mánudagur, febrúar 05, 2007

Ég fór á stúfana í dag til að finna mér vettlinga. Þar sem nú er vetur á norðurslóðum og Færeyjar (steinninn) nokkuð norðarlega þá er soldið kalt að labba þannig að maður verður að vera vel klæddur og með góða vettlinga. Mig langaði ekki í enn eina Thinsulate fingravettlinga heldur langaði mig í alvöru lopavettlinga, helst belgvettlinga með tveimur þumlum.

Ég lagði því leið mína í handverkshúsið hér í Fuglafirði en þar má kaupa heimilisiðnað og allskyns handverk. Ég skaust þarna inn um leið og ég fór í búðina til að kaupa eitthvað með kaffinu handa okkur. Ég var því í vinnufötunum og kannski ekki sá best lyktandi í plássinu enda hafa fiskimjölsverksmiðjur sjadan verið taldar vellyktandi.

Ég steig inn í handverkshúsið og bauð tveimur konum sem þar voru góðan dag og spurði fyrst á Íslensku hvort þær ættu til vettlinga handa mér. Kona milli 70 og 80 ára spratt á fætur og pírði augun að mér og hváði. Ég endurtók spurninguna en nú með smá Færeysku ívafi, átt þú vöttar handa mér, þá lifnaði yfir kellu og hún spurði hvort ég væri Íslendingur, ég gat víst ekki neitað því. Hún brunaði að einhverju spjaldi sem var fullt af vettlingum en hin konan þaut eitthvað á bakvið til að leita að mannfólksvöttum (karlmannsvettlingar) eftir smá leit fundust þessir fínu stinguvettlingar handa mér. Ég valdi mér hvíta vettlinga með einhverju óræðu mynstri og sagðist ætla að fá þessa.

Meðan ég taldi krónurnar upp úr veskinu stóðu báðar konurnar við afgreiðsluborðið. Sú eldri spurði mig hvað maður frá Íslandi væri að gera í Fuglafirði. Ég svaraði að bragði að ég væri að vinna hjá Havsbrún. Gamla virtist mjög hissa á því og augun stækkuðu ótæpilega. Sú yngri virtist heldur sjóaðari og spurði þá gömlu hvort hún þyfti að spyrja svona spurninga. Finnur þú ekki lyktina af honum? Sú gamla kom niður á jörðina og játaði að lyktin væri ekki svo góð.

Ég fékk vettlingana og gekk alsæll út. En bj óboj þarf maður að fara að flýta páskabaðinu.

Sem minnir mig á að það eru langir páskar í ár, þeir liggja nefnilega að helgi í þetta sinn.