sunnudagur, október 26, 2008

Nú er ég bara nokkuð bjartsýnn aftur eftir allan bölmóðinn það sem af er október. Ég hlustaði nefnilega á fréttir klukkan níu í morgun og þar var gamall kunningi á ferð, nefnilega frétt af einhverju sem er að gerast í pólitíkinni í Ísrael. Ég hugsaði með mér: mikið er nú gott að allt er komið í svo gott lag í okkar heimshluta að við fáum loksins fréttir af því sem er að gerast þarna lengst í burtu. Ég hef reyndar aldrei skilið afhverju svona mörgum fréttum frá þessu landi er dælt yfir okkur en engu að síður er ágætt að fá fréttir af vandamálum þeirra því þá eru okkar vandamál ekki að trufla mann á meðan.

***

Hvernig skyldi standa á því að þegar ég hendi einum bíl og ákveð að eiga bara einn og ferðast til og frá vinnu á reiðhjóli þá byrjar að snjóa í október. Ég man ekki eftir svona veðurfari áður, ég hefði ekki orðið neitt hissa á snjó og hálku í byrjun nóv en að vera með þetta veður dag eftir dag frá miðjum okt er soldið meira en ég kæri mig um.

***
Hér er enn ein pestin búin að stinga sér niður, í þetta sinn er það handa-, fóta- og munnveiki eða hvað maður ætti að kalla hana. Unginn byrjaði að kvarta í gær undan bólu í munninum og þegar við fórum að skoða hana betur þá sáum við að hún var með bólur á fótunum og í lófunum. Eftir því sem leið á daginn varð alltaf verra og verra að borða og endaði með því að hún drakk bara vökva og borðaði ís (það má ef maður er veikur). Við brunuðum upp á læknavakt og komumst strax að. Læknirinn var ekki lengi að greina ástandið og sendi okkur heim með það að ekkert væri gert við þessari veiki annað en að bíða og taka verkjalyf. Þá var munnurinn orðinn allur í bólum og stúlkan verulega ergileg. Nú er bara að vona að hún hristi þetta af sér sem fyrst.