mánudagur, janúar 31, 2005

Bíllinn minn

Ég er með bílinn minn á heilanum og eyddi helginni hjá honum, hehe ég er nú ekki svo sjúkur en ég fékk allaveg heilmikla hjálp við að skipta um tímareim og framhjólaleguna á laugardaginn og svo plataði ég rafvirkjann pabba minn til að mæla alla spottasúpuna í mælaborðinu í gær svo ég geti hlustað á mússík á morgnana á leið í vinnuna.

**********
Rétt skal vera rétt Dettifoss er ekki stærsta kaupskip íslenska kaupskipaflotans, stærsta kaupskip íslenska flotans mun vera fyrrverandi togari sem var breytt í kaupskip. Öll önnur kaupskip sem heita íslenskum nöfnum eru skráð annarsstaðar en á landinu bláa vegna skattamála.

*********

Vinnan mín ætlar til útlandsins næsta haust í árshátíðarferð, valið stendur milli margra skemmtilegra staða ég valdi 1.Berlín 2. St. Petersburg 3. Barcelona. Svo er bara spennandi að sjá hvað hinir velja, ég vona bara að það verði ekki Köben því ég hef komið oftar þangað en til Akureyrar.

***********

Aftur að bílnum, ég komst að því á laugardaginn að bíllinn stóð á tveimur michelin dekkjum og tveimur fúnum húggíbúggí sóluðum dekkjum, annað húggíbúggídekkið var vírslitið svo skipta þarf um það við tækifæri. Ég tuðarinn sjálfur hringdi í búðina þar sem ég keypti bílinn og sagði þeim að ég væri nú ekki alveg sáttur við að fá bílinn hálf berfættan frá þeim og vildi að þeir splæstu á mig tveimur michelin dekkjum með mörgum nöglum til að spæna malbik upp með, þeir voru ekki alveg tilbúnir að hlaupa út í búð fyrir mig eftir þessu og vísuðu mér á dekkjakallinn sinn. Ég talaði við mannin sem brást vel við og stakk sér inn í dekkjahauginn sinn en kom dekjalaus út, þá skoðaði hann hvert dekkið á fætur öðru en án árangurs. Ekkert michelin handa mér, ég var farinn að halda að ég fengi ekkert dekk hjá honum þegar hann allt í einu skaust út úr haugnum með fjögur dekk af einhverri sort sem ég þekki ekki og spurði mig hvort ég væri til í að fá fjögur dekk á felgu í stað þessa eina sem er ónýtt, ég reyndi að fela brosið þegar ég sagði að ég skyldi taka þetta fyrst ekkert annað býðst.

Það skal tekið fram að ég var alsæll þegar ég keyrði með 5 varadekk á felgum og full af lofti frá búðinni.

Maður á aldrei að sleppa góðu tuði.


Alien Gear Police


miðvikudagur, janúar 26, 2005

Slappur leikur

Leikurinn á móti Kúvæt (kúveit hljómar eins og gáfuð belja) var ömurlegur í alla staði. óspennandi og illa spilaður. Vonanadi verða ekki fleiri svona leiðinlegir leikir.

***********

Ekki skil ég hvað við á þessu litla skeri höfum við tvo iðnaðarráðherra að gera í tveimur iðnaðarráðuneytum. Leggjum niður Umhverfisráðuneytið áður en hálendið hverfur.

Ég er með sparnaðarhugmynd fyrir vinnumálastofnun, reka Gissur Pétursson og allt hans Framsóknar) hyski og ráða inn í staðinn Kínverja á mun lægra kaupi. Það mætti setja auglýsingu í bæjarblað í Danmörku til að uppfylla skyldu um auglýsingu á evrópska efnahagssvæðinu og ráða svo einn gám af kínverjum sem láta hvort eð er bjóða sér hvað sem er,þeir gætu búið í gámnum fyrir utan vinnumálastofnun, þeir gætu svo fengið hver sinn stimpilinn til að hægt væri að stimpla enn fleiri atvinnuleyfi handa lágt launuðum útlendingum sem koma til með að keyra laun okkar iðnaðarmanna niður úr gólfinu.

***********

Voðalega tekur amazon langan tíma núna, ég pantaði heilan gám af diskum frá þeim fyrir 10 dögum og hann er ekki enn lagður af stað frá þeim. maður ætti að kíkja á hvort vísa er búið að fá rukkun frá þeim. Kannski er það bara að það var vaðandi útsala hjá þeim og sennilega mikið að gera.

**********

Assgoti munar miklu um hvort maður er 3 eða 20 mínútur á leiðinni í vinnuna á morgnana.


mánudagur, janúar 24, 2005

brúmm brúmm

Ég keypti mér bíl fyrir hádegi í dag. Hyundai Accent þriggja dyra hvítur 1997 módel keyrður 88 þúsund Km. þá er bara að færa geislaspilarann úr jeppanum og laga smáatriði sem ég fann að honum. Ég náði að prútta hann úr 350 bláum niður í 300 stk.
Nei þetta er ekki jeppi og ekki fjórhjóladrifsbíll heldur hreinn og klár bæjarsnattari með rúðuþurrkum og miðstöð.

laugardagur, janúar 22, 2005

Laugardagur

Assgoti líða helgarnar hratt án þess að maður átti sig og geti nokkuð gert í málunum. kviss búmm bang og maður er mættur í vinnu aftur.

Ég eyddi stórum hluta dagsins í að keyra milli bílasala í von um að finna bílinn sem mig hefur alltaf langað í, þegar ég kom heim setti ég bilaða jeppann í gang og keyrði aðeins á planinu til að greyið stirðnaði ekki.

Annars er ég að hugsa upp gríðarlega gott plan í bílamálunum, ég er að spá í að hætta í bili að leita mér að jeppa og einbeita mér að því að finna mér ódýran Hyundai til að skjótast í vinnuna á og fá mér frekar jeppa í vor eða bara þegar hann dettur óvart upp í hendurnar á mér, Golfinn verður þá notaður sem skiptimynt upp í jeppann þegar þar að kemur en Hyundai´inn notaður áfram sem vinnubíll og bæjarsnattari.

**************

Það er kalt á Grandanum og ekki fyrir nema harðjaxla að vinna í þessu andskotans rokrassgati. Þar sem ég er ekki harðjaxl kveinka ég mér gjarnan undan kuldanum í von um að það verði drifið í að setja upp kyndingu í hjallinum, fyrsta skrefið var stigið í haust þegar ég vissi að ég væri á leið í verkið, þá lagði ég inn hjá tæknideildinni að það mætti ekki vinna í minna en 20 stiga hita með vélinni minni. Þeir vissu ekki hvort ég væri að grínast og skipulögðu verkið með það í huga að það kæmi bráðabirgðakynding í húsið fyrir mig. hehe og allir voða fúlir yfir því að ég geti bara smellt fingrum og fengið mínu fram. Ég benti strákunum á að ef þeir gerðu ekkert í málunum sjálfir héldust hlutirnir óbreyttir.

***************

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Skítakompaní

Ég er fúll út í tryggingafélagið sem gengur undir nafninu Tryggingamiðstöðin-Sjóvá-Vís, eins og allir vita er þetta fyrirtæki undir einni stjórn samráðandi vitleysinga sem féfletta almenning án þess að mikið sé amast við þeim. Ég komst að því áðan að ef ég byggi á Egilsstöðum þyrfti ég ekki að borga nema 32.000 fyrir tryggingar af bílnum (meinvill borgar) en afþví að við búum á höfuðborgarsvæðinu þurfum við að borga 52.000 af bílnum í tryggingariðgjöld á ári. Andskotans óréttlæti í þessum sjálftökumönnum.
Annars var ég ekki spurður hvort ég vildi hefja viðskipti við Tm heldur kom bara rukkun frá þeim einn daginn og tilkynning um að tryggingafélagið sem ég hafði skipt við hafði lagt upp laupana.

**********

Ég er búinn að labba aftur á bak síðustu daga svo ég spóli ekki í nefrennslinu því ég er kvefaður með eindæmum og hef lítið heyrt síðustu daga fyrir gríðarlegri hellu fyrir eyrum.

***********

Er kominn í kuldann og trekkinn á Grandanum brrrrrrr ef fölskurnar væru ekki vel límdar upp í mig myndi glamra í þeim.

**********

Bjáni vikunnar er stelpan í Kastljósinu með (þessi með rauðu brjóstin) þegar hún spurði konuna sem ættleiddi barn frá Serbíu hvort barnið hennar væri betra í einhverju en jafnaldrar hennar. bjáni kjáni skammastu þín svona spyr maður ekki.
(er barnið þitt fallegra en eitthvað annað barn?)

**********

Mig langar til kanarísunnudagur, janúar 16, 2005

Sunnudagstuð

Tuð eða stuð. Ég er kominn með augastað á jeppa sem ég hef hugsað mér að fá að skoða betur, þetta mun vera bæði litli og yngri bróðir jeppans sem við eigum núna. Minni vél, minni kraftur, færri dyr, minni eyðsla og minni búnaður.

**********

Hvað er þetta með íþróttafréttamenn að þeir geta aldrei notað sama orðið tvisvar þegar þeir þylja upp úrslit leikja. Þessi sigraði þennan, hinn vann hinn, einhver lagði annan, allir burstuðu enga, afhverju ekki bara vann vann vann vann, ekki það að mér er svo sem sama hver vann hvern.

*********

Mér fannst nýja lagið með Sigurrós sem var flutt í söfnunarþættinum í gær æðislegt. Mér fannst lagið sem Geir Haarde söng voða vont og kallinn er með meðal slæma kareoke rödd.
Dóri DNA var ekkert spes en Kapphlaupið Litla var fyndið.fimmtudagur, janúar 13, 2005

Fréttamennska

Það er til máltæki sem segir að þessi eða hinn ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Mér datt þetta í hug þegar ég var að leita að stað á vídeósólu áðan til að taka the office upp. Ég datt inn í fréttatíma frá deginum sem Hringrás brann. Fréttamaðurinn fór mikinn í samtali sínu við framkvæmdastjóra fyrirtækisis sem stóð í björtu báli bakvið hann, viðtalið snérist um starfsleyfi fyrirtækisins og hvort forsvaranlegt væri að hafa það svo nálægt íbúðabyggð. Sennilega hefur smá reykjarlykt sloppið inn til fréttamannsins því slíkur var hamurinn sem hann var í: eruð þið með starfsleyfi, afhverju er ekki búið að endurnýja það, eru eiturefni á svæðinu, er ekki óforsvaranlegt að vera með eldfim efni svona nálægt íbúðabyggð, afhverju endurnýjuðuð þið ekki starfsleyfið áður en það gamla rann út og fáið þið að halda starfseminni áfram á þessum stað? Afhverju hjólaði maðurinn ekki í fólkið sem byggir göturnar í kring og spurði það hví það keypti sér íbúðarhúsnæði á stað sem er spölkorn frá þessum hættulega stað? Hvort kom á undan Hringrás sem hóf starfsemi sína á þessum stað árið 1950 eða húsin við Kleppsveg og Rauðalæk sem voru byggð á árunum 1957-1967? Hann réðst á garðinn þar sem hann er lægstur.

****************

Auglýsingar: Hvað er prósta assllttur þegar rætt er um útsölu?

Common Ágústa gastu ekki fundið neitt verra nafn en "samviskubitinn" yfir heilsusamlokurnar þínar?

****************

Vonandi dó numetalið með x-inu

Vonandi eru menn búnir að átta sig á að rokk frá árunum 1970-1993 heldur ekki uppi heilli útvarpsstöð.

****************

Ég skoðaði bróður bílsins míns uppi á höfða í gærkvöld og leist ekkert á hann enda var hann bæði með beyglu og ryð.

Meinvill fann sér jeppa við hæfi en ég taldi hann ekki praktískan, hún vildi kaupa Hummer á 44 þumlunga hjólbörðum, bíllinn er í útlenskum felulitum og kostar heilt helvíti. Ef hann ætti að vera í íslensku felulitunum ætti hann að vera hvítur á veturna en svartur og mattur á sumrin svo hann falli inn í hálendið.

************

Mig langar í 1000 watta heimabíóið frá þeim framleiðanda sem ég kaupi flest raftæki frá, það fæst í Elko og kostar þar tvöfalt meira en tjallinn getur keypt það á heima hjá sér. Helvítis hyski sem er búið að skipta raftækjamarkaðnum í tvennt. Ég er svo flinkur að ég get flutt inn myndavél frá sama framleiðanda og heimabíóið er frá, tuttugu bláum ódýrara en Elko býður. Þeir hljóta að senda einn mann til útlandsins til að flytja eina vél inn. huh
Spurning hvort sá sem sækir eitt og eitt tímarit til útlanda fyrir bókabúðirnar fær að sitja við hliðina á honum í vélinni? Allavega er fáránlegur verðmunur á þessum varningi hér og í London.


************

Uppáhalds lagið mitt þessa dagana er ekki komið út á disk og kemur ekki fyrr en 31.janúar, ekki einusinni á smáskífu.drasl

***********

Held ég hafi gleymt því um daginn þegar ég kom frá Færeyjum að segja frá því þegar ég keypti mér appelsín með matnum á veitingastaðnum, ekki það að drykkurinn hafi verið til afspurnar heldur var það dagsetningin sem var prentuð á flöskuna: 31.02.2005

************

Ég er á leið út í bæ að vinna í næstu viku (í næsta húsi við Hrönn jeppagarp og bjórþambara). Ég er strax kominn með hroll því ég held að það sé enn kaldara inni í húsinu sem ég á að vinna í en fyrir utan það. Kannski skakklappast ég yfir götuna og sníki stóran kaffifant hjá jeppagarpinum svo ég geti hlýjað mér á kaffinu (assgoti ágætir kaffifantar sem ég hef stundum sníkt af þeim), svo setur maður bara Stoh romm í bollann og málunum er reddað....... þangað til maður þarf að fara að vanda sig við vinnuna :(


þriðjudagur, janúar 11, 2005

Jibbí jei

Ég tel mig vera búinn að finna jeppa sem mig langar í. Þar sem ég er vanafastur sýnist mér allt stefna í að það verði samskonar bíll og stendur á planinu númerslaus. Ætlunin er að laumast í skjóli nætur og skipta bílnum sem meinvill á upp í jeppann.

***********

Við Meinvill buðum okkur í heimsókn til fólks sem tímir að borga af stöð tvö. Tilefnið var Amazing race sem fram fór á Íslandi síðasta sumar. Það skal viðurkennast áður en dómur um þáttinn er felldur að ég hef aldrei haft neina trú á veruleikasjónvarpi. Þrautirnar voru í léttara lagi til að geta talist spennandi og fólkið gerði lítið annað en að rífast í bílunum milli þess sem það keyrði um suðurlandsundirlendið. Má ég þá frekar biðja um Matlock á skjáinn aftur eða Mc Gyver.
laugardagur, janúar 08, 2005

Dabbi og Dóri

Ég er búinn að komast að því að Dabbi og Dóri lesa síðuna mína því það er búið að hækka styrkinn sem Indónesar fá frá ríkisstjórninni um 145 milljónir eða úr 17 krónum á haus í 500. Þvílíkur rausnarskapur!

**********

Mig langar í JEPPA! Orkuveitustarfsamðurinn segir mér nánast daglega hvað það er gaman að jeppast út um allar trissur(eins og ég viti það ekki) á meðan þarf ég að skjökta á Fólksvagni Golf og jeppinn slasaður úti á plani.


fimmtudagur, janúar 06, 2005

Niður með skrautið

Jólin eru búin og þá er næst að tína niður skrautið og setja rykið á hillurnar aftur. Klukkan tólf á miðnætti slít ég seríuna úr sambandi og hrifsa gyðingaljósin úr glugganum.

**********

Ég hef gaman af bjánalegum auglýsingum, ekki skemmir ef þær eru þannig orðaðar að maður geti snúið út úr þeim. Eina slíka heyrði ég í dag, hún fjallaði um vinning sem fólk gat hlotið ef það verslaði í ákveðinni búð og setti miða í kassa hluti hennar hljómaði svona: í verðlaun er skíðaferð fyrir fjóra og skíðagalli fyrir fjóra..... mig langar að sjá galla sem fjórir komist í.

*************

Litla Baunafjölskyldan er væntanleg frá Danaveldi á morgun ég ætla að bruna í foreldrahús til að hitta þau sem fyrst eftir að þau koma heim.


miðvikudagur, janúar 05, 2005

Jamm og jamm og jú

Skammist ykkar ríkisstjórn íslands! 5 milljónir til handa nauðstöddum íbúum Indónesíu, skammist ykkar. 5 milljónir gera 17,04 krónur á hvern landsmann. Indónesía er eftir því sem mér skilst eitt af fátækari ríkjum heimsins og þar fórust sennilega yfir 95000 manns jebb nítíuogfimmþúsund manns og hvað gerir ríkisstjórn Íslands annað en að hringja til svíþjóðar og bjóða einni af ríkustu þjóðum heims aðstoð við að koma slösuðum þegnum sínum heim að hamfarasvæðunum. Ég er svo reiður að það hvítna á mér hnúarnir.

Eru mannslíf verðmætari hérna megin á þessari kúlu sem við köllum jörð?

Í þau tólf ár sem ég hef fylgst með formúlu eitt í sjónvarpi hefur mér verið í nöp við Michael nokkurn Schumacher nú hefur hann gefið sexhundruð og nítján milljónum meira til hjálpar nauðstöddum í asíu en Íslenska ríkið, mér er enn í nöp við hann sem ökumann en met mikils framlag hans.

Íslenska ríkisstjórnin eyddi 3,6 sinnum hærri upphæð í skrípamyndir núna rétt fyrir jólin en hún hefur eytt til góðgerðarmála í Asíu. Þeim finnst líka allt í lagi að spandera 300 milljónum í að halda úti "her" í afganistan.

5 Milljónir eru c.a. fimm mánaða sendiherralaun.

5 Milljónir er verðið á Nissan patrol (4945000 elegance týpan sjálfskiptur)

5 milljónir eru verðið á hálfkláruðu sumarhúsi í Hvassahrauni.

5 Milljónir er verðið á 2000 geisladiskum í skífunni

5Milljónir er verðið á 5 fellihýsum

8 Milljónir er verðið á prívatklósetti fyrir dómsmálaráðherra

18 Milljónir er verðið á heildarsafni Sigmund


Pælið í því hvað má gera fyrir heilar 5 milljónir, ég vænti þess að það megi kaupa svolítinn mat fyrir 5 milljónir en mér finnst þetta bara svo lág upphæð að betra hefði verið að sleppa þessari nánasargjöf.sunnudagur, janúar 02, 2005

Nýtt ár nýtt útlit

Er ekki rétt að stokka allt upp á nýju ári? Það held ég! fullt af nýjum linkum og fíneríi njótið vel.

laugardagur, janúar 01, 2005

Gleðilegt ár

Jamm þá er árið 2005 runnið upp. Síðasta ár var gott og ég vona að þetta ár verði ekki síðra.