sunnudagur, apríl 23, 2006

Í gær brunuðum við hjónin í höfuðstaðinn til þess að kaupa fleiri íbúa í fiskabúrið. Það átti að kaupa snigil svo snigillinn sem ég keypti á föstudag yrði ekki einsnigla. Það er skemmst frá því að segja að það var enginn snigill af þeirri gerð sem við vildum til en aftur á móti voru til svartir og bronslitir fiskar sem eiginkonan féll gjörsamlega fyrir. Nú eru því fjórir fiskar í búrinu.

***

Áðan labbaði ég inn í svefnherbergi, þar lá Meinvill í myrkrunum og las Harry potter. Myrkvunargluggatjöldin voru dregin fyrir og glugginn lokaður. Þegar ég kom inn dæsti Anna og sagði mjög þreytulega að það væri brjálað veður úti svo dæsti hún aftur og sagði en samt er allt morandi í einhverjum skrækjandi fuglum úti. Ég hváði og spurði hvort henni þætti ekki notalegt að heyra svona í vorboðanum ljúfa? huh vorboði þetta eru bara skrækir.

***

Ég er farinn að horfa á formúluna.

laugardagur, apríl 22, 2006

Þar fór það. Fyrst ég er á leið í útlegð til Færeyja um óákveðinn tíma hef ég tekið síðuna sem ég bjó til um síðustu helgi niður aftur. Ég sé ekki að ég nenni að halda tveimur síðum úti í þessum stuttu stoppum sem verða milli úthalda.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

GLEÐILEGT SUMAR OG TAKK FYRIR VETURINN

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Þar sem bensínverðið er orðið of hátt, verðbólgan komin á skrið og allt á leið til fjandans hef ég ákveðið að þiggja boð um að flýja land í allt sumar. Eftir því sem ég best veit fer ég til Færeyja fyrstu vikuna í Maí og verð þar í allt sumar. Það komst allavega á hreint í dag að ég fer út en ég treysti ekki alveg tímasetningum tæknideildarinnar og býst því við að eyða sumrinu úti.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Gleðilega páska

***

Við vöknuðum of snemma í morgun og byrjuðum á að fá okkur páskaegg, það er ekki ónýtt að vakna án hálasbógu og fá sér kaffi og súkkulaði í morgunmat.

***

Í gærkvöld var fullt hús af fólki hjá okkur. Ég stóð að sjálfsögðu yfir wok pönnunni og brasaði hvern réttinn á fætur öðrum ofan í gestina. Reyndar fékk helmingur gestanna Pizzu en það er bara vegna þess að þeir eru ekki nógu stórir til að gúffa í sig kínafóðri.

laugardagur, apríl 15, 2006

Afmælisbarn dagsins er á efa Vigdís Finnbogadóttir. Semsagt, til hamingju með daginn Vigga

föstudagur, apríl 14, 2006

Var það kannski bara mér sem fannst eitthvað vandræðalegt við að horfa á Iðnaðarráðherra (sem er í kennaratalinu án þess að vera kennari) reyna að sannfæra fréttamann um að víst kynnu starfsmenn fjármálaeftirlitsins ensku. Ég fékk allavega hroll og ekki skánaði það þegar forstjóri stofnunarinnar tók sig til og romsaði einhverri setningu upp úr sér á ensku eins og hann væri í munnlegu stöðuprófi hjá fréttamanninum.

Ég hef smitast af eiginkonunni og er búinn að stofna nýja síðu. Sú síða heitir skakki skoðar heiminn og er ætlað að halda utan um þær síður sem ég rekst á um Kína og ferðir þangað. Slóðin á síðuna er komin hér til hliðar.

***
Einu gleymdi ég í gær þegar ég hélt reiðilestur yfir ónýtri framleiðslu á Íslandi. Ég henti nefnilega um daginn ónýtu uppþvottavélaefni og gljáa sem gerðu í sameiningu öll glös á heimilinu skellótt og einhvervegin eins og það væri olíubrák á þeim. Samt var maður ekkert varaður við áður en maður keypti þetta ónýta drasl á allt of háu verði.

***

Ég er enn hálf slappur og ég nokkurhundruð milligrömm af ibufen á dag til að drepast ekki úr hálsbólgu. Þetta er nefnilega asnalegasta pest sem ég hef fengið, hún byrjaði sem gubbupest þróaðist yfir í kvef og hita en er núna orðin að hálsbólgu og eiginlega engum hita.

***

Ætli það sé alveg bannað að gera Íslenska auglýsingu tengda tannvernd? eða eru Íslendingar með svo ljótar tennur að það er ekki hægt að nota þá til að auglýsa neitt sem tengist tannhirðu.

Eru kannski margir aðrir vöruflokkar auglýstir þannig að tal og munnhreyfingar passa enganvegin saman?

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Fyrir nokkrum árum var ég rosalega upptekinn af því að allt sem ég keypti inn átti helst að vera framleitt á íslandi, við félagarnir úr iðnskólanum létum taka mynd af okkur í uniformi og skrifuðum grein í moggann þar sem við mótmæltum innflutningi á tiltekinni vörutegund sem við töldum ekki boðlegt að fólk keypti. Ég hélt ræður yfir mömmu þar sem hún hafði keypt eitthvað útlenskt í matinn í stað þess að kaupa eitthvað íslenskt, ég færði þau rök fyrir máli mínu að ef allir hugsuðu eins og hún yrði ég atvinnulaus. Ég hef í mörg ár reynt að fara nokkurnveginn eftir þessu og keypt samviskusamlega Íslenskar vörur þegar ég hef getað.

Nú er ég samt sennilega að verða búinn að fá leið á þessu. Í fyrrasumar vantaði mig flíspeysu, ég brunaði náttúrulega beint inn í Kringlu í 66°N búðina þar og ætlaði aldeilis að kaupa Íslenska peysu, þegar ég var búinn að hringsnúast í búðinni í korter og enginn virti mig viðlits labbaði ég út. Ég var þó ekki hættur við að kaupa Íslenskt og brunaði í aðra búð og keypti Cintamani peysu, hún kostaði alveg jafn mikið og Northface en er ólíkt Northface, var hún algjört drasl. Ég sé ekki í hverju verðið á peysunni liggur því það er ekki framlenging á rennilásaflipanum, hún er ekki aðsniðin, hún er ekki góð í hálsinn og það er enginn lykkja inni í henni til þess að hægt sé að hengja hana á snaga. Samt kostar hún jafn mikið og Northface peysan sem ég hætti við að kaupa.

Eins er þetta með landbúnaðarvörur hér á landi, það er búið að sannfæra fólk um að ekkert jafnist á við innlenda framleiðslu. Meira að segja er því haldið fram að grænmeti sem er ræktað inni í gróðurhúsi sé ferskara en það sem ræktað er undir berum himni undir sjálfri sólinni. Það er svona álíka rökrétt og að segja að föt þurrkuð í þurrkara lykti betur en föt þurrkuð úti.

Áðan keypti ég allt of dýran ost frá einokunarverslun mjólkurafurða, hann átti að verða að kremi ofan á köku og þurfti að hrærast heil ósköp áður en á kökuna færi. Uppskriftin sagði að þetta hætti að hrærast þar til engir kekkir væru lengur í ostinum. Eftir að hafa hrært draslið í þrjú korter voru enn kekkir í ostinum þannig að ég skipti um verkfæri í hrærivélinni og hrærði í hálftíma en án árangurs. Nú á ég köku með kekkjuðu kremi þökk sé einokunarstefnu stjórnvalda í landbúnaðarvörum.

Afhverju má ekki selja erlendan ost á eðlilegu verði á þessu guðsvolaða skeri þó ekki væri nema bara til að maður hefði val um fleiri en eina tegund. Eða viljum við kanski bara láta ráðuneytin ákveða fyrir okkur hvað okkur finnst best að borða?

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Ég hef loksins fundið mér eitthvað við að vera um páskana, ég ætla að ná úr mér flensunni sem ég er búinn að vera með síðan í fyrrakvöld. Ég brunaði út í búð eftir morgunmat klukkan ellefu um kvöldið og fann þá fyrir lítilsháttar slappleika en tengdi það ekki við neina flensu, svo lagðist ég upp í rúm og hélt ég væri að fara að sofa en svo var aldeilis ekki ég lá með vont í maganum þar til klukkan þrjú þegar ég loksins drattaðist fram og skilaði kvöldmatnum. Ég sofnaði ekki almennilega fyrr en klukkan átta morguninn eftir og svaf meira og minna allan daginn.

Ég er búinn að vera hressari í dag og hef geta gert eitthvað fleira en að liggja uppi í rúmi og vorkenna sjálfum mér.

***

Ég fór á þrjá plötumarkaði um síðustu helgi. Ég var að leita að The last emperor eða síðasta keisaranum eins og hún var víst kölluð hér um árið. Það er skemmst frá því að segja að ég fann hana ekki en aftur á móti fann ég sjö eða átta aðrar myndir sem verða bara að duga, þar af eru tvær kínverskar spennumyndir.

Það merkilega við þessar þrjár ferðir er að ég kom ekki með einn einasta hljómdisk út, þannig að ekki þarf ég að pakka fleiri diskum niður í geymslu í bili.

***

Framkvæmdastjórinn í fyrirtækinu sem ég vinn hjá pikkaði í mig í síðustu viku og spurði hvort ég væri á leið til Færeyja, ég þóttist koma af fjöllum sem ég var ekki alveg því ég hafði heyrt smá ávæning af því að það ætti jafnvel að senda mig í smá vinnu þar, hann sagði mér að drífa mig í að fá svör því þetta væri að bresta á. Ég spurði verkstjórann og yfirmann tæknideildar en fékk ekkert öruggt svar. Ég hlýt að frétta af þessu einhverntíman eftir páska því það á að fara í byrjun maí.

Ef ég fer þá hefur það bæði stóran kost og stóra galla. Svona vinnuferð þýðir rúmlega tvöföldun tekna og þar er kosturinn kominn. Gallarnir eru að það er að koma sumar og ég er ekki viss um að maður tími að eyða öllu sumrinu og öllu veiðitímabilinu fastur í vinnu í útlöndum ég tala nú ekki um að það er búiðað bjóða mér til Svíþjóðar í byrjun júní og við eigum pantaðan sumarbústað um miðjan júlí.

mánudagur, apríl 10, 2006

"Ég langur ekki" hefur heyrst ótæpilega oft á þessu heimili síðan fyrir helgi, ástæðan er þriðji heimilismeðlimurinn sem kom tímabundið inn á heimilið. Það eru ekki margir karlmenn sem maður víkur úr rúmi fyrir og allra síst ef konan manns sefur í téðu rúmi en um helgina var gerð undantekning á þeirri reglu þar sem áðurnefndur karlmaður neitaði að sofa á beddanum sem honum var skaffaður inni hjá okkur.

***

Einn þriðji vinnuvikunnar búinn og ég er ekki enn búinn að ákveða hvað ég geri um páskana.

***

Ég er orðinn meiri kaffifíkill en ég var, ástæðan er kaffimaskínan sem ég fékk í afmælisgjöf.
Ég er reyndar ekki orðinn nógu flinkur að búa til svona mjólkurfroðu en það hlýtur að lærast með tímanum.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Ef það er ekki að vera í mótsögn við sjálfan sig að óska eftir fleiri byggingalóðum í annari setningunni en berjast gegn þeim í hinni. Þetta gerði sjónvarpsmaðurinn og frambjóðandinn Gísli Marteinn áðan.

Sjallarnir hafa keyrt mikið á lóðaskorti R listans á undanförnum vikum, nú ætlar R listinn að deila út 300 lóðum hingað og þangað um borgina og þá rísa Sjallarnir upp og mótmæla auknum lóðaúthlutunum. Skilur maður svona fólk?

***

Ég átti afmæli í gær. Anna gaf mér kórónu, kodda og bók. Nokkrir bönkuðu upp á og þáðu að launum vöfflur og klístraðan döðlubúðing með heitri karamellusósu og þeyttum rjóma. Þessu var skolað niður með peffsíi, riddara sívertsen kaffi (sem er best) og vatni.

***

Bráðum koma páskar, í fyrsta sinn í mörg ár veit ég ekki hvað skal gera í fríinu. Við erum ekki á leið úr landi og ekki í neinn suarbústað. Ætli maður fari ekki bara á fyllerí og verði röflandi leiðinlegur, svo gæti maður byrjað að reykja aftur............... ætli það,,

laugardagur, apríl 01, 2006

Voðalegar hefur innihald Amazon sendinganna til mín breyst að undanförnu. Ég hef pantað alveg jafn mikið og áður en núna eru kassarnir fullir af fræðsluefni um ættleiðingar og Kínverska menningu. Á fimmtudag fékk ég tvær DVD myndir önnur er frá National Geographic og heitir China´s lost girls hin heitir Adopting from China og er um ættleiðingarferlið í Bandaríkjunum.

Ég fékk einn geisladisk með Kínverskum vögguvísum og eina barnabók sem útskýrir á mjög einfaldan hátt hvernig börn eru ættleidd.

þannig ernú það

***

Afrek dagsins er að ég bónaði Golfdrusluna hennar Önnu, í gær smurði ég hann og lét gera við dekkið sem hefur lekið síðustu vikur en ég veit ekki hvað veldur prumpi og freti á 3000 snúningum. Þýska drasl.

***