þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Ég er að gera tilraun með að frysta á mér löppina til þess að sjá hvort ég nái bólgu úr sköflungnum. Nú er ég búinn að hafa kælinu á leggnum í fimm mínútur og er annaðhvort strax farinn að greina lækningu eða þá er ég byrjaður að dofna í löppinni. Það versta sem getur gerst er að maður fái kalsár undan pokanum og það þurfi að taka staurinn af.
Svo segja menn að það sé hollt að stunda hreyfingu og íþróttir.

****

Í dag fengum við fréttir þess efnis að ekkert væri að frétta af okkar málum í Kína. Þetta munu vera enn minni fréttir en engar.

***

Leyniþjónustan kom hér við áðan til að vita hvort við ættum sjónvarp eða útvarp. Þeim kom ekki við hvort við ættum myndavél, eldavél, brauðrist eða bakaraofn neibb þeir vildu vita hvort við ættum sjónvarp. Ég komst ekki til dyra vegna þess að ég er að reyna að frysta á mér fótinn. Ég vissi ekki að frúin gæti verði svona viðskotaill. Ég var bara að hlusta á rólegheita músík þegar hún kom og sótti kjúklingaskærin í eldhússkúffuna og hljóp svo fram, ég heyrði eitthvað vein og gott ef einhver skrækti ekki líka á ganginum. Næst kvað við hár hurðaskellur og frúin birtist aftur með skærin. Hún henti þeim beint í uppþvottavélina en puttarnir af njósnaranum lentu í nammiskálinni á borðinu. Mér fannst þetta nú soldill óþarfi því það var nóg til af skálum og hún þurfti ekki að henda puttunum akkúrat í skálina sem ég var að nota.

Þeir sem halda að skýrsla Gríms Björnssonar um Kárahnjúkavirkjun sé svo flókin að það sé ekki á færi alþingismanna, sökum hversu flókin hún er, að lesa hana ættu að smella hér og lesa hana sjálfir. Hún er ekki einasta á mannamáli heldur líka frekar stutt.

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Ég horfði á Jóhannes í Bónus í imbannum í kvöld, ég held að hann ætti að fá sinn eigin sjónvarpsþátt. Ekki hefði ég viljað eiga neitt inni hjá honum svo mikið er víst. Forkólfar x-d fengu heldur betur á baukinn hjá honum og starfsmenn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fengu líka á baukana. Ég bíð spenntur eftir framhaldinu eftir viku.


***

Ég er búinn að bæta nokkrum myndum inn í albúmið mitt. Þær má nálgast hér.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Á eftir fótboltamönnum eru flugumferðarstjórar sennilega þeir heilsuveilustu á voru landi. Undarlegt hvað þeir virðast ná sér í flestar þær pestir sem ganga. Það er spurning hvort þetta heilsuleysi einskorðast við Íslenska flugumferðarstjóra eða ætli þetta sé alheimsvandi?

Ég vann einusinni með manni sem smitaðist af öllum pestum gegnum útvarp. Það dugði að Gestur Einar segðist vera með kverkaskít og þá var kallinn lagstur líka og byrjaður að ræskja sig.

Ég gæti best trúað að heilsufar flugumferðarstjóra lagaðist mikið ef útvarpið væri bara tekið af þeim.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Ég var búinn að skrifa svaka grein um menningarnótt í morgun en tölvan neitaði að birta hana. Ég held að nýja tengingin óvinur minn. Ég er búinn að tala illa um póst og síma í svo mörg ár að nú hafa þeir séð sér leik á borði og eru að hefna sín á mér með því að slökkva á tengingunni á þriggja mínútna fresti.

föstudagur, ágúst 11, 2006

Ég rakst inn á heimasíðu Ómars Ragnarssonar í kvöld. Ég mæli með að fólk gefi sér smá tíma til að lesa það sem hann hefur fram að færa. Ég gerði það svo fór ég í heimabankann minn og millifærði á hann til þess að styrkja verkefnið sem hann er að vinna að. Ég vona að fleiri sjái sér fært að styrkja kallinn til áframhaldandi góðra verka í þágu náttúrunnar. Hér er heimasíðan hans Hugmyndaflug

mánudagur, ágúst 07, 2006

Nú verður röflað.

Ég geri ekki neinar svakalegar kröfur um að blaðamenn séu staðkunnugir þeim stöðum sem þeir skrifa um. Þetta samt aðeins of mikill kjánaskapur: Brúin yfir Kárahnjúka opin. Sá eða sú hjá Mbl.is sem skrifaði þessa fyrirsögn hefur annaðhvort ekki komið á virkjunasvæðið við Kárahnjúka eða heldur kannski í einfeldni sinni að flest fjöll á íslandi séu brúuð.

***

Eftir samtal sem ég átti við gríðarlegan byssubrjálæðing í gærkvöld hef ég komist að því að þeir sem vilja skjóta úr riffli þurfa ekki að fara með lúðurinn sinn á útivistarsvæði Hafnfirðinga til að svala fýsnum sínum. Þeir geta einfaldlega skráð sig í skotdeild Keflavíkur og farið á æfingasvæðið þeirra við Hafnaveg. Það kostar 7000 kr á ári og svo kostar 1000 kr að fá lykil. Rifflisvæði með bakstoppi og allt....

***

Í fyrrakvöld hét ég Igor, það er mun skárra en þegar ég fyrir tíu árum hét: hákú, huka hjuka og eitthvað fleira. Við vorum nefnilega í mat með mafíósafjölskylduni og þau gátu ómögulega borið nafnið mitt fram.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Ég fór mikla svaðilför í dag eftir síðasta merkinu sem mig vantar til að klára ratleikinn. Það er skemmst frá því að segja að eftir mikla leit í miklum bratta, lítilli rigningu og ágætu skapi gafst ég upp fyrir verkinu og hélt heim á leið í þriðja sinn án þess að finna merkið.

Fyrri tvö skiptin hef ég drattast sótbölvandi niður hlíðina og heitið því að reyna ekki aftur við þetta merki því ég er viss um að það er undir einhverjum steininum í hlíðinni en í dag gekk ég blístrandi niður því ég er viss um að það er ekkert merki í hlíðinni. Þetta er sennilega bara lélegt gabb.

****

Hvernig væri nú að einhver fréttastofan fengi nú í gúrkutíðinni framleiðendur vöffludufts til að sýna okkur hvernig á að ná að baka 20 vöfflur úr einum litlum vöfflupakka? Ég næ aldrei nema 10-12 stykkjum út úr þessu og ég náði ekki nema 7 úr bónuspakka sem átti að innihalda 20. fussÍ gær labbaði ég 11 kílómetra úti í hrauni í nýju skónum, þegar eg var búinn að labba 7 km þá rakst ég á þennan yrðling. Rétt eftir að ég kom auga á hann heyrði ég rosalegt öskur og svo gelt við hliðina á mér ég leit við og sá þá tófu skjótast í burtu ca. 20 metra frá mér. Þetta gerðist svo snöggt að þó ég hefði haldið á myndavélinni þá hefði ég ekki náð mynd af henni. Yrðlingurinn var aftur á móti soldið forvitinn og labbaði kringum mig í stórum boga en þó aldrei nógu nálægt til að ég næði mjög góðri mynd af honum.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006


Þennan rjúpuunga hitti ég í hrauninu fyrir ofan Hafnarfjörð á dögunum. Hann var ekki eins glaður að hitta mig eins og ég var að hitta hann.

Ég sá fyrirsögn á ruv.is áðan, hún var orðrétt svona: skemmdarverk unnin á Kárahnjúkum. Mér finnst þeir hafi ekki tekið vel eftir þeir þarna hjá rúv því það hefur verið unnið markvisst að eyðileggingu Kárahnjúka í mörg ár.

ps. ég vona að stíflan leki