Samsæri
Ég er búinn að komast að því að það er samsæri gegn mér í familíunni. Þannig er mál með vexti að ég hef átt þrjá misgóða jeppa um ævina og einn ofurtrukk , tvær súkkur og á Nissan eins og er trukkurinn var af subaru gerð, justy týpan. Þessir jeppar hafa reynst misjafnlega og sá fyrsti sínu verst því ég eyddi lengri tíma undir honum við að rífa sundur og setja saman en að keyra hann.
Á nokkurra ára fresti er farin fjölskyldu jeppaferð, þá er gjarnan farinn einhver léttur hringur um lægri hluta hálendisins. Þessar ferðir hafa alltaf verið farnar rétt eftir að ég sel jeppa eða hef gefið út dánarvottorð á hann. Ekki veit ég hvort familían nennir ekki að keyra með mér eða að þetta sé helber tilviljun. Mig grunar að um samsæri sé að ræða því ferðin sem á að fara á sunnudag var ákveðin sama dag og stóreflis bilun kom fram í Nissaninum.
Í vetur eða vor ætlum við að losa okkur við golftíkina og fá okkur jeppa aftur, þá er spurning um að blása til fjölskyldu jeppaferðar sjálfur og athuga hvort einhver mætir.
***********
Veiði veiði veiði á morgun í Hítarvatni á mýrum. Við fórum þangað í fyrra og veiddum vel þrátt fyrir að vera með veiðifélaga sem æfði sig í óperusöng úti í vatninu mér til mikillar ánægju. Það er spurning um að senda forfeðrunum hugskeyti og biðja um góð aflabrögð því ég er viss um að þeir eru þarna enn á sveimi kringum rústirnar af Hrófbjargarstöðum.
Ég held bara að þeir hafi ekki þekkt pabba þarna í fyrra því hann veiddi víst lítið eða ekkert.
<< Home