miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Sko kallinn. Þið getið reynt að giska á hvar þessi með hvítu lappirnar stendur. Þess ber að geta að ég get ekki skoðað síðuna sjálfur því það er lokað fyrir lestur bloggsíðna hér í alþýðulýðveldinu.

***
Enívei, það var heitt í dag og ég var sveittur en þó ekki sveittastur. Við fórum í Jade verksmiðju í dag en eins og allir vita er Jade steinategund. Í þessari verksmiðju sker fólk út allskonar fígúrur í Jade og selur okkur svo á vægu okurverði. þegar það var frá og við höfðum notað Visakortið smá var haldið á Kínamúrinn, ég skokkaði upp á topp á þeim hluta sem okkur stóð til boða að ganga á(lesist drattaðist milli þess sem ég saug vatnsbrúsann). Bakið á mér var rennandi blautt þegar ég kom niður enda sennilega eitthvað milli 25 og 30 stiga hiti þarna í dag. Ég svitnaði svo mikið að ég stopaði á miðri leið í minjagripabúð og keypti túristaderhúfu á fáránlega háu verði til að svitinn rynni ekki í augun á mér. Þegar við vorum búin að þramma múrinn fórum við í verksmiðju sem selur vasa og annan borðbúnað úr emaleruðum kopar. Það var mikil upplifun að sjá hversu mikil vinna er að smíða einn svona vasa eða disk. Við keyptum hvorugt heldur keyptum við glerkúlur sem eru holar að innan og málðar innanfrá gegnum gat. Við létum skrifa táknið hennar Yun innan í aðra kúluna, þannig að þá er mynd af hundi á kúlunni, því hún er fædd á ári hundsins og svo er táknið hennar líka.

Við fengum að borða á risastórum veitingastað á efri hæð verksmiðjunnar, það var óhemju mikill matur á borðum og svakalega sterkir snafsar 56% til að jafna mallann ef ske kynni að það væri eitthvað ullabjakk í matnum.

***

Núna er Anna á fleygiferð um allt hótel að leita að einverjum sem er með frontpage í tölvunni sinni þannig að hún geti sett inn á aðalsíðu hópsins því í öllum hamaganginum við að pakka gleymdist að athuga hvort þetta forrit væri í fartölvunni.

þriðjudagur, ágúst 28, 2007


Við erum komin til kína eftir langt ferðalag. Við náðum lítið að sofa á leiðinni því það fór ekki alveg nógu vel um mann í sætinu. Hótelið er mjög flott og herbergið er ca 50 m2 þar af er rúmið ca6 fermetrar. Það eru risastór gatnamót við gluggann á herberginu og risastór sjónvarpsturn líka. ég reyni að setja inn mynd sem ég tók út um gluggann.

Annars er hitinn bærilegur hér en rakinn frekar mikill. Eftir nokkra klukkutíma leggjum við að stað á kínamúrinn, við sáum hann úr flugvélinni í gær þar sem hann hlykkjaðist um fjallstoppana hér rétt utan við borgina.

Við erum búin að prófa að borða á kínverskum veitingastað, við fengum mjög góðan mat eftir ævintýralegar bendingar á matseðilinn sem samstóð af táknum og myndum.

Núna er sólin að koma upp í Peking, klukkan er 5:30 að morgni og ég er búinn að vera vakandi síðan 3:30. Mengunarskýið er ekki lagst yfir þannig að ég sé að útsýnir héðan af herberginu er gott. Í gær var mjög lélegt skyggni.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Ég er kominn í langt frí. Þar sem ég er ekki viss um að ég muni eftir að skrifa meira hér inn áður en við förum í stóra túrinn þá vísa ég bara á þessar síður ef fólk vill fylgjast með okkur.
Heimasíða hópsins
Heimasíðan okkar
Varaheimasíðan ef aðal klikkar

Það eru gestabækur og athugasemdakerfi út um allt á þessum síðum þannig að það er engin afsökun fyrir að kvitta ekki.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Ef ég drepst ekki úr stressi á morgun þá hlýtur það að gerast hinn daginn. Mér finnst listinn með öllu sem á eftir að gera fyrir brottför endalaus. Ég gaf mér samt tíma til að kíkja aðeins á annan bílinn okkar um daginn en hann hefur staðið á sprungnu dekki mjög lengi fyrir utan húsið og hvorugt okkar nennt að fara út til að skipta um dekk. Þar sem hann stóð svo þá lak allt rafmagn af honum og hann neitaði að fara í gang, neitaði að renna aftur á bak og hann neitaði að hleypa mér í skottið þar sem samlæsingarnar þurfa rafmagn. Þar með þurfti ég að ná í hinn bílinn til að gefa start, því varadekkið var læst niðri í skottinu á þeim rafmagnslausa. Eftir að hafa fengið smá aðstoð frá betri helmingnum datt bíllinn í gang og allir voða glaðir, þangað til ég rak augun í bensínpoll sem hafði myndast undir þeim nýstartaða.

Ég drap á ílnum hið snarasta en ákvað samt að skipta um dekkið þrátt fyrir lekann. Þegar dekkið var komið á var trekkt í gang aftur til að finna lekann og til að sjá hvort viðgerð væri möguleg. En það var sama hvað bílnum var gefið inn og slakað á gjöfinni til skiptis, enginn dropi kom undan honum. Ég drap því á honum og ákvað að hann væri læknaður af lekanum.

Í gærkvöld ætlaði ég svo að fara og þvo bílinn og hlaða geyminn í leiðinni því hann hafði ekki verið í gangi nema 3-4 mínútur þegar bensínlekinn gerði vart við sig. Ég brunaði út með startkaplana og hinn bílinn til að gefa þeim bláa start. Þegar hann var kominn í gang og ég orðinn klár að leggja af stað, gerðist eitthvað óskiljanlegt í húddinu á bílnum sem varð þess valdandi að ég greip um eyrun og stökk inn í bíl til að drepa á. Það hafði nefnilega vaxið í hann þjófavarnakerfi sem við vissum ekki að væri í honum og þó höfum við átt bílinn í 3 ár.

Ég prófaði að setja bílinn aftur í gang og aftur ærðist hverfið. Ég stóð eins og hálfviti og hélt fyrir eyrun meðan bíllinn spangólaði eins og hann væri pyntaður. svo hættu ósköpin þangað til ég prófaði að banka í einhvern kassa með rafmagnsleiðslu inn í þá varð allt galið aftur og ég greip fyrir eyrun. Þegar þarna var komið sögu var ég orðinn frekar pirraður og greip í leisluna sem lá inn í kassann og rykkti í þannig að vírarnir slitnuðu upp úr og dósin þagnaði.

föstudagur, ágúst 03, 2007

Það er búið að bóka flug fyrir okkur til Kína. Við förum gegnum Stokkhólm en ekki Köben, þannig að það verður enginn bjór í Nýhöfn að þessu sinni. Við erum að farast úr spenningi yfir þessu öllu og nú teljum við niður á hverjum morgni þegar við vöknum.

Ég hef tvisvar komið til svíþjóðar og leiddist í bæði skiptin, þó heldur meira í seinna skiptið en það fyrra því þá var ég byrjaður að drekka bjór og langaði í einn slíkan þegar við stigum á land í Malmö í 28°C. Við vorum búin að stenka okkur með reglulegu millibili á Strikinu og í Nýhöfn og ætluðum að halda uppteknum hætti í Svíþjóð en gátum ekki því það var bannað að selja bjór úti á götu. Við máttum því fara inn á veitingastað og ofan í kjallara þar sem einhver rétti okkur norskan bjór sem við drukkum nánast undir borðinu svo enginn sæi til okkar. Eftir að hafa labbað um malmö í 45 mínútur var okkur farið að leiðast svo mikið að við forðuðum okkur aftur yfir sundið til Köben.

Ég vona að það sé skemmtilegra að ganga um Stokkhólm.