þriðjudagur, apríl 24, 2007

Hér sér ekki úr augum fyrir rigningu í augnablikinu, sennilega er þetta alltaf svona hér uppi í fjöllunum.

***

Ég er búinn að fá nóg af flutningunum, ég hef varla gert annað á kvöldin síðan um miðjan mars en að pakka ofan í kassa, mála, taka upp úr kössum og þrífa. Nú væri bara soldið gaman að fara að gera eitthvað annað.

***

Það er kominn sjálfvirkur kippur í höndina á mér, þessi kippur er nokkurskonar kosningaskjálfti sem lýsir sér þannig að í hvert sinn sem pólitíkus opnar munninn í útvarpinu þá skýst höndin upp og skiptir um stöð. Ég nenni bara ekki að hlusta á röflið í þeim.

***

Á morgun verður haldinn aðalfundur húsfélagsins hér í fjöllunum. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir að hann er haldinn á knæpu. Spurning um einn gulann og hleypa svo öllu í bál og brand.

***

Svo ég klári þetta þá er ég kvefaður í puttanum, nánar tiltekið vísifingri hægri handar. Ég er ekki að tala um að hann sé allur í hori eftir kvefið heldur hleypur hann upp í exemi í hvert sinn sem ég fæ hor í nös og ekki spyrja afhverju þetta gerist því ég hef ekki hugmynd um það.

laugardagur, apríl 14, 2007

Við erum flutt, við sváfum fyrstu nóttina á nýja staðnum í nótt í nýja rafmagnsrúminu sem við keyptum. Ekkert meira um það að segja að sinni.