miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Þetta var sá sem ég hélt síðast með í heimsmeistaramótinu í Ralli, Richard Burns. Hann greindist með heilaæxli fyrir nokkrum árum og hætti að keppa, aðfaranótt föstudags lést hann aðeins þrjátíu og fjögurra ára gamall. Ég hef hvorki haldið með neinum né fylgst með heimsmeistaramótinu í ralli síðan Richard þurfti að hætta.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Er ég einn um að finnast skrýtið að bankarnir eru með einn og sama upplýsingafulltrúann? Hann kallast framkvæmdastjóri samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og heitir Guðjón. Guðjón sat við hliðina á einum mesta þjófi Íslandssögunnar á aðalfundi Árvakurs um daginn, Kristni Björnssyni eiginmanni fyrrverandi dómsmálaráðherra og upphafsmanns olíusamráðsins. Hér sést hverjir eru í stjórn samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Finnst engum neitt bogið við að menn sem eiga að standa í blóðugri samkeppni eigi þessi hagsmunasamtök? Hvernig hljómar þá: Hagsmunasamtök olíufélaga? Hvert er markmið svoleiðis félags? Aukin samkeppni? held ekki og ég held að samráð bankanna fari líka fram innan þessara samtaka og Guðjón er höfuðpaur.

Upp með gapastokkinn.

***

Á þessum tímapunkti væri best að hætta þessu öllu og fara til Kanarí,,,,,, djöfull langar mig til Kanarí eða bara eitthvað út í buskann.

laugardagur, nóvember 26, 2005

Ég fór áðan og fékk jólamat. Þetta var alveg ágætt en hver heldur jólahlaðborð og sleppir hangikjöti? Eftirréttirnir fá bara 50% því þeir voru fáir og enginn sem fékk mann til að slefa. Vona að næsta fái bragðlaukana til að taka heljarstökk af kæti.

***

Parketið sem ég keypti á tólf þúsund er komið í sextíuþúsund með allri málningu, trélistum og sandpappír sem hefur þurft til verksins og parketið safnar reyki á meðan í geymslunni.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Ekki skrýtið að maður hafi oftast vaknað skakkur og skældur í þessum drollubedda, því lappirnar voru á hvolfi. Jamm og ég sem var búinn að eyða dýrmætum tíma vinnuveitanda míns í að smíða sverari lappir á rúmið. Lappirnar eru keilulaga í tvennu lagi með stóru barði að neðan. Þegar Meinvill og rúmið fluttu inn var þetta líka á hvolfi, ég pældi ekkert í því en bölvaði samt löppunum því þær skemmdu dúkinn(sem hverfur á næstunni). Semsagt ég sneri löppunum við og henti fínu löppunum sem ég var búinn að smíða, þetta þarf ekki alltaf að vera flókið.


Takið eftir blúnduskreyttu gúmíhönskunum sem hreingerningakonan er í.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Ég er með hrjúfa putta og ryk í nefi því við erum að taka svefnherbergið í gegn. Ég er búinn að pússa og lakka til skiptis alla vikuna. Gosh hvað ég hlakka til að klára þetta og geta farið að sofa í nýju herbergi.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Ég er kominn með nýja dellu. Hún er ekki verri en hver önnur, þetta er tedrykkjudella. Ég er búinn að kaupa mér kúlusigti sem ég set laufin í og svo á ég 15 bragðtegundir af te-i. Ég byrjaði á þessu því ég get ekki drukkið kaffi á kvöldin án þess að verða andvaka. Nýjast í þessu hjá mér er að fara í sérverslanir með kaffi og te og spyrja starfsfólkið út úr hinum þessum bragðtegundum og hvað er best að drekka á kvöldin og hvað á morgnanna.

***

Ég keypti mér skó í fyrradag. Þetta eru ægilega fínir götustrigaskór með grófum takkasóla. Ég sýndi meinvill þá og við voru sammála að þetta væri nú málið í vetur svo maður stæði nú í lappirnar í allri hálkunni. Það er skemmst frá því að segja að ég var næstum svona í gær við að læsa bílnum fyrir utan hjá umhverfisráðherra ættarinnar, sennilega er ekki hrágúmísóli á þessum nýju skóm sem heita meira að segja x-country.

****

Ég er eð fara á rúntinn til að skoða spýtur sem til stendur að leggja flatar á gólfið í svefnherberginu. Það er eitthvað tilboð sem mér barst til eyrna sem dregur mig af stað. 800 kall pr m2 Það er nú ekki mikið. Mér er slétt sama hvort þetta eru plastspýtur eða tréspýtur því það koma ekki til með sjást nema þrír m2, annað fer undir rúm, skáp og kommóður.

Þegar spýturnar verða komnar ætla ég að kaupa málningu, gardínur og lakk og skvera restina fyrir jól. Þetta verður algjör nískuaðgerð því ekkert verður keypt sem ekki er á tilboði eða útsölu.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Þá hef ég loksins látið verða af að stækka minnið í tölvunni. Ég hef svosem ekki orðið var við mikla gleymsku í henni en mér fannst vissara að hún fengi fullorðinsheila upp á 160Gb. Ég var að spá í 250 en fannst of mikill verðmunur til að það borgaði sig, frekar fengi ég mér annan 160. Núna er ég að færa eitt og annað(tónlist) á stóra diskinn. Ætli meira vinnsluminni verði ekki næst og eitthvað fleira sem gæti létt á þesum gamla garmi.

***

Ég varð var við smá hálku þegar ég var á leið til vinnu í morgun. Fyrst var hálka á rúðunum á bílnum og svo á götunni. Þar sem saltstaukarnir keyra ekki undir brýrnar í Kópavogi fann ég soldið fyrir ísingu rétt eftir seinni brúna því framhjólin misstu soldið grip í beygjunni, það kom þó ekki að sök því ég stífaði bara axlirnar og sló aðeins af og málið varð ekki að vandamáli. Þegar ég kom að hringtorginu við Ellingsen varð ég að búa mér til abs í bílinn því ég stefndi á fullri ferð í veg fyrir stóran Amerískan fjölskyduvörubíl. Til allar lukku slapp ég með skrekkinn og dúndrandi hjartslátt.

Smá ábending til þeirra sem trúa fréttunum alltaf. Hálka veldur ekki slysum, það gerir aftur á móti óábyrgur akstur miðað við aðstæður. Svona eins og ég keyrði í morgun.

****

Ég kíkti áðan til umhverfisráðherra ættarinnar , listmálarans og sonar þeirra. Ég fékk að halda á frændanum í fyrsta sinn, hann er voðalega sætur en ég held að honum hafi ekki þótt ég eins sætur því fljótlega eftir að ég tók við honum kom á hann mikil gretta sem ég skildi sem svo að hann langaði ekki að njóta návistar minnar frekar, mamma hans kom honum til bjargar og gaf honum sopa sem dugði til að svæfa hann.

****

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Betur fór en á horfðist, er fyrirsögnin sem fréttamenn nota þegar ekki fór eins illa og þeir hefðu viljað. Á eftir þessari fyrirsögn kemur oft lýsing á atburðarrás sem fréttamaðurinn vildi að hefði gerst svo fréttin hefði slagkraft. Betur fór en á horfðist þegar ekkert gerðist, ef eitthvað allt annað hefði gerst hefði farið allt öðruvísi. Eða þannig.....

****

Ég stoppaði eins og oftast við umferðarljósin á Kringlumýrar og Miklubraut í dag á leið heim úr vinnunni. Ég var á mið akreininni á eftir Benz, ég taldi víst að Benzi myndi skjótast af stað og ég gæti staðið allt flatt til að gefa sem flestum tækifæri á að komast yfir gatnamótin. Þar misreiknaði ég mig, bölvaður níðingurinn á Benzanum keyrði svo hægt af stað, að ég skipti ekki í annan gír fyrr en ég var kominn yfir gatnamótin. Þess ber að geta það það er bannað að skipta um akrein á gatnamótum og það var heldur ekki hægt vegna umferðar, það var ekki heldur hægt að skipta um akrein á kaflanum við Suðurver. Þegar ég kom að Listabraut hafði þetta samferðaróféti ekki komið bílnum sínum í nema 60 kílómetra hraða og rétt við Bústaðavegsbrúna hafði hann slefað í 70 (Lágmarkshraðinn þar er 80) en þá kom að því að taka fram úr dráttarbíl sem silaðist á 30 þá tók Benzræksnið sig til og snarbremsaði svo hann færi nú ekki glannalega hratt fram úr dráttarbílnum og lét sér nægja að fara á 50 fram úr. Eftir þetta komst ég framúr Þýska brakinu og sá hann ei meir því ég náði að koma spíttkerrunni nær þriggja stafa tölu og umferðarhraða.
Afhverju er svona fólk sem er fyrir öðrum ekki sett í strætó?

***

Mp3 spilarinn minn er búinn að standa sig með prýði síðustu daga í vinnunni. Það rann upp fyrir mér um daginn að ég átti 10 góða diska sem ég hafði lítinn tíma til að hlusta á en langaði gríðarlega að hlusta rækilega á, því brá ég á það ráð að skella mússíkinni á spilarann. Ég er ekki frá því að dagarnir líði hraðar með skemmtilegri tónlist.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Uss og aftur uss haldiði að Hyundai spíttkerran mín hafi ekki bara fengið fulla skoðun í gær. Ég get svo svariða(lesist á innsoginu) . Ég labbaði ekki hring í kringum hann til að athuga hvort allar perur væru virkar og ég opnaði ekki húddið, reyndar gerði ég ekkert annað en að setja í gang, keyra bílinn inn í skoðun og kláraði kaffið fyrir hinum sem komu á eftir mér. Tilfinningin var eins og að prumpa í lyftu, allir vita hver gerði það en enginn segir neitt, bara augnaráð sem stingur í kinnarnar.

Ástæða þess að ég skoðaði bílinn ekki áður en einhver annar gerði það var að eftir síðustu skoðun henti ég bílnum með báðum höndum í ruslið, ég var líka viss þá um að bíllinn væri í ágætu standi.

****

Ef þið ætlið að senda mér kveðju í útvarpi eða blöðum, sleppið því. Ég er hættur að lesa blöð og hættur að hlusta á útvarp. (í bili)

***

Mig langar í Dunkin Donut.
Djöfull langar mig í dunkin donut, jafnvel þó þeir séu framleiddir af rebúblikönskumsíonistumíbandaríkjumnorðurameríku.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Ég er kominn með fuglaflensu. Ég var lengi að kveikja á einkennunum því þau eru ekki mjög áberandi. Fuglaflensan mín er ekkert lík þessari sem er stanslaust talað um í fréttum, mín er þannig að í hvert sinn sem ég heyri orðið "fuglaflensa" nefnt í útvarpi eða sjónvarpi skýst höndin upp í loft og mikið fálm eftir off takka hefst og stendur þar til tekist hefur að þagga niður í þeim fréttamanni sem flytur fréttina.

***

Ég er hættur við að sjá Sigurrós í Laugardalshöllinni því ég nenni ekki að standa á vítateignum og sjá ekki neitt nema símann sjá manninum fyrir framan mig. Einhverntíman fórum við til að sjá þá spila í höllinni, þá stóðum við niðri á gólfi og sáum ekki baun. en maður heyrði aftur á móti í fullt af símum sem hringdu ótt óg títt í kringum okkur. Ég held maður sé ekki laus við símana þó maður sé uppi í stúku en maður sér þó eitthvað þaðan.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Ég veit ekki hvort ég má linka á þetta en ég geri það bara samt, mér finnst mjög skrýtið að það megi drepa börn á Íslandi bara af því að það er gert með réttu tæki eða aðferð. Umferðin hjá okkur er agalaus og tveggja mánaða dómur Hæstaréttar yfir manni sem drap 15 ára stúlku er ekki öðrum til varnaðar að gera ekki slíkt hið sama. Hér er dómur Hæstaréttar.