sunnudagur, ágúst 24, 2008

Þá er sumarfríinu lokið og vinnan tekur við á morgun. Ég er búinn að vera í sumarfríi síðan um verslunarmannahelgi. Þetta er búinn að vera fínn tími þó framkvæmdagleðin hafi ekki verið neitt gríðarleg.

Við fórum í latabæjarhlaupið í gær og þeir sem voru rétt klæddir fengu veraldleg verðlaun meðan við hin fengum andleg. Unginn sá öll átrúnaðargoðin þarna á einu bretti, sparibauk sem hún hélt að væri Maggi mörgæs, Skoppu og Skrítlu, Sollu stirðu, Glanna glæp að ógleymdum Íþróttaálfinum sem gerði sér lítið fyrir og tók ungann í fangið fyrir myndatöku.

Það var nú ekkert smá gaman, það er komin mynd frá þeim viðburði inn á heimasíðuna hennar. Ég held að íþróttaálfurinn hafi ekki fengið mynd af þeim saman.

***

Ég horfði á handboltann í morgun og lokaathöfn Ólympíuleikanna í hádeginu. Það verður seint sagt um Kínverjana að þeir haldi látlausar hátíðir. Þó lokaathöfnin hafi ekki verið neitt í líkingu við opnunina þá var þetta rosa flott og kynti enn frekar undir löngun manns til að fara aftur til Kína.

***

Í síðustu viku hlotnaðist mér sá heiður að fara með ungann í aðlögun á leikskóla, það var þræl gaman. Fyrri daginn fengum við rúmlega einn klukkutíma en þann seinni fengum við tvo. Það er skemmst frá því að segja að hún stóð sig með mikilli prýði, á morgun fær mamma hennar að fara með henni og sjá hvernig gengur.

mánudagur, ágúst 11, 2008


sunnudagur, ágúst 10, 2008


Ég er búinn að finna mér myndasíðu sem ég stefni á að fylla af myndum innan tíðar. Ég á eftir að fara eitthvað gegnum bunkann og sortera úr það sem var á gömlu síðunni sem var lokað fyrir langa löngu síðan. Ég ætla a setja eitthvað þaðan inn á nýju síðuna svo ég þurfi ekki að byrja á núlli. Ég set eina mynd hér inn svona í tilefni dagsins.

laugardagur, ágúst 09, 2008

Við Natalía horfðum á setningarathöfn Ólympíuleikanna í gær. Ég gapti allan tímann meðan ég horfði, við brugðum okkur reyndar frá í einn klukkutíma til að ná okkur í fegurðarblund sem öðru okkar veitti ekki af. Merkilegt hvað fjölmiðlar eru allir fullir eftirvæntingar um að eitthvað fari úrskeiðis hjá Kínverjunum. Ég sá ekkert sem fór úrskeiðis við setningarathöfnina, ég nennti reyndar ekki að horfa á íþróttamennina ganga inn á völlinn þannig að ég missti af því sem Fréttablaðið birti mynd af án þess að skrifa um. Það voru Íslensku íþróttamennirnir sem voru að sinna mikilvægum símtölum meðan þeir gengu inn á völlinn. Þvílík hallærislegheit að geta ekki slökkt á símanum meðan gengið er inn á Ólympíuleikvanginn. Það er ekki eins og þetta sé hversdagslegur viðburður hjá íþróttamönnum. Ég skil ekki hvað er svo mikilvægt að það það megi ekki bíða nokkrar mínútur meðan gengið er inn á leikvanginn, það er svo hægt að tapa sér í sms og símablaðri þegar komið er á áfangastað og búið að stilla upp eftir inngönguna.

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Ég get svo svarið fyrir það að ég bý í gömlu vændishúsi. Ég var úti í garði í gær og var að ræða við nágranna minn. Sá sagði mér að vændiskona hefði búið í íbúðinni okkar og starfaði heima hjá sér. Fleiri grannar bættust í hópinn og fóru að rifja upp tímann með vændiskonunni. Konan sem býr við hliðina á okkur sagði að það hefði verið svo mikill bisness hjá henni að menn hefðu nánast tekið númer hér úti á tröppum. Löggan komst víst í málið og truflaði viðskiptin eitthvað en fékk hana ekki dæmda, því vændið var aukavinna. Ef það hefði verið eina vinnan hennar þá hefði hún sennilega verið sakfelld.