sunnudagur, maí 13, 2007

Ef einhver hefur áhuga á að kynna sér Afríska framúrstefnutónlist þá er hlekkur hér inn á heimasíðu Konono N°1 frá Kongó og hér og hér má hlusta á tóndæmi.

***

Rosalega verður gott þegar alþingismenn fara loksins í sumarfrí og vonandi taka þeir þingfréttamennina með sér. Ég stóð á austurvelli í gær og virti alþingishúsið fyrir mér, eða svona það sem er sýnilegt af því. Það er verðið að skvera það eitthvað til og þessvegna er búið að reisa háa bárujárnsgirðingu kringum húsið, ofan á þessari girðingu eru svo tvær raðir af gaddavír. Ég hélt að notkun gaddavírs innanbæjar væri bönnuð.

Svo er spurning hvort þessi gaddavír hafi verið settur til að halda stjórninni inni eða stjórnarandstöðunni úti?


Við fórum í bæði í gærkvöld og í morgun í bæinn. Í gærkvöld fórum við á frábæra tónleika með hljómsveitinni Konono N°1 frá Kongó en í morgun fórum við aftur á móti í franskt brúðuleikhús. Ég tók myndir af brúðuleikhúsinu en ekki tónleikunum. Ég hefði viljað horfa lengur á leikhúsið en kuldaboli bolaði okkur úr bænum gegn okkar vilja mun fyrr en ég hefði viljað.

miðvikudagur, maí 09, 2007
Við hjónin fórum í rómantíska göngufrerð í gærkvöld, niður að vatninu sem er við eldhúsgluggann okkar. Að sjálfsögðu var myndavélin með í för og tilraunir gerðar til að festa vorið á mynd.


Þessi varða er við Lónakotsselsstíg.

mánudagur, maí 07, 2007

sunnudagur, maí 06, 2007

Síðasti póstur átti að vera lengri en sökum tæknilegra örðugleika með að setja inn myndir varð lítið úr. Allavega þá fór ég í labbitúr frá Óttastaðaborg sem er fjárborg rétt sunnan við Straumsvík. Ég gekk yfir alfaraleið og sem leið lá upp að Lónakotsselshæðarbyrgi sem er hellisskúti sem er að hluta til hlaðið yfir, þarna héldu smalar til allt árið. Það er hálf erfitt að ímynda sér þegar maður horfir á þennan skúta að einhver hafi átt þar bústað.

Þegar ég var búinn að virða skútann fyrir mér og mynda aðeins labbaði ég upp á hæðina til að mynda vörðuna sem er þar og vísar leiðina um Lónakotsselstíg, þegar ég var hálfnaður upp brekkuna heyrði ég ropað einhversstaðar nálægt mér þannig að eftir vörðumyndatöku gekk ég niður af hæðinni aftur og skimaði eftir rjúpu eða karra. Það er nefnilega best að mynda þessi kvikindi á þessum árstíma þegar karrinn er búinn að helga sér land því þá haggast hann varla þó maður komi mjög nálægt. Ég var óvenju heppinn því ég fann bæði rjúpu og karra á sömu þúfunni og komst nógu nálægt til að mynda þau sæmilega. En þar sem bloggerinn er með einhvað vesen þá verður sú myndasýning að bíða.

****

Ég fór á dögunum og keypti mér nýtt hjól, það gamla var gefið í brotajárn hjá sorpu. Fyrstu dagarnir voru ansi sárir því það er ekkert grín að byrja að hjóla aftur eftir langt hlé, það tekur líka soldið á að hjóla heim þegar maður býr uppi á fjalli en þetta stendur þó allt til bóta með stöðugum æfingum.

Ég fór út í hraun að labba í hádeginu. Það er frekar langt síðan ég labbaði eitthvað þannig að þetta var sérlega gaman. Að sjálfsögðu var myndavélin með í för þannig að festa mætti vorið á mynd.Ef myndin prentast vel þá má sjá slóð sem hlykkjast þarna í hrauninu, þetta er gömul þjóðleið sem ber hið skemmtilega heiti, Alfaraleið og liggur milli Innnesja og Suðurnesja (Reykjavíkur og Keflavíkur). Leiðin er vel mörkuð í landið eftir aldalanga notkun. Ég gekk þvert á hana þannig að það koma ekki fleiri myndir af henni.