þriðjudagur, júlí 28, 2009





Einhverra hluta vegna hef ég ekki tímt að loka þessari síðu, ég opnaði facebook síðu einhvertíman í fyrra og hélt að það væri málið en svo fer reglugrðakjaftæðið í kringum þá síðu svo óendanlega í taugarnar á mér. þannig að það er spurning um að fara bara að nota þessa aftur og búa til myndasíðu til að hengja við. Nú á google, blogger, picasa og gmail og ég er með reikning á öllum þeim stöðum þannig að það er spurning um að fara að tengja þetta drasl saman og gera eitthvað úr því, þó ekki væri nema til að halda utan um myndir og kannski til að láta vita af stöðunni á manni.

Facebook er sniðug til þess að maður hafi einhverja hugmynd um hvað þeir sem maður hittir ekki daglega eru að gera. En aftur á móti finnst manni ekki sniðugt að sjá fólk sem maður þekkir notað til að auglýsa ódýrar bíóferðir bara vegna þess að viðkomandi skráði sig sem aðdáanda ódýrra bíóferða.
Þá þarf maður að vera á stöðugu varðbergi til að Facebook selji ekki myndirnar manns til þriðja aðila.

***

Við feðgarnir fórum í fjallgöngu fyrir viku síðan á Heiðarhorn í Skarðsheiði. Það mun vera 1053mys. Við lögðum af stað eftir vinnu hjá Árna og brunuðum sem leið lá inn á línuveg sem liggur meðfram Skarðsheiði og lögðum svo á fjallið frá þeim vegi. Við vorum rúman klukkutíma upp og eitthvað svipað á leiðinni niður. Ég var bjartsýnn og skildi bæði húfu og vettlinga eftir í skúffunni heima og lagði af stað á fjallið í stuttbuxum og þunnum hlaupabol. Þetta virkaði fínt á leiðinni upp en var ekki alveg jafn sniðugt á niðurleiðinni því eftir brauðsneið og pilsner neðan við toppinn var mér orðið svo rækilega kalt, þrátt fyrir að vera kominn í fleecepeysu, að ég ákvað að hlaupa við fót til að reyna að ná upp hita, það gekk ekki og ég varð að kafa ofan í bakpoka og finna mér regnjakkann minn og skella hettunni á mig. Þegar ég opnaði smellurnar á pokanum, var mér svo kalt að ég fann ekki fyrir fingrunum og ætlaði aldrei að ná að klemma smellurnar nógu fast saman til að þær opnuðust. Þetta tókst þó á endanum og mér hlýaði fljótt á fingrunum með tilheyrandi verkjum.