föstudagur, október 10, 2008

Voðalega eru allir eitthvað svartsýnir þessa dagana. Ég hef varla stigið fæti út fyrir hússins dyr síðan á mánudag, þá var ég rétt sestur við tölvuna og byrjaður að kjafta á msn þegar einhver þau hörðustu mótmæli sem ég hef orðið vitni að komu frá maganum mínum. Þar sem ég hvorki var né er óléttur þá gat þetta ekki verið fæðing þannig að það hlaut að vera magakveisa. Já magakveisa nr 2 á stuttum tíma nema þessi var öllu öflugri en sú fyrri og ég er ekki enn orðinn alveg góður. Ég herti upp hugann áðan og hellti upp á kaffi í fyrsta sinn síðan á mánudag, ég held að þessir tveir bollar ætli að tolla á sínum stað.

Unginn vaknaði eiginlega ekki í morgun heldur stundi upp úr sér "mamma ég er sasin" sem útleggst "mamma ég er lasin" við glottum eitthvað að þessu og reyndum svo að vekja hana en án árangurs, hún var rennsveitt á höfðinu og öll hálf slöpp. Ég ákvað því að vera einn dag enn heima og sinna sjúklingnum, hún svaf til hálf ellefu og fékk þá að borða og fór svo aftur að sofa klukkan hálf eitt. Þannig að hún er eitthvað sloj þó hún virðist ekki hafa hita.

***

Nú keppast álfyrirtækin við að bjóðast í góðmennsku sinni til að reisa álver út um allt land og stækka þau sem fyrir eru í tilefni kreppunnar. Ef það er eitthvað sem við getum lært af þessu hruni þá er það að hafa körfuna ekki of stóra fyrir okkur til að bera og ekki of mörg egg í henni. Ég held að fullt af nýum álverum verði ekki full af fyrrverandi bankastarfsmönnum.

Ég vona að fólk fatti tenginguna milli einhæfrar atvinnustarfsemi og mikilla sveiflna í efnahagi landsins.