sunnudagur, október 26, 2008

Nú er ég bara nokkuð bjartsýnn aftur eftir allan bölmóðinn það sem af er október. Ég hlustaði nefnilega á fréttir klukkan níu í morgun og þar var gamall kunningi á ferð, nefnilega frétt af einhverju sem er að gerast í pólitíkinni í Ísrael. Ég hugsaði með mér: mikið er nú gott að allt er komið í svo gott lag í okkar heimshluta að við fáum loksins fréttir af því sem er að gerast þarna lengst í burtu. Ég hef reyndar aldrei skilið afhverju svona mörgum fréttum frá þessu landi er dælt yfir okkur en engu að síður er ágætt að fá fréttir af vandamálum þeirra því þá eru okkar vandamál ekki að trufla mann á meðan.

***

Hvernig skyldi standa á því að þegar ég hendi einum bíl og ákveð að eiga bara einn og ferðast til og frá vinnu á reiðhjóli þá byrjar að snjóa í október. Ég man ekki eftir svona veðurfari áður, ég hefði ekki orðið neitt hissa á snjó og hálku í byrjun nóv en að vera með þetta veður dag eftir dag frá miðjum okt er soldið meira en ég kæri mig um.

***
Hér er enn ein pestin búin að stinga sér niður, í þetta sinn er það handa-, fóta- og munnveiki eða hvað maður ætti að kalla hana. Unginn byrjaði að kvarta í gær undan bólu í munninum og þegar við fórum að skoða hana betur þá sáum við að hún var með bólur á fótunum og í lófunum. Eftir því sem leið á daginn varð alltaf verra og verra að borða og endaði með því að hún drakk bara vökva og borðaði ís (það má ef maður er veikur). Við brunuðum upp á læknavakt og komumst strax að. Læknirinn var ekki lengi að greina ástandið og sendi okkur heim með það að ekkert væri gert við þessari veiki annað en að bíða og taka verkjalyf. Þá var munnurinn orðinn allur í bólum og stúlkan verulega ergileg. Nú er bara að vona að hún hristi þetta af sér sem fyrst.

miðvikudagur, október 15, 2008

Þegar ég keyrði gegnum sveitina áðan á leið frá Akranesi, sá ég að kindur eru orðnar mun snyrtilegri í dag en þær voru fyrir nokkrum árum. Ég keyri alltaf framhjá nokkrum sveitabæjum á hverjum degi en hef ekki tekið eftir því áður að kindur nútímans eru allar hreinar og vel greiddar, ekki skítugar og með krullur.

föstudagur, október 10, 2008

Voðalega eru allir eitthvað svartsýnir þessa dagana. Ég hef varla stigið fæti út fyrir hússins dyr síðan á mánudag, þá var ég rétt sestur við tölvuna og byrjaður að kjafta á msn þegar einhver þau hörðustu mótmæli sem ég hef orðið vitni að komu frá maganum mínum. Þar sem ég hvorki var né er óléttur þá gat þetta ekki verið fæðing þannig að það hlaut að vera magakveisa. Já magakveisa nr 2 á stuttum tíma nema þessi var öllu öflugri en sú fyrri og ég er ekki enn orðinn alveg góður. Ég herti upp hugann áðan og hellti upp á kaffi í fyrsta sinn síðan á mánudag, ég held að þessir tveir bollar ætli að tolla á sínum stað.

Unginn vaknaði eiginlega ekki í morgun heldur stundi upp úr sér "mamma ég er sasin" sem útleggst "mamma ég er lasin" við glottum eitthvað að þessu og reyndum svo að vekja hana en án árangurs, hún var rennsveitt á höfðinu og öll hálf slöpp. Ég ákvað því að vera einn dag enn heima og sinna sjúklingnum, hún svaf til hálf ellefu og fékk þá að borða og fór svo aftur að sofa klukkan hálf eitt. Þannig að hún er eitthvað sloj þó hún virðist ekki hafa hita.

***

Nú keppast álfyrirtækin við að bjóðast í góðmennsku sinni til að reisa álver út um allt land og stækka þau sem fyrir eru í tilefni kreppunnar. Ef það er eitthvað sem við getum lært af þessu hruni þá er það að hafa körfuna ekki of stóra fyrir okkur til að bera og ekki of mörg egg í henni. Ég held að fullt af nýum álverum verði ekki full af fyrrverandi bankastarfsmönnum.

Ég vona að fólk fatti tenginguna milli einhæfrar atvinnustarfsemi og mikilla sveiflna í efnahagi landsins.

fimmtudagur, október 02, 2008

Já já hver bað um snjó? ég veit að það snjóar á mars en það þurfti svosem ekki að koma með sýnishorn hingað.

Í morgun þegar ég vaknaði leit ég út um gluggann og sagði við Önnu, það er bara komin hvít jörð..... nei djók. En nú er þetta bara ekkert djók. það byrjaði að snjóa þegar ég lagði af stað heim úr vinnunni og hefur bara bætt í síðan.