þriðjudagur, desember 28, 2004

Jólin búin

Jæja þá eru jólin búin og tími að verða til að taka niður skreytingarnar,,,,,,, kannski ekki alveg en allavega bara moldviðrið eftir. Ég borðaði þrisvar yfir mig og drakk nokkrum sinnum svo mikið kaffi að það hafði áhrif á hjartsláttinn. Konfekt hefur verið á öllum matseðlum milli mála. Ég er búinn að lesa eina bók: Kleifarvatn, hún endar þannig að ..... hehe bara að stríða.

Ég gaf fáar gjafir en fékk margar þannig að ég held bara að ég hafi komið út í plús þetta árið eftir margra ára vöruskiptahalla við fjölskylduna.

**********

Fýrverkið er næst á dagskrá hjá mér, ég ætla ekki að selja svo mikið sem eldspýtustokk fyrir þessi áramót og ætla ekki að koma á nokkurn hátt nálægt samsetningu á flugeldasýningu því ég er hættur að starfa með björgunarsveitinni og það heillar mig ekki á nokkurn hátt að aðstoða moldríka björgunarsveit sem á allt við að ná sér í meiri peninga. Reyndar finnst mér að það ætti að sameina Rauðakross Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg í eitt félag sem hefði það að markmiði að hjálpa öllum heiminum frekar en að nískupúkar geti fengið vélsleða eða jeppa upp í hendurnar til að leika sér að. Nú kann einhver að koma með bölvuðu rulluna um að menn séu ávallt viðbúnir að fara á fjöll eða sjó og til þess þurfi fjármagn, sannleikurinn er sá að útköllum hefur fækkað gríðarlega nú síðustu 10-15 ár, með nýrri tækni í fjarskiptum, fullkomnum staðsetningartækjum og bættum búnaði í alla staði. Þegar ég byrjaði í björgunarsveit árið 1992 var hægt að bóka útkall á fyrsta degi í rjúpu, nú kemur varla fyrir að kalla þurfi út fjölda manns í víðavangsleit. Á sama tíma bólgna sveitirnar út og tækjakostur verður yfirgengilega dýr og mikill.

Mér finnst óeðlilegt að á höfuðborgarsvæðinu séu nálægt tíu björgunarsveitir sem eiga 30-40 bíla sem nýtast sára sjaldan nema til æfinga og skemmtiferða (æfingar eru skemmtilegar ferðir = skemmtiferðir) . 3 eða 4 björgunarskip og nokkrir snjóbílar og margt fleira sem ég nenni ekki að telja upp.

Mér finnst nær að meta þörfina á stærð sveita og hafa bara eina sveit sem gæti heitað björgunarsveit höfuðborgarsvæðisins, hún væri staðsett miðsvæðis í bænum og fjöldi félaga ótakmarkaður. Þó væru útkallslistar takmarkaðir við einhvern ákveðinn fjölda manna sem mætti kalla til hvenær sem er, aðrir væru á B-lista sem mætti kalla til ef til stórslysa kæmi. Ég held t.d að trésmiður sem væri á útkallslista vegna náttúruhamfara nýtist betur við rústabjörgun en matreiðslusveinn, þó matreiðslusveinninn hafi fengið þjálfun í rústabjörgun en trésmiðurinn ekki.

Umfram fjármagn sveitanna væri notað til mannúðarmála og hjálparstarfa hingað og þangað um heiminn.

Það er falleg hugsjón að starfa með björgunarsveit en flestir sem leita í þann félagsskap eru að leita sér að ferðafélögum eða tækifæri til að komast í siglingar á fínum bátum. Fæstir fara í björgunarsveit til þess eins að koma að gagni ef einhver lendir í ógöngum eða hremmingum, það gera hins vegar þeir sem ganga til liðs við rauðakrossinn þar er hugsjónafólk.

Ég legg samt frekar til að fólk kaupi flugelda af björgunarsveitunum en Magga feita í Gullborg sem er bara innit for ðe monní og lætur lítið gott af sér leiða.

*************

Shiver