mánudagur, ágúst 30, 2004

Akureyringar

Ég geri mér grein fyrir að Akureyringar og aðrir norðlendingar nota einhverjar aðrar aðferðir við að mæla veðurhæð en aðrir landsmenn en ég vissi ekki að maður væri orðinn ökuníðingur ef maður ekur bíl á ríflegum gönguhraða. Allavega fann ég þetta í norðlenskum fréttum á ruv.is.


29.08.2004 12:06
Ökuníðingur tekinn við Húsavík
Maður á þrítugsaldri grunaður um ölvun sem ók á 20 km hraða milli Akureyra og Húsavíkur í morgun var færður í fangageymslur lögreglunnar á Húsavík. Hann má eiga von á því að verða sviptur ökuleyfi.

Svo er þetta bara svona ljómandi vel stafsett hjá þessum blessuðu ríkisstarfsmönnum, ég er samt ekki viss hvort það var ölvunin eða maðurinn sem keyrði á 20kmh ;)

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Túrinn í gær

Lögðum af stað úr bænum klukkan hálf ellefu, fyrsta stopp var í Borgarnesi þar sem við fylltum bílinn af bensíni og fórum svo í fyrirtækið sem er réttur eigandi vörumerkisins KB og þar keypti Orkuveitustarfsmaðurinn sér smá viðbót við nestið sitt. Við komum í Hítardal klukkan tólf og vorum komnir að vatninu hálftíma seinna, þá tók við hálftíma gönguferð að veiðistaðnum sem er tangi langt úti í vatninu. Aflabrögð voru í lágmarki og má segja að hver fiskur sem við lönduðum hafi kostað 1000 kall ef maður deilir veiðileyfunum og aflanum jafnt.
Veiði lauk klukkan rúmlega átta um kvöldið og við vorum komnir í bæinn rétt fyrir klukkan ellefu.

**********

Ég ætla ekki að endurfjármagna lánin sem hvíla á íbúðinni.Ég er nokkuð viss um að það sé einhver refskák í gangi hjá bönkunum og gott ef þetta er ekki líka samsæri. Samsærið felst í því að hafa lánin verðtryggð þannig að það megi nú breyta vöxtunum þegar bráðin hefur bitið á agnið, eins og flestir heilvita menn vita er einhver einstefna á vöxtunum og þeim er alveg ómögulegt að lækka eftir að maður hefur tekið lánið. Þegar allir bankarnir eru búnir að koma sér saman um vaxtastig og dagana sem á að nota til að hækka vextina er smjörkúkurinn Guðjón sendur í kastljósið til að grenja yfir óréttlæti heimsins gagnvart bönkunum og til segja að nú verði ríkið að draga sig út af húsnæðislánamarkaði.(Guðjón er fífl)
Þegar ríkið dregur sig svo út af markaðinum hækka allir sem einn vextina upp í nákvæmlega sömu prósentu og senda svo Guðjón í Kastljósið til að verja vaxtahækkunina fyrir alla bankana.

Eini bankinn sem ég veit til að hafi hækkað innlánsvexti og lækkað útlánsvexti er s24. Um daginn kíkti ég á debetreikninginn minn þar og komst að því að innlánsvextirnir höfðu hækkað úr 4,55% í 5,1% og yfirdráttarvextirnir höfðu lækkað að sama skapi. Vextirnir á gamla debetreikningnum voru 0,5% þannig að þetta er nokkur munur.
laugardagur, ágúst 28, 2004

Samsæri

Ég er búinn að komast að því að það er samsæri gegn mér í familíunni. Þannig er mál með vexti að ég hef átt þrjá misgóða jeppa um ævina og einn ofurtrukk , tvær súkkur og á Nissan eins og er trukkurinn var af subaru gerð, justy týpan. Þessir jeppar hafa reynst misjafnlega og sá fyrsti sínu verst því ég eyddi lengri tíma undir honum við að rífa sundur og setja saman en að keyra hann.
Á nokkurra ára fresti er farin fjölskyldu jeppaferð, þá er gjarnan farinn einhver léttur hringur um lægri hluta hálendisins. Þessar ferðir hafa alltaf verið farnar rétt eftir að ég sel jeppa eða hef gefið út dánarvottorð á hann. Ekki veit ég hvort familían nennir ekki að keyra með mér eða að þetta sé helber tilviljun. Mig grunar að um samsæri sé að ræða því ferðin sem á að fara á sunnudag var ákveðin sama dag og stóreflis bilun kom fram í Nissaninum.
Í vetur eða vor ætlum við að losa okkur við golftíkina og fá okkur jeppa aftur, þá er spurning um að blása til fjölskyldu jeppaferðar sjálfur og athuga hvort einhver mætir.

***********

Veiði veiði veiði á morgun í Hítarvatni á mýrum. Við fórum þangað í fyrra og veiddum vel þrátt fyrir að vera með veiðifélaga sem æfði sig í óperusöng úti í vatninu mér til mikillar ánægju. Það er spurning um að senda forfeðrunum hugskeyti og biðja um góð aflabrögð því ég er viss um að þeir eru þarna enn á sveimi kringum rústirnar af Hrófbjargarstöðum.
Ég held bara að þeir hafi ekki þekkt pabba þarna í fyrra því hann veiddi víst lítið eða ekkert.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Húrra húrra húrra

Ég er kominn með annan lesanda að síðunni minni, það er gaman að fá viðbrögð við því sem maður setur á netið því þá veit maður í það minnsta hvort einhver les þetta eða ekki.
Besta leiðin til að lækka verð á öllum mögulegum hlutum er að hætta að kaupa vöruna sem okrað er á. Flestir sem ég umgengst dags daglega eru búnir að átta sig á að það þarf ekki endilega að kaupa vöruna á Íslandi heldur er hægt að nota sér netið til að panta inn dótarí sem mann bráðvantar eins og tónlist, bækur, DVD og tímarit.

***********

Um daginn tók ég mig til og fór með hjólið mitt á verkstæði til að láta setja keðju á hjólið mitt, keðjan sem ég rétti manninum og hafði keypt nokkru fyrr í þessari reiðhjólaverslun var ekki sú rétta fyrir hjólið þannig að auka kostnaður hlaust af. Næstu tvo daga hjólaði ég í vinnuna en var ekki alveg sáttur við hjólið því keðjan datt af í tíma og ótíma og hjólið skipti um gír eins og því væri borgað fyrir. Ég tók því hjólið og henti í hausinn á viðgerðamanninum og lét þau orð falla að næst vildi ég fá hjólið í lagi, nokkrum dögum seinna hringdi maðurinn í mig og sagði að fremri tannhjólin væru ónýt og annar gírskiptirinn væri líka ónýtur, ég fór í hjólaskúffuna hjá Bauna og fann skiptingu og bað manninn að setja hann á hjólið og ný tannhjól að framan hann tuðaði eitthvað og sagði að það væri dýrt ég lokaði eyrunum og labbaði út.
Í fyrradag fór ég svo og sótti hjólið, kallinn sagði að hjólið væri alveg tipp topp og hann væri búinn að prófa það sjálfur. Það er skemmst frá því að segja að það er svo illa stillt hjá honum að ég býst við að ég verði að stilla það sjálfur því ég nenni ekki að eltast við kallinn. Þar sem ég er iðnaðarmaður sjálfur veit ég að ef einhver skilar hlut sem uppfyllir ekki kröfur um gæði vandar maður sig alveg sérstaklega við að laga það sem um var beðið og maður lætur hlutinn ekki frá sér nema maður sé búinn að gulltryggja að vitleysan sé horfin. Það er spurning um að fá ráð frá SM um hvernig á að eiga við ómögulega verkstæðismenn sem kunna ekki að finna bilanir í skiptingum,,,,,, ég veit þó að það er ekkert að svissinum. :/

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Einmannalegt

Það verður bara að játast að það er að verða hálf einmannalegt á klakanum. Nú eru Virkjarnir fluttir til Svíþjóðar, Bauni bró og familía eru á sínum stað á Hrossanesi og á morgun fer nafni til Danmerkur til að halda áfram með námið sitt. Manni liggur við að segja síðasti maður út slekkur ljósið og læsir á eftir sér.

***********

Í kvöld eldaði ég Íslenska kjötsúpu í fyrsta sinn á ævinni, hún heppnaðist líka svona kjómandi vel í alla staði, ég eldaði að vísu allt of mikið þannig að hún verður bara aftur í matinn á morgun.

************

Ekki grunaði mig að ég ætti á hættu að sitja límdur við sjónvarpið yfir stangastökki kvenna á ólympíuleikum, það gerðist í gær þegar Þórey Edda fyrrverandi nágranni minn hoppaði margfalda hæð sína í loft upp í Aþenu. Spenningnum lauk ekki fyrr en keppni var lokið og ég sem hélt að spennan væri öll úr þegar Þórey felldi.


mánudagur, ágúst 23, 2004

Græðgi

Ég hef örugglega bent á það í öðrum pistli að hljómplötusalar á Íslandi eru gráðugir og okrarar, um helgina komst ég enn betur að því að bóksalar eru þeim engir eftirbátar í verðlagningu. Við gengum inn í nýjustu bókabúð bæjarins á laugardag, Meinvill skoðaði reyfarana sem var mikið úrval af en ég brá mér hinumegin í búðina og skoðaði ægilega fín tímarit um matargerð, bakstur og fleira sem hægt er að malla í eldhúsi, ég var mest að spá í hvort ekki væri eitthvað til um asíska matargerð. Ég er ekki viss um að ég hafi fundið það sem ég leitaði að því ég rak augun í verðmiða á einu blaðanna og á honum stóð að blaðið kostaði 1650 íslenskar krónur, jebb segi og skrifa. Nú er það svo að ég er orðinn ansi lunkinn við að gera verðsamanburð milli landa og þessvegna settist ég í gær niður við tölvuna og fletti þessu sama 1650 króna blaði upp hjá amazon í bretlandi, niðurstaðan úr þeirri könnun var að blaðið kostar 2,5 sterlingspund sem samsvarar 325 krónum og mismun upp á 1325 krónur sem hlýtur að stafa af því að einn starfsmaður er sendur út til englands til að sækja c.a 20 blöð í einu og flytja til landsins í handfarangri. Allavega trúi ég því ekki að fólk skuli kaupa varning af svona glæpamönnum sem svífast greinilega einskis til að svíkja peninga út úr fólki.


sunnudagur, ágúst 22, 2004

Daginn eftir

Jæja þá er menningarhátíð Reykjavíkurbæjar búin þetta árið. Við lögðum af stað í bæinn klukkan þrjú og lögðum bílnum við Iðnskólann, eins og venjulega fórum við fyrst í Gallery Fold á Rauðarárstíg. Ég komst að því í gær að Það er ekkert svo sniðugt að fara í Gallery Fold því þar inni er mjög heitt og fólkið sem er alltaf fyrir manni í Bónusi er allt saman komið þarna stopp hlið við hlið í öllum dyrum og allsstaðar þar sem einhver þrenging er í húsinu.

Annars er svona það helsta sem við sáum í gær sem hér segir: 5ta herdeildin, Nonnabúð/dead vörurnar, Jólabúðin og starfsfólk hennar, Superman lopapeysur í Iðu og hellingur í viðbót.

Þegar hungrið sótti að fórum við á stúfana til að finna eitthvað í gogginn, við enduðum inni á Si Senior við lækjargötu og fengum að borða þar eftir heillanga bið, maturinn var bragðgóður en kaldur.

Þegar líða tók á kvöldið hittum við listmálarann, umhverfisráðherra ættarinnar og vin þeirra og slepptum við ekki takinu á þeim fyrr en eftir flugeldasýningu.

Kvöldið endaði fyrir framan svartholið í stofunni þar sem horft var á DVD sem Meinvill keypti á útsölu í 12 tónum, þetta mun hafa verið Línan sem var sýnd fyrir mörgum árum í sjónvarpinu.

*************

Þeir sem mig þekkja vita mæta vel að þegar eitthvað byrjar að fara í taugarnar á mér er erfitt að fá mig til að skipta um skoðun. Þetta á við um Landssímann, ég skil ekki hvað allt í kringum það fyrirtæki fer í taugarnar á mér. Ég komst meira að segja í vont skap áðan því ég þurfti að fletta nafninu á veitingastaðnum sem við borðuðum á í gær upp í símaskránni á netinu en þess ber að geta að leitarvélin fyrir símaskrána er lélegasta leitarvél í heimi, ef ég ætla að finna eitthvað í skránni þarf ég að vita upp á hár hvað maðurinn/fyrirtækið/gatan heitir því símaskráin á netinu býður ekki upp á að maður sleppi síðustu stöfunum í orðinu sem maður leitar að. Nú ætti leitarvélin þeirra að bjóða upp á slæma málnotkun eins og ímynd fyrirtækisins er þessa dagana.

laugardagur, ágúst 21, 2004

Spenningur fyrir menningu

Nú eru tveir eða þrír tímar í að ég set upp alpahúfuna og lími á mig spjótyfirvaraskegg og held í bæinn til að listasnobbast eitthvað aðeins.
Reyndar á ég bágt með að skilja nafnið á viðburðinum sem ég ætla að sækja því þetta kallast víst Menningarnótt en fer fram að mestu um hábjartan dag. Fyrir mörgum árum fór maraþonið fram morguninn eftir menningarnótt, Þá var ekki gaman. Ég hafði eitt sinn brugðið mér í kaupstaðinn fyrir miðnætti til að sjá flugeldasýninguna og drekka eitthvað annað enn menningu í mig, drykkjan stóð eitthvað fram eftir nóttu og fram á næsta morgun í eftirpartýi einhversstaðar í mela eða haga hverfinu. Þetta var fyrir þann tíma að hægt væri að borga með debetkorti fyrir far með leigubílum og þennan morgunn var verið að lagfæra hraðbankana þannig að ég var búinn með peningana og ekki möguleiki að komast í strætó eða leigubíl. Þegar þetta gerðist bjó ég í höfuðstaðnum þannig að það var nú ekkert óskaplegt mál að ganga bara milli hverfa. Þegar ég kom niður á Fríkirkjuveg fór ég að sjá borðum raðað upp með reglulegu millibili og heljarinnar birgðir af djúsi vatni og fleiri drykkjum raðað upp á þau, ég botnaði lítið í þessu og hélt göngunni áfram í átt að Lækjargötu. Þegar ég kom fyrir hornið á lækjargötu við tjörnina sá ég hvernig stóð á öllum drykkjarföngunum því þar blasti við mér hópur fólks sem hafði ekki verið í sama partýi og ég um nóttina, það fór ekki á milli mála. Þarna voru flestir klæddir í stuttbuxur og stuttermaboli teygjandi á sér skanakana í allar áttir haldandi á ávöxtum í öllum regnbogans litum, ég var í gallabuxum og dúnúlpu og ef ég hélt á einhverju hefur það sennilega verið sígaretta eða bjór.
Ég get nú ekki sagt að þetta hafi haft einhver afgerandi áhrif á líf mitt en ég er ekki frá því að ég hafi greikkað sporið meðan ég gekk þarna í gegn því mér fannst ég ekki passa alveg nógu vel inn í hópinn.
Um kvöldið og daginn eftir kom í fréttum að þegar fólkið var að stilla sér upp fyrir hlaupið hafi einhverjar ölvaðar eftirlegukindur verið á vappi í bænum, ég veit ekki hvort ég tilheyrði þessari hjörð sem blaðamennirnir töluðu um en ég veit bara að ég hef ekki séð maraþonborðan sem markar upphaf og enda hlaupsins aftur og sakna hans ekki neitt.

************

Það er búið að bjóða okkur á myndlistarsýningu á eftir á stað sem er sennilega soldið fínn því ég hef heyrt talað um hann í fjölmiðlum án þess að það hafi verið í dagbók lögreglunnar. Það er mágur minn listmálarinn sem heldur þessa sýningu og umhverfisráðherra ættarinnar boðaði okkur á staðinn, sennilega til að halda á kampavínsglösum. Mér finnst gaman að halda á kampavíni því það er alltaf eitthvað merkilegt að gerast þegar ég held á slíku galsi en mér finnst ekkert spes að drekkað það nema það sé úr blárri flösku með miklu ávaxtabragði. Ég man því miður ekki hvað þetta uppáhalds kampavín mitt heitir en ég þekki flöskuna þegar ég sé hana.
Ég ætla líka á ljósmyndasýningu hjá Ingu frænku, nú tala ég eins og ég þekki hana eitthvað en svo er því miður ekki. Við erum samt næstum eins skyld og hægt er, kannski hristi ég bara á henni spaðann á eftir og kynni mig fyrir henni.

************

Í gær horfðum við á Ali G in Da house en hún var sýnd á bláskjá í gær. Þetta var önnur tilraun til að horfa á ræmuna en í fyrra skiptið gáfumst við upp á myndinni vegna þess hve þunn hún er. Nú horfðum við á hana með öðru hugarfari því að ynningu myndarinnar brá fyrir einum af mínum uppáhalds bresku leikurum. Myndin var alveg jafn þunn og í fyrra skiptið en að þessu sinn horfðum við til enda og seinni helmingurinn var betri en sá fyrri. Hvað er málið með þetta fólk hjá ríkisimbanum og nöfn á erlendum myndum ali g in da house= ali g fer á þing og lengi mætti telja en ekkert kemur upp í hugann.
Þegar Ali var búinn setti ég Dvd í spilarann, fyrir valinnu var The Transporter, Bresk/frönsk mynd sem Luc Besson framleiddi, það þarf ekki að taka fram að myndin er hrein og tær snilld eins og flest annað sem maðurinn tekur sér fyrir hendur.


Helvítis drasl ég get ekki leiðrétt vitleysur í síðasta dálknum því að blogger er að stríða mér eitthvað buhu

föstudagur, ágúst 20, 2004

Hollívúdd spollívúdd

Ég er að vinna í Hollívúddgötu númer 6. Ég vinn samt ekki neitt við kvikmyndir eða nokkuð annað þeim tengt og fer bara annað hvert ár í bíó. Engu að síður er ég um þessar mundir að vinna í næsta húsi við tvo mjög fræga ammiríska leikara. Allavega frétti ég í dag að þau væru að vinna hinumegin við götuna, ég sperrtist allur upp í matartímanum og horfði eins og hver annar plebbi út um gluggann í von um að sjá annað hvort Juliu Stiles eða Forest Whitaker bregða fyrir eitt augnablik en þau létu ekki sjá sig utan við tökustaðinn á þeim tuttugu mínútum sem ég góndi, þau voru heldur ekki úti þegar ég brunaði heim um sexleytið. Ég sá um daginn þegar verið var að gera klárt fyrir kvikmyndatökuna en skildi ekki hvað var í gangi því stúdeóið sem þau nota er í tiltölulega nýju húsi með hallandi bárujárnsþaki, samt voru menn að hífa torfrúllur upp á þakið. Nú er ég mun fróðari og veit að torfið er til að loka sólarljós úti, en það var sett yfir gegnsæjar lúgur á þakinu (reyklúgur).
Á morgun ætla ég að halda áfram að horfa út um gluggann á matsalnum þannig að ég hafi frá einhverju að segja á síðunni.

*************

Árið 2004 hefur reynt mikið á öll þau farartæki sem ég á eða átti, fyrst dó Pónyinn um páskana, þremur vikum seinna datt ég og braut á mér hnéð, nokkrum vikum eftir brotið var jeppinn dæmdur í gröfina og nú síðast var hringt í mig frá reiðhjólaverkstæðinu og mér sagt að reiðhjólið mitt væri orðið hálf ónýtt vegna ofnotkunar á fyrri árum.
Þetta er ekki samgjart eins og einn vinur minn orðar það.

*************

Meinvill talar um verkalýðsfrömuð með derring á síðunni sinni í dag, hún kom heim úr golfinu í gær í sjokki og sagði mér frá samskiptum sínum við frömuðinn og lýsti með tilþrifum viðskiptum þeirra. Nú hef ég aldrei stigið fæti inn á golfvöll en það verður að teljast í meira lagi freistandi að smella sér á völlinn ef maður á á hættu að fá froðufellandi verkalýðsforingja frá Blönduósi á eftir sér. Nú skilur maður til hvers maður notar dræver.
Tee Off


sunnudagur, ágúst 15, 2004

Leiðinleg keppni

Leiðinlegasta formúlu eitt keppni í mörg ár var haldin í dag í Ungverjalandi. Hún fór eins og allar hinar á árinu og eins og allar á síðasta ári og árið þar áður. Ætli maður fari ekki að finna sér eitthvað annað að gera á sunnudögum í framtíðinni, allavega þangað til að einhver annar en þýski skósmiðurinn dóminerar aðra keppendur.

***************

Við Meinvill erum búin að liggja yfir hótelsíðum á netinu síðustu daga, við ætlum að gista tvær nætur í köben í október. Bauni bró benti mér á Hotel Cabinn, en það er einhver skápaleiga með rúmum í. Við erum spenntust fyrir hóteli sem er beint á móti þessu Cabinn hóteli, það hótel heitir First Vesterbro og er **** en kostar það sama og skápurinn handan götunnar. Þetta hótel er miðsvæðis, við hliðina á Tivoli og skammt frá lestarstöðinni. Á myndum virka herbergin voðalega fín og stærri en kompurnar sem við höfum leigt í London.

***************

Í gær bjó ég til Ístertu í fyrsta sinn, við buðum foreldrum okkar í kaffi og ístertu um kvöldið. Ég átti ekki von á að tertan kláraðist því hún var svo stór og mikill ís í henni. Ég bjóst ekki við að það væri svona einfalt að gera svona tertu, það eina sem þarf er djúpt form (til að frysta í) tveir marengsbotnar, möndlur í bræddum sykri, tveir lítrar af vanilluís og matvinnsluvél.

***************

Ég er brenndur á bringunni. Í morgun vaknaði ég við fleira en hlandsprenginn sem maður vaknar við flesta morgna, nefnilega vaknaði ég við að ég var að klóra mér efst á bringunni. Ég staulaðist fram og hóf morgunverkin eins og venjulega en þegar föstu liðunum lauk tók aftersun meðferð við. Við sátum nefnilega úti á svölum stærstan hluta gærdagsins og lásum blöðin milli þess sem ég lagaði ístertuna. Það eru mörg ár síðan ég brann annarsstaðar en á höndum eða andliti en þetta kennir albínóanum að bera á sig sólarvörn.


Melting


laugardagur, ágúst 14, 2004

Allt of heitt

Það er of heitt til að vinna þessa dagana, samt harkar maður af sér til að ná í nokkrar auka krónur. Ég þakka bara fyrir að þetta er fáir svona dagar á ári því það er hreint helvíti að vinna í smiðju í svækjunni.

***********

Í gær hringdi tilvonandi svíinn í mig og bauð okkur Meinvill í mat um kvöldið, þau eru bara rétt ófarin til Svíþjóðar til að setjast á enn einn skólabekk. Við mættum í okkar fínasta pússi til þeirra um kvöldmatarleititð og röbbuðum við litlu skvísuna sem er ekki orðin eins árs en hálftalandi. Það væri gaman að hitta þau í haust þegar við förum til köben því þau verða ansi nálægt köben þrátt fyrir að vera í svíþjóð.

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Ferðalög

Í haust ætlum við Meinvill til útlands, eða svona hér um bil. Við ætlum að skella okkur fyrir 18 kall til Danveldis en heim fyrir mun hærri fjárhæð. Stefnan er sett beint á Hrossanes í heimsókn til litlu frænku og foreldra hennar, kannski reynum við að hitta fleiri en við verðum bara fimm daga á ferðinni þannig að það verður að skipuleggja tímann svolítið. Við erum að pæla í að vera þrjá daga í Horsens og restina í Köben.

**********

Í gær fórum við í mat til tengdó, þar hittum við Hálf-Ítalann. Drengurinn lék við hvurn sinn fingur og heilsaði mér með þeim orðum "hessi me" (þessi með) svo sýndi hann mér jeppann sem afi hans á og káfaði eitthvað inn í felgurnar með tilheyrandi snyrtimennsku, svo þegar ég fór inn sýndi hann Meinvill pústið á bílnum og klappaði svo allri hliðinni á bílnum. Meinvill fékk það verkefni að þrífa hendurnar á kauða því þær voru eins og á afa hans á góðum degi.

***********

Ég er bara búinn að hlusta á einn diskanna sem ég keypti mér síðast, en það er diskurinn: The civil war með Matmos, lag númer tvö á þeim diski er algjör snilld með sekkjarpípum og overlódandi bassa. Eftir að hafa hlustað á þessa gaura skilur maður alveg afhverju Björk hefur fengið þá til samstarfs við sig.

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Stórgróði

Sumir segjast hafa grætt þetta mikinn pening þegar þeir hafa sparað nokkrar krónur. Það má segja að ég hafi grætt/sparað hundraðþúsundkall á föstudaginn þegar rukkunin fyrir húsviðgerðinni kom inn um lúguna, tilboðið sem við fengum í verkið hljóðaði upp á fjögurhundruðþúsund á mína íbúð, ég gerði ráð fyrir fimmtíu bláum í viðbót til að það kæmi mér ekkert á óvart þegar gert væri upp, ég var líka búinn að viða að mér yfirdrætti til að geta staðið skil á reikningnum. Á föstudaginn kom svo rukkun upp á hundraþúsundkalli minna en ég hafði gert ráð fyrir þar með var ég búinn að græða hundrað bláa.

************

Við pabbi fórum í veiði í Mýrdal í gær eins og hefur komið fram áður, við mættum klukkan tíu að Heiðarvatni með regngalla stangir nesti og allt annað sem gagnast til að létta manni lífið við veiðiskapinn. Við fengum satt best að segja ömurlegt veður, hávaða rok mestu rigningu sem ég hef séð á íslandi. Ég er ekkert að grínast með það að ef rigningin hefði verið örlítið þéttari hefði maður þurft að taka sundtökin. Aflabrögð voru með ágætum, þó veiddi pabbi meira en ég. Ég fékk einn þriggja punda og nokkra minni en mér sýndist pabbi fá tvo þriggja punda og slatta af öðrum minni. Við komum heim klukkan tíu og ég var sofnaður klukkan hálf tólf.

laugardagur, ágúst 07, 2004

Skítapakk

Ég fékk staðfestingu á að starfsfólk Kfc er ekki björtustu perurnar í ljósakrónunni.Ég hef fjórum sinnum keypt hotwings hjá þeim en bara tvisvar fengið hotwingssósu(sem er aðalatriðið með þessum bitum). Oft og mörgum sinnum hef ég ekki fengið kokteilsósu(sem er ágætt því hún er óholl) en mér finnst að ef þær gleyma að setja sósuna í pokann eiga þær að sleppa því að rukka mann fyrir hana.
Ég hef aldrei kvartað við kfc fyrr en í kvöld, ég hef bara bölvað í hlóði og hugsað þeim þegjandi þörfina, þangað til í kvöld þá sprakk ég og reif upp símann, fyrir svörum var einhver stúlkukind sem sagði mér að henni þætti þetta ákaflega leitt og bað mig afsökunar. Ég muldraði eitthvað í símann og lamdi svo saman einu bréfi sem ég sendi forsvarsmanni þessa veitingastaðar og tíundaði allar sósurnar sem ég hef farið á mis við.

***********

Ég fékk sendingu frá Breska heimsveldinu í kvöld, hún innihélt nokkra pakka af afþreyingu, eina 470 síðna bók um ambienttónlist geisladisk með Matmos, baba tiki dido sem er nýjasta afurð Sigurrósar, einn disk með Blonde redhead og selected ambient works 85-92 með Aphex twin, ég keypti líka þrjár dvd myndir, fyrst ber að nefna Pirates of the Carribean svo voru the transporter og Intolerable cruelty en sú mynd er eftir sömu gaura og gerðu meistaraverkin The big lebowski og oh brother were art thou.

***********

Meinvill gerði lista yfir uppáhalds diskana sína eftir að ég rausaði eitthvað um að mér þætti þessi og hinn diskurinn afburðargóður. Hér kemur sýnishorn af uppáhaldinu mínu.Þó ég númeri diskana gefur það enga mynd af því hvar á listanum þeir eru því það er erfitt að gera upp á milli þeirra og skoðun manns getur breyst milli daga.

1) The Orb- the orb´s adventures beyond the ultraworld
2) Sigurrós- Ágætis byrjun
3) Muse- Origin of symmetry
4) Aphex Twin-SAW vol 2
5) Brian Eno- Appollo atmospheres and soundtracks
6) Daniel Lanois- Shine
7) Massive attack- Messanine
8) The Orb- Orblivion
9)Faith no more- Angeldust
10) Singapore Sling- The curse of singapore sling
11) Aphex Twin- Come to daddy
12) Muse- Hullabaloo
13) Akasha- Love philtre magic
14) Safndiskurinn One Love/Warchild gefinn út til styrktar stríðshrjáðum börnum
15)Radiohead-Amnesiac
16) The Avalanches- Since I left you
17) Death in Vegas-The contino sessions
18) Clinic-Internal wrangler
19) Thievery corporation-DJ kicks
20) Deus- in a bar under the sea

Svona lítur það nú út inn á þennan lista vantar helling af diskum en engum er ofaukið

Grátur og gnístran tanna

Nú ætti maður að vera alveg ofsalega spældur því teljarinn á síðunni hefur tekið sig til og núllast í gær eða nótt þannig að það lítur út fyrir að síðan sé ný.

*******

Ég er að fara að veiða á eftir með pabba, förinni er heitið í Mýrdalinn nánar tiltekið í Heiðarvatn. Ég hef ekki komið að heiðarvatni síðan einhver fiskur sleit hjá mér færið vegna þess að hjólið var bilað og síðar ónýtt.

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Framkvæmdir

Nú er búið að afmá allan bleika litinn af húsinu okkar Meinvills, í staðinn er komin ægilega fín stein klæðning. Ég hélt í einfeldni minni að inngangarnir væru inni í tilboðinu en við þurfum víst að laga þá sjálf þegar smiðirnir verða farnir. Buhu og ég hélt að það kæmi allt til með að verða sjæning þegar vinnuskúrinn færi í burt.

*********

Við fórum í afmæli til ömmu á mánudaginn, kellan var gasalega hress og lék við hvurn sinn fingur og hvatti allar kellingarnar í veisluni að reyna að ná þessum sama aldri og hún svo bætti hún við að þetta væri nú að verða gott, þá barði ég í borðið og benti henni á að fyrir nokkrum árum lýsti hún því yfir við mig að fyrst hún væri orðin þetta gömul væri ekki úr vegi að verða bara 100 ára.
Tignir gestir mættu í veisluna og þess má geta að frænka mín og maðurinn hennar mættu á svæðið á sitthvorum bílnum og er samanlagt verðmæti þeirra meira en íbúðarinnar sem ég bý í. Þess ber að geta að kallinn komst inn á topp fimm yfir þá sem greiddu hæsta skatta í Reykjavík á síðasta ári.
Ég tók að mér bakstur fyrir veisluna og uppskar hrós frá frænkum mínum með þeim orðum að þær hefðu ekki smakkað betri súkkulaðiostaköku, þökk sé fínu bókinni sem ég fékk í afmælisgjöf.

***********

Ég er að vona að ég fái nýju diskana mína frá breska heimsveldinu í kvöld, ég held það verði stór kassi undir herlegheitin því ég pantaði fimm diska þrjár dvd og eina bók. Næst ætla ég að reyna að muna að panta rakvélablöð því þau eru helmingi ódýrari þar en hér. Ég hafði vit á að kaupa svoleiðis í síðustu ferð minni til London, það munar aðeins um það að blöðin kosta 1500 kall 8 stk hér heima en 1500 kall 16 stk í London. Ég dreg í efa að nokkur vilji fá bókina lánaða því þetta er bók um sögu ambienttónlistar, það er einna helst að listmálarinn steli henni en ég held líka að hann lesi allt.

Annars er ég búinn að vera óvenju duglegur að lesa í sumar og er búinn með eina eftir Ævar Örn Jósepsson, þrjár eftir Arnald Indriðason og eina eftir Stephen King, sú bók er reyndar ein sú langdregnasta sem ég veit um það fóru t.d. tvöhundruð blaðsíður í að lýsa eltingaleik þriggja bíla.
Nú er ég að lesa bók sem heitir kvenspæjarastofa nr1 og hún lofar góðu.

***********

Á morgun byrjar svo vinnan aftur og ekki verður tekið meira frí fyrr en ég skelli mér til Danaveldis í heimsókn til Bauna bró og ætli maður tæki ekki smá sveig til svíaríkis líka til að kíkja á tilvonandi nýbúa þar. Ég stefni á að skjótast þangað einhverntíman í haust sennilega í okt frekar en nóv.

mánudagur, ágúst 02, 2004

Gömul föt verða sem ný

Ég hef átt við sama vanda að etja og margir aðrir á mínum aldri. Eftir að ég hætti að vaxa upp á við fór ég að vaxa bæði fram og út á hlið. Verst var þetta meðan ég var heima í hnébrotinu því þá gat ég ekki djöflast neitt, meðan vöðvarnir rýrnuðu óx belgurinn en þó án þess að ég þyngdist neitt að ráði, þó náði ég að slá þyngdar met mitt sem er nú engin óskapleg tala.
Eftir að ég byrjaði að vinna hefur hvert kílóið flogið á eftir öðru án þess að ég hafi gert neitt sem ætti að stuðla að þyngdartapi annað en að ég hef reynt að vera nokkuð duglegur í vinnunni.
Í gær varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að finna gamlar uppáhaldsbuxur inni í skáp, ég kippti þeim út úr skápnum og hugsaði: ætli ég passi í þessar? Viti menn þær smell pössuðu og ég hef ekki enn sprengt smelluna á þeim upp.

************

Ég er að fara í afmæli á eftir til Ömmu minnar sem náði þeim merka áfanga í dag að verða 95 ára. Ég er búinn að baka tvær ostakökur í tilefni dagsins. Það verður nú engi stórveisla en þó koma tvær gamlar frænkur í heimsókn til hennar og svo verður familían náttúrulega á staðnum reyndar mínus baunafamilían.
sunnudagur, ágúst 01, 2004

Verzlunarmannahelgi

Jamm ótrúlegt en satt að verzlunarmannahelgin er að verða búin og við Meinvill höfum ekkert farið út úr bænum. Það helgast af tvennu annarsvegar er veðrið ekkert spes og jeppinn er ónýtur.

************

Í gær fórum við í afmælisveislu til umhverfisráðherra ættarinnar, okkur var boðið upp á eplavöfflur, kaffi og plat pepsi í plastflösku. Þegar við vorum búin að renna niður kræsingunum var gripið til spila, fyrir valinu varð seqence(er ekki alveg sjúr á uppröðun á stöfum í þessu orði) það má eiginlega segja að það hafi verið jafntefli í spilinu nema í einni umferðinni en þá var þrátefli.

***********

Ég ætla ekki að fara á útihátíðina á Austurvelli í dag þó það verði lúðrasveit og ræðuhöld. Sjallarnir ætla ekki að mæta heldur því sá flokkur er fullur af fólki sem með þroska á við eigingjörn leikskólabörn, eini munurinn á þeim og börnunum er að börnin þroskast en ekki pólitíkusarnir.
Lengi lifi forsetinn húrra húrra húrra.