Beirút hvað, ég fór út að labba um daginn, nánar tiltekið upp í Breiðdal. Við vorum að leita að merkjum í hinum sívinsæla ratleik Hafnarfjarðar. Þegar við komum upp á brekkubrún byrjuðu skothvellir að heyrast, ég taldi víst að ég hafði lagt bílnum við Krýsuvíkurveg en ekki við gatnamótin Ísrael/Líbanon. Ég greip myndavélina með stóru linsunni og beindi henni að byssufantinum til þess að sjá í hvaða átt hann fretaði, hann var bara of langt í burtu til þess að ég sæi inn í hlaupið en fyrst komu hvellir og svo kom hviss hljóð á eftir þannig að mér datt svosem í hug að hann væri að plaffa eitthvað í áttina að okkur. Ég hafði nú ekki meiri áhyggjur af því en svo að ég gerði ítrekaðar tilraunir til að ná mynd af kauða svo að ef hann næði að gata á manni peruna þá gæti löggan stuðst við eitthvað. Hann var allavega á rauðri Toyotu, svo mikið er víst og sennilega frekar nískur því ég held að það hljóti eingöngu að vera letihaugar, sóðar og nískupúkar sem fara þarna uppeftir að skjóta frekar en að fara á skotæfingasvæðið niðri við Staumsvík. Allavega virðist ekki vera pláss í bílunum þeirra fyrir tómu hylkin undan blýinu á heimleiðinni.
***
Mér finnst fyndið að fjölmiðlarnir skuli allir vera með fulltrúa uppi við Kárahnjúka til að vera tilbúnir í slaginn ef Umhverfisverndarsinnar hreyfa sig.Ætli þeir verði líka tilbúnir með fulltrúa í næsta tjaldi við þann sem rotaði flesta á einhverri útihátíðinni um verslunarmannahelgina í fyrra, bara svona til að ná sveitaballasveiflunni hans ef einhver verður í ár?
***
Ég væri búinn að skrifa meira í fríinu ef ég kæmist einhverntíman inn á bloggerinn, ég veit ekki hvort þetta er nýja tengingin okkar sem er svona leiðinleg eða hvort blogger hefur bara svona mikið að gera.
<< Home