Við brugðum undir okkur betri fætinum í gær og skelltum okkur í tvær heimsóknir og á tæplega fjögurra flukkutíma langa tónleika. Það er skemmst frá því að segja að veðrið var frábært og tónleikarnir æðislegir ef frá er talin upphitunarhljómsveitin, Amina, sem er mér ekki alveg að skapi. Mér leist ekkert á þetta eftir fyrsta lag því hljómurinn var afleitur, við vorum frekar framarlega og heyrðum nánast ekkert í trommum og annað var með mjög bjöguðu hljóði. Í næsta lagi var búið að laga hljóðið og þá byrjaði fjörið. Mér fannst hápunkturinn vera fyrsta uppklappslag og síðasta lagið þegar. Í fyrsta uppklappslaginu spilaði Georg með trommukjuða á bassann og fiðluleikararnir plokkuðu fiðlurnar, þetta varð þess valdandi að ég fékk tveimur númerum of stóra gæsahúð en í síðasta laginu var þunnt hvítt tjald dregið fyrir sviðið þannig að maður sá bara skuggana af hljómsveitinni í blandi við skyggnur sem var varpað á tjaldið.
Ef manni hefði leiðst eitt augnablik þarna þá hefði maður bara horft á gelgjurnar sem lágu á grasinu fyrir framan okkur, þær voru allar með sólgleraugu á stærð við framrúðu í rútu, allar töluðu frekar hátt og þær voru allar með fermingarmyndavélarnar sínar og skiptust á að taka myndir af hópnum þar sem þær lágu í óskipulegri hrúgu á grasinu. Ég held að meinvill hafi ekki skemmt sér minna við að fylgjast með þessum vitleysingum en að fylgjast með tónleikunum.
<< Home