sunnudagur, júní 04, 2006

Hér kemur allt sem ég hef potað inn í tölvuna á kvöldin í Færeyjum í einni bunu.

Mánudagur 29.maí
Eimskip er enn að stríða okkur. Þegar ég gekk frá bílnum með verkfærunum í skip var okkur sagt að hann færi í gám og þegar ég skilaði honum niður í Sundahöfn spurði ég sérstaklega hvort hann færi ekki örugglega í gám og fékk staðfest að svo væri. Ég hafði þessvegna ekki áhyggjur af frágangi verkfæranna á pallinum, ég hafði mestar áhyggjur af því að bíllinn þyrfti að standa marga daga úti á hafnarsvæðinu í Þórshöfn því mér fannst plastið sem við breiddum yfir pallinn ekki neitt sérlega traustvekjandi ef það gerði eitthvað veður að ráði. Þegar strákarnir sóttu svo bílinn stóð hann einn og sér á fleti sem þýðir að hann var fluttur milli landa úti á dekki á skipi og plastið sem ég hafði áhyggjurnar af hafði horfið einhversstaðar í Atlandshafið. Sem betur fer var ekki svo slæmt veður á leiðinni þannig að verkfærin sluppu við skemmdir en eitt og annað var örlítið ryðgað.

Nú erum við enn farnir að bíða eftir Gufuskipafjelagi Íslands því þeir áttu að senda okkur fleti með krana sem við eigum að setja upp. Þeir tóku að sér að flytja kranann á fleti frá Þýskalndi til Færeyja.Ekki tókst betur til en svo að þeir gleymdu að taka það af í Þórshöfn og þessvegna fór það til Íslands, þá átti að reyna aftur að senda það en ekki vildi betur til en að fletið fór nú í skip sem átti ekki leið til Færeyja heldur tók Evrópurúnt og fór svo aftur til Íslands, þangað sem það átti aldrei að fara. Nú erum við búnir að fá staðfest að það er komið til Runavíkur eftir að hafa verði týnt í Þórshöfn í allan dag.

***

Sunnudagur 28.maí
Kokkurinn er að reyna að drepa okkur, hann eldar svo góðan mat að maður getur ekki hætt að borða. Í hádeginu fengum við hið alvanalega steikarhlaðborð en í kvöld fengum við sjávarréttasúpu sem þurfti að tyggja, steiktar andabringur í piparsósu og pönnuköku með ís í eftirrétt. Ég held ég myndist á googgle earth í lok sumars.

***

Í gærkvöld fór ég við annan mann á bæjarhátíð í Klakksvík. Við fórum um nýjustu jarðgöngin hér, þau voru tekin í notkun fyrir mánuði síðan og eru öll hin glæsilegustu.

Bæjarhátíðin var eins og bæjarhátíðir eru heima, fullir unglingar, fótboltaleikur, hoppukastali, blöðrur fullir unglingar, pulsur, fullir unglingar og fullir unglingar.
Við fengum ekki kaffi en fórum aftur á móti til Árnafjarðar. Til þess að komast þangað þarf maður að aka um löng jarðgöng sem eru einbreið(þröng) og óupplýst. Þau eru svo þröng að flutningabílstjórar sem aka þar um segjast ósjálfrátt láta sig síga niður í sætið þegar þeir fara inn í göngin og ekki nóg með það því þegar maður kemur út hinumegin er svo kröpp beygja að maður þarf að taka hana eftir spegli sem er við hliðina á veginum.

Í Klakksvík er gata sem heitir Stokkseyrarbakki eða Stoksoyrabakki eins og heimamenn kalla það.Stuðmenn hvað.

***

Fimmtudagur 25.maí
Við fórum á rúntinn í gær. Ferðinni var heitið til bæjar sem er í ca. 20 mínútna akstursfjarlægð héðan. Einn okkar þurfti að komast á netið til að borga reikninga og lesa slúður. Við sem nenntum ekki á netið fórum upp að vatni sem er fyrir ofan Runavik. Það er skemmst frá því að segja að ég hef sjaldan séð jafn fallegt vatn og þetta. Meðan við vorum þarna var blanka logn og fiskur að vaka út um allt vatn.

Dagurinn í dag (skírdagur) var annars ekki frábrugðinn öðrum hérna nema við vorum á heldur hærra kaupi en venjulega.

***

Þriðjudagur 23.maí
Þessi dagur var fljótur að líða enda er megnið af efninu sem við þurfum komið og þessvegna hægt að setja allt á fulla ferð. Ég og lánsmaðurinn okkar vorum úti á bryggju frá klukkan sjö í morgun til klukkan fimm við að afferma fletið. Veðrið breyttist úr rigningu í slyddu og úr slyddu í minni rigningu og úr minni rigningu í enga, svona gekk dagurinn veðurfarslega með korters veðurköflum.
Við fengum hausasúpu og sprengisteik í kvöldmatinn. Þetta er dúndurfæði sem kokkurinn reynir að drepa okkur með á ca. mánaðr fresti, skammturinn er ekki undir tíunda hluta úr fermeter og allavega þrjú pund á mann.

Síðan ég var hér síðast hefur kokkurinn náð sér í konu frá Tælandi, hún brosir allan hringinn allan daginn og stjanar við okkur með bros á vör og það besta er að hún kann ekki ennþá að skamma okkur fyrir að borða ekki matinn eins og Hervör vinkona okkar gerir þegar henni finnst við lystarlausir.

Það er mun betra að vinna hér að vori en hausti að því leyti að hér er bjart fram eftir kvöldi þannig að maður getur farið út að labba eftir vinnu,,,,,,, og það nýtti ég mér áðan. Ég gekk út með sjónum og skoðaði húsin sem standa hinumegin við fjörðinn.Veðrið gat ekki verið mikið betra með þessum sólargangi þ.e. hér nýtur ekki kvöldsólar því skurðurinn sem við búum í er bæði þröngur og djúpur.

Á morgun fækkar í hópnum því tæknideildin fer heim í fyrramálið og í stað þess að vera sex verðum við þrír.

***

Sunnudagur 21. Maí
Við sváfum alveg til klukkan hálf níu í morgun. Allt var í lága drifinu til klukkan fjögur en þá fundum við eitt lítið verkefni sem var hægt að byrja á. Þegar því lauk klukkan tæplega sex fórum við heim í 100 ára gamla 200 fermetra húsið sem við erum með. Þar brugðum við okkur í sturtu fyrir matinn. Palli kokkur var tilbúinn með veislu handa okkur þegar við mættum til hans, strákarnir björguðu mér reyndar frá forréttinum, en hann samanstóð af rækjum, tveimur salatblöðum, tveimur sítrónusneiðum og hellingi af sósu. Aðalrétturinn hjá kallinum var hinsvegar lambalæri með kartöflugratíni sósu og rauðvíni eða reyðvíni eins og það heitir víst á Færeysku.

Við búum í húsi sem var hér áður fyrr pósthús, það er enginn annar en kokkurinn okkar sem á húsið. Amma hans bjó víst hér á árum áður en hún er víst gengin á vit feðra sinna fyir einhverju síðan. Það er soldið skrýtið að koma hér inn því þrátt fyrir að enginn búi hér er allt fullt af litlum hlutum sem gera heimili að heimili en ekki bara gististað. Hér er t.d gömul dagbók prentuð um miðja síðustu öld hjá Steindórsprenti, Electrolux ryksuga eins og mamma og pabbi áttu fyrst, allskonar haltir og óhaltir stólar lítið silfurskrín sennilega undan sígarettum, gömul og slitin hnífapör í skúffum og margt annað sem fólk safnar að sér á löngum tíma. Hér eru tvær stofur, önnur er notuð sem sjónvarpsherbergi en hina notum við ekki neitt því það er ekkert sjónvarp í henni.

Eftir vinnu og kvöldmat sest ég venjulega upp í herbergi og fæ mér bjór og skrepp aðeins í tölvuna. Ég er ekki með nettenginu en ég ætla að athuga hvort kallarnir sem við vinnum fyrir geti reddað okkur tengingu því maður veit ekkert hvað er að gerast í heiminum meðan maður er hér.

***

Ég er enn með gæsahúð eftir Cocorosie tónleikana og er búinn að marg renna diskunum þeirra í gegnum spilarann. Það er engin spurning að þessir tónleikar eru með þeim ferskari sem ég hef séð og góð tilbreyting að húsið var ekki eingöngu skipað karlmönnum. Það er ekki oft að maður sér svona svakalega spilagleði skína af hljómsveit.

***

Það er búið að vera óvenju vont veður hér síðan við komum, venjulega breytist veðrið á korters fresti og getur sveiflast milli allra veðurbrigða á klukkustund. Nú bregður aftur á móti svo við að það er búið að vera sama skítaveðrið síðan á föstudag. Það er búin að vera slydda í öllum vindáttum og brjálað rok, þetta hefur þýtt það að þrátt fyrir að hafa afskaplega lítið að gera í vinnunni hefur maður ekki einusinni komist út að labba með myndavélina

***


Laugardagur 20.Maí
Dagurinn fór í sama og ekkert. Við mættum til vinnu klukkan sjö í morgun og gaufuðum fram að seinna kaffi, þá var allt sem við gátum gert búið, við fórum því heim og horfðum á imbann fram að mat.

Ég hef ekki grun um hvað við gerum á morgun því veðurspáin er afleit og verkefnastaðan er engin því við erum ekki búnir að fá neitt efni til að smíða úr. Hér er snjór í fjöllum og búið að vera klikkað veður í allan dag, það er meira að segja búið að vera óvenju lengi vont veður því venjulega breytist það á korters fresti.

Þættinum hefur borist svo hljóðandi bréf: við ætlum ekki að vakna klukkan sjö, byrjum að slóra klukkan 9. Þetta er frá flokkstjóranum.

***


Föstudagur 19. maí
Fluginu seinkaði um þrjú korter, það kom þó ekki að sök því við áttum ekki að vinna neitt við komuna. Vinnufélagi okkar sótti okkur út á völl og tilkynnti okkur að kokkurinn hefði ekki tekið annað í mál en að halda mat heitum handa okkur. Það þýddi að ég borðaði tvisvar kvöldmat þann dag, fyrst á Nings með Önnu og svo á Muntru í Fuglafirði með vinnufélögunum. Ég lét verða af því að kaupa draumamyndavélina í fríhöfninni, ég þurfti að sérpanta hana með margra daga fyrirvara og þegar ég kom inn í fríhöfnina var myndavélin það fyrsta sem blasti við. Fyrst átti nú að selja mér ranga vél en eftir mikið handapat, handafórnanir, upphróp og fuss og svei kom í ljós að rétta vélin var uppi í hillu.

Það voru margar holur á veginum til Færeyja, ég hélt á tímabili að það væri líka sprungið á druslunni því við gátum trauðla talað saman fyrir hoppi, skoppi og endalusu falli. Mér finnst alltaf eind og vélin ætli allsekki að lenda á flugvellinum hérna, heldur ætli hún beina leið ofan í stöðuvatnið við brautarendann eða utan í hlíðarnar í hinni áttinni. Hér er nefnilega bara ein flugbraut. Oftast er komið inn til lendingar yfir stærsta stöðuvatn eyjanna, það er skárri áttin en þegar maður þarf að koma inn fjörðinn er vissara að vera í beltinu því þá hoppar og skoppar vélin út um allt og lætur öllum illum látum. Því aðflugið er inn mjög þröngan fjörð með háum fjöllum á báðar hendur.

***

...