laugardagur, júní 05, 2010

Lappirnar á mér eru að taka einhverjum breytingum þessa dagana, ég er búinn að kaupa skó fyrir 75 þúsund á þremur vikum. Ég byrjaði á að kaupa vinnuskó, alveg eins og þá sem ég hef keypt mörg undanfarin ár en eftir nokkra daga í þeim er ég farinn að fá verk upp innaverðan sköflunginn. Ég var búinn að klóra mér slatta í hausnum yfir þessu þar til ég reif innleggin úr og steig á þau og sá að litla tá á hægri stóð alveg út af innlegginu og stór hluti jarkans þannig að ég varð að fá mér annað par og í þetta sinn númeri stærra. Ég fékk um daginn blöðru undan gönguskónum mínum sem hafa fram til þessa verið mjög hæfilega stórir og þurfti meira að segja að slaka á tábandinu á öðrum sandalanum.

Ég lét verða af því að kaupa utanvegahlaupaskó í vikunni, ég er búinn að taka einn prufurúnt á þeim á Helgafell, ég held þeir séu fínir en mér var nokkuð illt í sköflungnum þannig að ég naut hlaupsins ekki neitt rosalega. Nú er bara að vinna í því að losna við öll fótamein og gefa svo í.