þriðjudagur, júní 08, 2010


Á laugardaginn hlupum við Goggi hringinn upp í Kaldársel og til baka. Ég var að drepast í sköflungunum í upphafi hlaups en svo lagaðist það með tímanum. Ég var svakalega þungur á mér alla leiðina og dagsformið slappt. Kannski ekki sniðugt að hlaupa á laugardagsmorgni með bjór og viskí í maganum. Asics Trabuko skórnir virka fínt.

Á sunnudag fórum við feðgarnir allir saman í fjallgöngu. Leiðin lá á Skessuhorn í frábæru veðri, ég var bara klæddur í stuttbuxur og bol en fékk að kenna á því daginn eftir því eg gleymdi sólarvörninni og kálfinn var ekki alveg ánægður með það. Við vorum þrjá tíma upp og tvo niður. Leiðin sem við völdum var skemmtileg en ekki sú greiðasta því við fórum full snemma upp í klettana og lentum í klöngri þar sem við hefðum sloppið við ef við hefðum farið aðeins vestar.

Þegar við vorum búnir að mynda og hnykla vöðvana á toppnum héldum við af stað niður og ákváðum að koma okkur niður fyrir toppinn og setjast við klett til að borða nestið. Þetta var gert af gömlum vana og engu öðru því aldrei þessu vant var logn og heitt á toppnum og því í raun engin ástæða til að koma sér niður í klettana, því það þurfti ekki meira skjól.
Annars eru lappirnar með einhverja bölvaða stæla þessa dagana því ég er búinn að koma mér upp þessari fínu beinhimnubólgu í sköflunginn.

Núna sit ég með aftersun á kálfanum og kælipoka á sköflungnum.