fimmtudagur, september 27, 2007

Það er nú eitthvað lítið að gerast á þessari síðu þessa dagana.
Það er helst að frétta héðan að heimætan náði sér í þetta líka svaka kvef með ofboðslegum horfossi sem við erum búin að reyna að þurrka upp með öllum gerðum af þerripappír. Þetta horfir til betri vegar núna eftir því sem tilfinningin segir manni. Svo kom hlaupabóla ofan í kvefið þannig að stuðið á heimilinu hefur verið í hálfgerðu lágmarki.

Ég vann mig út úr sjokkinu með því að leggjast í óþarfa innkaup, fyrst fór ég og keypti þriðja bílinn á heimilið því nú erum við þrjú og svo keypti ég tölvu sem mun leysa 5 ára gömlu borðtölvuna af hólmi.

Tölvuna keypti ég á útsölu á laugardegi en sótti svo allt sem vantaði í hana á sunnudegi í búðina eftir að hafa legið yfir búnaðarlýsingu næturlangt. Verst þótti mér að þurfa að setja gripinn saman sjálfur því ég er ekki mikill rafeindavirki í mér.

Bílinn fékk ég aftur á móti nokkurnvegin í einu lagi ef frá er talið dráttarbeislið sem lá ónotað inni í honum og þá meina ég ónotað það var ekki ein rispa á kúlunni. Ég hugsa að það fái að ligga ónotað inni í honum eitthvað áfram því ég skil ekki hvernig á að festa það á og finnst þetta allt eitthvað hálf ótraustvekjandi, sennilega þótti fyrri eiganda þetta líka eitthvað pjáturslegt og þessvegna ekki notað gripinn og í ofanálag þá á ég ekkert til að hengja í þetta beisli.

Allavega þá er gott að vera kominn á jeppa aftur eftir þriggja ára hlé og ekki verra að hann skuli vera næstum eins stór og sá sem ég átti síðast og 30 hestöflum kraftmeiri. Þar sem fyrri eigandi var gamall kall þá var hann á dekkjum sem bjóða ekki upp á að allur krafturinn sé sendur í einu úr bensíntankinum og út í hjól þannig að ég þarf að reyna að finna eitthvað betra grip á góðu verði. Ef maður stígur of fast á hægri pedalann fer allt í spól og vitleysu þó undirlagið sé þurrt malbik.
Magnað hvað Íslenskir dekkjasalar eru ótölvuvæddir, í það minnsta finn ég eitthvað lítið úrval á netinu.

***

Á mánudag er sælan úti því þá þarf ég að druslast í vinnuna, ég er búinn að vera í fríi síðan seint í ágúst og gæti alveg hugsað mér að vera lengur í fríi. það er þó huggun harmi gegn að það eru bara þrír og hálfur mánuður þangað til ég fer í annarskonar frí sem er ekkert frí heldur puð vinna þar sem maður öslar skaflana með barnavagn og skiptir um beyjur þess á milli og gefur barninu að borða á fyrirfram ákveðnum og rútineruðum tímum.

Assgoti munar miklu að skrifa á lyklaborð í fullri stærð, best að hætta þessu.

sunnudagur, september 16, 2007

Ég er búinn að bæta tengli fyrir síðuna hennar Natalíu hér til hliðar. Það gengur bara nokkuð vel með hana hér heima. Hún orðar flestan mat sem við berum á borð fyrir hana, í gær var það kjúlli en kjötsúpa í kvöld. Spurning um að halda bara áfram með kjötsúpuna á morgun.

Við förum með hana til læknis á morgun til að láta lesa af berklaprófinu sem var gert á föstudag og til að skila einu sýni inn til rannsóknar. Spurning hvernig hún bregst við þegar við komum inn á spítalann því heimsóknin á föstudag var síður en svo gleðileg. Gestur barnalæknir tók á móti henni og fór hörðum höndum um ungann sem var skít logandi hrædd við kallinn, en vinkaði honum þó þegar við kvöddum.

Á morgun ætlum við líka að skrá hana í þjóðskrá og sækja um kennitölu. Þannig að það verður smá rúntur hjá okkur.

Þetta er gangur í Sumarhöllinni í Beijing. Hann er 728 metra langur með 8000 málverkum á sperrum og burðarvirki.

Við gengum einhverra hluta vegna við hliðina á þessum gangi en ekki inni í honum þannig að ég steig bara inn í hann rétt til að taka eina eða tvær myndir og svo héldum við áfram að ganga við hliðina á honum.

fimmtudagur, september 13, 2007

Frænkurnar komu í heimsókn í dag og stilltu sér upp fyrir myndatöku.

sunnudagur, september 09, 2007

Sumir kunna að skirpa og velta sér upp úr skítnum.

Þetta er snyrtipinninn dóttir mín við Himnahofið.Þessi mynd er tekin fyrir utan barnaheimilið sem stelpurnar komu frá. Þær voru reyndar hjá fósturfjölskyldum en þetta er stofnunin sem hefur umsjón með munaðarleysingjum í Wuxue.

Þetta er spítalinn sem Natalía Yun fannst fyrir utan þann 24.3.2006.
Henni hafði verið komið fyrir í körfu eða einhverju slíku bakvið þetta skilti sem ég stend við þarna.

Hér er bakhliðin á því, það er ekki alve víst að það hafi verið á nákvæmlega þessum stað en forstöðukona heimilisins hélt að þetta væri staðurinn. Það eru tvær stelpur í hópnum sem fundust þarna á þessum bletti.
Hér er svo Natalía Yun í dýragarðinum í Wuhan að borða ís sem mamma hennar átti að fá en tapaði hendurnar á þessu smávaxna matargati.


Það er rosa fjör hjá okkur á morgnanna, því skvísan vaknar hlæjandi og gleðin minnkar ekki við að fara í morgunmat því þá byrjar hún að syngja og tralla af gleði og vinkar þjónustufólkinu eða nikkar til þess, sem gerir það af verkum að við fáum enn betri þjónustu því þau eru alltaf að koma til að sjá hver það er sem skemmtir sér svona konunglega. Meira að segja kokkarnir hafa troðið sér fram til að sjá fjörið.

miðvikudagur, september 05, 2007

Ég ætlaði að vera búinn að setja inn myndir og nafn hérna en sökum þess hvað dagskráin er stíf og lítið kríli bíður ekki alltaf rólegt meðan maður sendir ættingjum og vinum línu, þá hefur ekki unnist tími til að sinna þeim verkum. Fyrir þá sem ekki vita, þá heitir stúlkan Natalía Yun Hauksdóttir. Við erum bara búin að nefna hana enda er hún ekki komin heim ennþá. Við erum búin að spyrja hina og þessa Kínverja hvernig nafnið hennar er borðið fram, það er borið fram nokkurnvegin svona Uín með lítilli áherslu á U, en þeir eru alls ekki sammála um hvað það þýðir þannig að ég sleppi að setja það inn hér.

***

Við fórum í Gula trönuturninn í dag og skoðuðum hann og útsýnið úr honum. Það var mjög gaman.
Þessi er af flísalögðum vegg í Gula Trönuturninum í Wuhan. Ég er að spá í að fá mér svona flísar á baðið.
Þetta er bjölluturn við hliðina á þeim gula.
þarna eru lappirnar í kross af gleði yfir að hafa fengið ís eins og hinir.
Þetta er fyrsta mublan sem við kaupum handa Natalíu og hún fær að nota, allt hitt er heima. Þetta er trékollur með á málaðari mynd af vatnsmelónu en það er eitt það besta sem hún fær að borða.

Á morgun fer annaðhvort ég eða Anna með rútu til Wuxue, en það er borgin sem stelpurnar fundust á og koma frá. það verður örugglega 10 tíma ferðalag þar sem farið verður með hópinn á staðina sem stelpurnar fundust á og barnaheimilið skoðað.

Það var reyndar engin stelpnanna á barnaheimilinu og er það vel því það eru mannskemmandi staðir. Þær voru allar hjá fósturfjölskyldum sem höfðu þær í fóstri og það sést greinilega á þroska þeirra að þær hafa fengið gott atlæti og þá örvun sem lítil börn þurfa.

sunnudagur, september 02, 2007

Stóri dagurinn er á morgun. Þegar þetta er skrifað eru tæpir tólf tímar í að við fáum stelpurnar í fangið. Við komum inn á hótel hér í Wuhan klukkan átta í kvöld en, við fórum beint úr loftkældu rútunni inn á loftkælda hótelið. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir á herberginu og borða, fórum við út að athuga hvort við gætum fundið verslun til að kaupa vatn. Það er skemmst frá því að segja að það er ekki skrítið þó þessi borg sé kölluð ofninn því rakinn drap okkur næstum þegar við gengum út úr húsinu. Við setjum inn MYNDIR þegar við komum til baka af skrifstofunni. Ég veit ekki hvað þetta ferli á morgun tekur langan tíma þannig að fólk ætti nú ekki að halda sér vakandi til að bíða eftir myndunum. Vonandi verðum við komin til baka og búin að setja inn myndir og nafn þegar þið vaknið.


p.s. það fór mun betur um okkur í Air China vélinni í dag en í stóru SAS vélinni fyrir viku.