Fyrir nokkrum árum var ég rosalega upptekinn af því að allt sem ég keypti inn átti helst að vera framleitt á íslandi, við félagarnir úr iðnskólanum létum taka mynd af okkur í uniformi og skrifuðum grein í moggann þar sem við mótmæltum innflutningi á tiltekinni vörutegund sem við töldum ekki boðlegt að fólk keypti. Ég hélt ræður yfir mömmu þar sem hún hafði keypt eitthvað útlenskt í matinn í stað þess að kaupa eitthvað íslenskt, ég færði þau rök fyrir máli mínu að ef allir hugsuðu eins og hún yrði ég atvinnulaus. Ég hef í mörg ár reynt að fara nokkurnveginn eftir þessu og keypt samviskusamlega Íslenskar vörur þegar ég hef getað.
Nú er ég samt sennilega að verða búinn að fá leið á þessu. Í fyrrasumar vantaði mig flíspeysu, ég brunaði náttúrulega beint inn í Kringlu í 66°N búðina þar og ætlaði aldeilis að kaupa Íslenska peysu, þegar ég var búinn að hringsnúast í búðinni í korter og enginn virti mig viðlits labbaði ég út. Ég var þó ekki hættur við að kaupa Íslenskt og brunaði í aðra búð og keypti Cintamani peysu, hún kostaði alveg jafn mikið og Northface en er ólíkt Northface, var hún algjört drasl. Ég sé ekki í hverju verðið á peysunni liggur því það er ekki framlenging á rennilásaflipanum, hún er ekki aðsniðin, hún er ekki góð í hálsinn og það er enginn lykkja inni í henni til þess að hægt sé að hengja hana á snaga. Samt kostar hún jafn mikið og Northface peysan sem ég hætti við að kaupa.
Eins er þetta með landbúnaðarvörur hér á landi, það er búið að sannfæra fólk um að ekkert jafnist á við innlenda framleiðslu. Meira að segja er því haldið fram að grænmeti sem er ræktað inni í gróðurhúsi sé ferskara en það sem ræktað er undir berum himni undir sjálfri sólinni. Það er svona álíka rökrétt og að segja að föt þurrkuð í þurrkara lykti betur en föt þurrkuð úti.
Áðan keypti ég allt of dýran ost frá einokunarverslun mjólkurafurða, hann átti að verða að kremi ofan á köku og þurfti að hrærast heil ósköp áður en á kökuna færi. Uppskriftin sagði að þetta hætti að hrærast þar til engir kekkir væru lengur í ostinum. Eftir að hafa hrært draslið í þrjú korter voru enn kekkir í ostinum þannig að ég skipti um verkfæri í hrærivélinni og hrærði í hálftíma en án árangurs. Nú á ég köku með kekkjuðu kremi þökk sé einokunarstefnu stjórnvalda í landbúnaðarvörum.
Afhverju má ekki selja erlendan ost á eðlilegu verði á þessu guðsvolaða skeri þó ekki væri nema bara til að maður hefði val um fleiri en eina tegund. Eða viljum við kanski bara láta ráðuneytin ákveða fyrir okkur hvað okkur finnst best að borða?