Ég var búinn að pakka skíðunum, snjóþrúgunum, snjóþotunni, snjóflóðaýlinum og snjóskóflunni niður í geymslu en þá kom þetta rennandiblauta hvíta drasl dettandi af himnum ofan. Ég var meira að segja búinn að setja eitt sumardekk undir bílinn (eitt vetrardekið var orðið ónýtt).
brrr hvert fór vorið?
***
Í gær var mér boðið á listasýningu í Hafnarborg, moms hringdi í mig og spurði hvort mig vantaði ekki eitthvað að gera. Ég játti því og skellti mér með henni, Ausu og Flosa. Eftir að hafa skoðað vídeólistaverk um hveri og allar skálarnar hans Péturs Gauts, fórum við í kaffiteríuna og fengum okkur kaffi og súkkulaðiköku. Við sátum c.a klukkutíma þarna og höfðum staðinn út af fyrir okkur. Gaman að breyta svona til og fara aðeins út úr húsi.
***
Eftir listasýninguna fór ég í raftækjaverslun til að skoða eldavél, fjörutíu og tveggja ára gamla, þriggjahellu Grepa eldavélin sem við eigum er farin að vera með uppsteyt ef maður er að elda Kínamat, það helgast af því að hún er keyrð í botni meðan þesslags eldamennska er í gangi og það þolir hún ekki og slær út lekaliðanum sem er þremur hæðum neðar en eldavélin sem þýðir aftur að það þarf að hlaupa niður þrjár hæðir til að slá inn og upp þrjár hæðir upp til að halda áfram að elda. Síðast þegar við vorum með Kínverskt í matinn þurfti Meinvill að hlaupa 16 sinnum niður og 32 sinnum upp svo ég gæti haldið áfram að elda, þeta gengur náttúrulega alls ekki þannig að nú skal spanderað þrjátíu bláum í fjögurra hellu vél með hreinsikerfi.
<< Home