laugardagur, júní 17, 2006

Ég er kominn á klakann í súldina og kuldann. Við mættum aðeins fyrr í gær því einhverra hluta vegna fór flugvélin þremur klukkutímum fyrr í loftið en venjulega.

Eins og venjulega stoppaði tollurinn mig við komuna til landsins. Ég hef aldrei séð tollvörð þegar ég kem til annars lands og því síður talað við slíkan nema þegar ég ætlaði að flýta mér að sækja bílinn í Færeyjum.Þá fannst þeim ég eitthvað óeðlilega stressaður og tóku mig afsíðis en voru hinir almennilegustu. Aftur á móti er ég stoppaður í hvert einasta sinn sem ég kem til Íslands og þannig hefur það verið frá því ég byrjaði að ferðast án foreldranna. Einu tvö skiptin sem ég hef ekki verið stoppaður er þegar ég kom með verkfæri upp á eina milljón með mér frá Færeyjum og þegar við komum frá Madrid. Annars held ég að ég hafi alltaf verið stoppaður.

Í gær keyrði það reyndar um þverbak því þá var ekki nóg með að ég þyrfti að setja töskuna mína á færibandið heldur þurfti ég að fara úr skónum, tæma alla vasa, gera rækilega grein fyrir ferðum mínum og svo var leitað á mér hátt og lágt og ég spurður hvort ég tengdist fíkniefnamálum á einhvern hátt.

Ég átti reyndar von á að vera stoppaður og taskan yrði gegnulýst eins og alltaf en að hundhelvítið skyldi ráðast á mig var kannski ekki alveg það sem mig langaði mest því þá hafa aðrir sem komu til landsins á sama tíma væntanlega hugsað að ég væri stífdópaður eða með dóp í öllum vösum.

Þannig var það nú ekki. Mig grunar aftur á móti að hundurinn hafi verið svangur og að hann hafi fundið megnustu matarlykt af mér og vinnufélögunum, því við erum að vinna hjá fyrirtæki sem framleiðir fiskimjöl sem er einmitt notað í hundafóður og við vorum allir teknir afsíðis. Það er nefnilega ekki nóg að fara í sturtu einusinni eftir að hafa unnið í bræðslu sem er í gangi því lyktin skilar sér út úr húðinni á nokkrum dögum.

Ég held samt að hundurinn sé mun kurteisari en vinnufélagar hans sem standa á tveimur fótum því hann hreytir engum ónotum í mann eða lætur manni líða eins og ótíndum glæpamanni. Þegar það var búið að skipa mér á sakamannabekkinn í gær hringdi síminn í töskunni minni, þar var Anna hinumegin að athuga hvort ég væri lentur, ég rétt náði að svara í símann því um leið og ég stamaði fyrsta orðinu í tólið stökk tollari á mig skipaði mér að slökkva á símanum. Afsakið en þú gætir nú verið kuteis herra tollari og sagt manni strax við "handtöku" að ég mætti ekki tala í símann.
Það eina sem mér fannst vanta til að toppa niðurlæginguna í gær voru handjárn og að vera snúinn niður svo fólk velktist ekki í vafa um að það ætti að skoða mann rækilega.


Ég legg til að þegar næsti hundur þeirra hjá tollinum verður sendur á hlýðninámskeið verði tvífættu vinnufélagar hans sendir á mannasiðanámskeið eða að spýtan verði allavega dregin úr rassgatinu á þeim og naglhreinsuð og svo má troða henni upp aftur.

Ef þið haldið svo að þeir séu aðallega að leita að dópi þegar maður kemur frá Færeyjum þá er það misskilningur því þeir spyrja mann aðallega hvort maður sé með matvæli í töskunni og eru þá að leita að Íslensku lambakjöti sem fæst alla jafna á mjög góðu verði hjá nágrönnum okkar. Í gær var þó undantekning því þeir voru klárlega að leita að dópi þá.