðin milli þess sem ég lagaði ístertuna. Það eru mörg ár síðan ég brann annarsstaðar en á höndum eða andliti en þetta kennir albínóanum að bera á sig sólarvörn.


Melting