laugardagur, september 27, 2008

500.
Ég var frekar slappur í gær, ég harkaði þó af mér og fór á leikskólann til að sækja ungann því það er mitt verk á föstudögum. Ég komst sem betur fer báðar leiðir milli regnskúra. Ég hefði sennilega ekki verið blautari þó ég hefði lent í rigningu, því að hjóla með rúmlega 38° hita með kerru aftan í hjólinum og ungann þar í upp á hæðina kallar fram mikinn svita og mikla þreytu.

***

Við lágum fyrir framan sjónvarpið í gær og biðum eftir Barnaby, á undan honum var einhver bíómynd um tvo hunda og einn kött sem voru villt úti í skógi og rötuðu ekki heim. Þau lentu í allavega vandræðum á leiðinni en björguðust öll að lokum og fundu fjölskylduna sína.
Meðan ég beið eftir að þessi skemmtilega mynd kláraðist spáði ég í hvort þessi börn sem eru öðruhvoru í starfskynningu hjá ríkissjónvarpinu fái að raða upp dagskránni.

Mér er til efs að nokkur úr þeim aldurshópi sem þessi mynd átti að höfða til hafi verið vakandi þegar hún var sýnd. Satt best að segja held ég að það hefði verið meira áhorf á hana klukkan tólf á hádegi en klukkan tíu á föstudagskvöldi.

þvílík leiðindi.