sunnudagur, ágúst 22, 2004

Daginn eftir

Jæja þá er menningarhátíð Reykjavíkurbæjar búin þetta árið. Við lögðum af stað í bæinn klukkan þrjú og lögðum bílnum við Iðnskólann, eins og venjulega fórum við fyrst í Gallery Fold á Rauðarárstíg. Ég komst að því í gær að Það er ekkert svo sniðugt að fara í Gallery Fold því þar inni er mjög heitt og fólkið sem er alltaf fyrir manni í Bónusi er allt saman komið þarna stopp hlið við hlið í öllum dyrum og allsstaðar þar sem einhver þrenging er í húsinu.

Annars er svona það helsta sem við sáum í gær sem hér segir: 5ta herdeildin, Nonnabúð/dead vörurnar, Jólabúðin og starfsfólk hennar, Superman lopapeysur í Iðu og hellingur í viðbót.

Þegar hungrið sótti að fórum við á stúfana til að finna eitthvað í gogginn, við enduðum inni á Si Senior við lækjargötu og fengum að borða þar eftir heillanga bið, maturinn var bragðgóður en kaldur.

Þegar líða tók á kvöldið hittum við listmálarann, umhverfisráðherra ættarinnar og vin þeirra og slepptum við ekki takinu á þeim fyrr en eftir flugeldasýningu.

Kvöldið endaði fyrir framan svartholið í stofunni þar sem horft var á DVD sem Meinvill keypti á útsölu í 12 tónum, þetta mun hafa verið Línan sem var sýnd fyrir mörgum árum í sjónvarpinu.

*************

Þeir sem mig þekkja vita mæta vel að þegar eitthvað byrjar að fara í taugarnar á mér er erfitt að fá mig til að skipta um skoðun. Þetta á við um Landssímann, ég skil ekki hvað allt í kringum það fyrirtæki fer í taugarnar á mér. Ég komst meira að segja í vont skap áðan því ég þurfti að fletta nafninu á veitingastaðnum sem við borðuðum á í gær upp í símaskránni á netinu en þess ber að geta að leitarvélin fyrir símaskrána er lélegasta leitarvél í heimi, ef ég ætla að finna eitthvað í skránni þarf ég að vita upp á hár hvað maðurinn/fyrirtækið/gatan heitir því símaskráin á netinu býður ekki upp á að maður sleppi síðustu stöfunum í orðinu sem maður leitar að. Nú ætti leitarvélin þeirra að bjóða upp á slæma málnotkun eins og ímynd fyrirtækisins er þessa dagana.