laugardagur, september 27, 2008

500.
Ég var frekar slappur í gær, ég harkaði þó af mér og fór á leikskólann til að sækja ungann því það er mitt verk á föstudögum. Ég komst sem betur fer báðar leiðir milli regnskúra. Ég hefði sennilega ekki verið blautari þó ég hefði lent í rigningu, því að hjóla með rúmlega 38° hita með kerru aftan í hjólinum og ungann þar í upp á hæðina kallar fram mikinn svita og mikla þreytu.

***

Við lágum fyrir framan sjónvarpið í gær og biðum eftir Barnaby, á undan honum var einhver bíómynd um tvo hunda og einn kött sem voru villt úti í skógi og rötuðu ekki heim. Þau lentu í allavega vandræðum á leiðinni en björguðust öll að lokum og fundu fjölskylduna sína.
Meðan ég beið eftir að þessi skemmtilega mynd kláraðist spáði ég í hvort þessi börn sem eru öðruhvoru í starfskynningu hjá ríkissjónvarpinu fái að raða upp dagskránni.

Mér er til efs að nokkur úr þeim aldurshópi sem þessi mynd átti að höfða til hafi verið vakandi þegar hún var sýnd. Satt best að segja held ég að það hefði verið meira áhorf á hana klukkan tólf á hádegi en klukkan tíu á föstudagskvöldi.

þvílík leiðindi.

fimmtudagur, september 25, 2008

Ég á svo bágt í dag. Ég er nefnilega veikur, ég náði mér í einhverja flensu sem er nú sennilega ekki sú sverasta en alveg nóg til að ég tilkynnti mig veikann í dag. Ég er með hita, beinverki og hausverk.
Svakalega er nú lítið gaman að hanga heima yfir engu.

sunnudagur, september 21, 2008

Ég skaust milli haglélja í gær inn í hjólabúð til að kaupa rautt blikkljós aftan á hjólið mitt svo bílstjórar sjái mig þegar ég þeytist í og úr vinnu. Það var furðu mikið að gera í búðinni miðað við veðrið sem var og líka miðað við að það er komið haust.

Ég labbaði einn hring um búðina meðan ég beið eftir að fá afgreiðslu, ég sá þar hjól sem eru einhverslags millibil milli keppnishjóla og fjallahjóla. Þetta eru hjól sem eru á breiðari dekkjum en keppnishjólin og með hærri gírum en fjallahjólin þannig að þau ættu að henta betur til að komast hratt milli staða innanbæjar. Þó fjallahjólið sé ágætt til síns brúks þá finnst mér ég fara full hægt yfir á því, ég held ekki nema c.a 20 km meðalhraða á því og næ ekki nema 50 niður bratta brekku með pedalana á yfirsnúningi. Þess vegna er ég að spá í að kaupa mér annað hjól með vorinu.
Ég væri svo sem til í keppnishjól ef það væri hægt að fá þau með sterkari dekkjum. Best að nota veturinn í að stúdera þetta.

laugardagur, september 06, 2008

Ég skrifaði hér inn um daginn að ég ætlaði að fara að búa til myndasíðu á netinu. hún er til en ég á reyndar eftir að flokka og setja fleiri myndir inn. Um síðustu helgi henti ég nokkur hundruð myndum úr tölvunni því ég hef þann leiða sið að setja allar myndir úr myndavélinni inn í tölvuna, henda einni mynd á netið og geyma svo hinar 150. Þessu þarf að breyta því það er óþarfi að vera með tugi mynda sem eru allar næstum eins en bara ekki alveg eins góðar og sú sem fór á netið.

Hér er albúmið en myndirnar sem eru þarna hafa flestar birst á bloggernum fyrst.