sunnudagur, mars 05, 2006


Við drifum okkur á fætur fyrir eðlilegan fótaferðatíma til þess eins að reima á okkur gönguskó og bruna upp í hálendi Hafnarfjarðar. Myndavélin var að sjálfsögðu með. Við tókum allskonar myndir af ísilögðu Arnarvatni og einhverju smálegu sem hafði frosið fast við ísinn. Arnarvatn er pínulítið vatn ofan við Seltún í Krýsuvík, nánar tiltekið við Ketilstíg.

***

Í gær fórum við á fund með tilvonandi ferðafélögum okkar, það var fróðlegur og skemmtilegur fundur. Ég hlakka mikið til að fara út með þeim. Eftir því sem maður hittir fleiri sem hafa farið út til að sækja börn eða eru á leið út minnkar kvíðinn og spenningur tekur við. Sennilega verður maður orðinn óvinnufær af spenningi þegar líða fer að ferðinni.

***

Nú skal aftur á móti skundað á fund til að ráða ráðum varðandi helstu baráttumál kjörforeldra. Fréttir dagsins eru að ráðherrann sem er með okkar mál á sínu borði er hættur og ráðherrann sem er á okkar bandi er sestur við skrifborðið hans þannig að nú þarf að semja herfræðiáætlun til að fá styrkinn ári fyrr inn. Ég hlakka alltaf til að fara á fund til þeirra sem halda fundina í baráttuhópnum því þau laga svo assgoti gott kaffi.