sunnudagur, ágúst 24, 2008

Þá er sumarfríinu lokið og vinnan tekur við á morgun. Ég er búinn að vera í sumarfríi síðan um verslunarmannahelgi. Þetta er búinn að vera fínn tími þó framkvæmdagleðin hafi ekki verið neitt gríðarleg.

Við fórum í latabæjarhlaupið í gær og þeir sem voru rétt klæddir fengu veraldleg verðlaun meðan við hin fengum andleg. Unginn sá öll átrúnaðargoðin þarna á einu bretti, sparibauk sem hún hélt að væri Maggi mörgæs, Skoppu og Skrítlu, Sollu stirðu, Glanna glæp að ógleymdum Íþróttaálfinum sem gerði sér lítið fyrir og tók ungann í fangið fyrir myndatöku.

Það var nú ekkert smá gaman, það er komin mynd frá þeim viðburði inn á heimasíðuna hennar. Ég held að íþróttaálfurinn hafi ekki fengið mynd af þeim saman.

***

Ég horfði á handboltann í morgun og lokaathöfn Ólympíuleikanna í hádeginu. Það verður seint sagt um Kínverjana að þeir haldi látlausar hátíðir. Þó lokaathöfnin hafi ekki verið neitt í líkingu við opnunina þá var þetta rosa flott og kynti enn frekar undir löngun manns til að fara aftur til Kína.

***

Í síðustu viku hlotnaðist mér sá heiður að fara með ungann í aðlögun á leikskóla, það var þræl gaman. Fyrri daginn fengum við rúmlega einn klukkutíma en þann seinni fengum við tvo. Það er skemmst frá því að segja að hún stóð sig með mikilli prýði, á morgun fær mamma hennar að fara með henni og sjá hvernig gengur.