laugardagur, mars 10, 2007


Ég byrjaði daginn á að fylla gönguskóna mína af vatni og lét þá standa þannig í baðinu í tvo klukkutíma til þess að bleyta leðrið sæmilega. Þegar það var komið skellti ég mér í þá og fór út og gekk bæinn á enda til að reyna að stækka hægri skóinn. Ég held það hafi tekist ágætlega því mér fannst ekki eins þröngt um litlutá á hægri eftir labbið.

Ég tók myndavélina með og nýustu linsuna því ég hafði ekki enn prófað hana að gagni utandyra. Hún olli ekki vonbrigðum og myndefnið ekki heldur. Því ég rakst á selinn Snorra sem var ekki sem hressastur þar sem hann lá í sjósetningarrampinum við siglingaklúbbinn. Í það minnsta reyndi hann ekki að flýja undan mér þegar ég kom með myndavélina að vopni og gekk hringi kringum hann og myndaði.

Þegar ég var búinn með Snorra í bili gekk ég áfram út að smábátahöfninni og myndaði nokkrar trillur. Þegar ég gekk fyrir hornið á sjóbúðunum við smábátahöfnina renndi bíll upp að hliðinni á mér og maður sem leit út eins og Bobby Peru úr Wild at heart skrúfaði niður rúðuna og spurði: have you recently arrived to Iceland? Ég horfði á hann í forundran og sagði honum að ég væri nú takk fyrir Íslendingur. Hann varð hálf vandræðalegur og sagði að ég liti út eins og túristi, "þú veist með bakpoka og svona" ég sagði ekkert og það virtist gera kallinn enn vandræðalegri því hann sagði mér í óspurðum fréttum að það væri allt fullt af pólverjum og þeir væru alltaf til vandræða. Þá nennti ég þessu ekki og gekk í burtu.