mánudagur, júlí 31, 2006

Við brugðum undir okkur betri fætinum í gær og skelltum okkur í tvær heimsóknir og á tæplega fjögurra flukkutíma langa tónleika. Það er skemmst frá því að segja að veðrið var frábært og tónleikarnir æðislegir ef frá er talin upphitunarhljómsveitin, Amina, sem er mér ekki alveg að skapi. Mér leist ekkert á þetta eftir fyrsta lag því hljómurinn var afleitur, við vorum frekar framarlega og heyrðum nánast ekkert í trommum og annað var með mjög bjöguðu hljóði. Í næsta lagi var búið að laga hljóðið og þá byrjaði fjörið. Mér fannst hápunkturinn vera fyrsta uppklappslag og síðasta lagið þegar. Í fyrsta uppklappslaginu spilaði Georg með trommukjuða á bassann og fiðluleikararnir plokkuðu fiðlurnar, þetta varð þess valdandi að ég fékk tveimur númerum of stóra gæsahúð en í síðasta laginu var þunnt hvítt tjald dregið fyrir sviðið þannig að maður sá bara skuggana af hljómsveitinni í blandi við skyggnur sem var varpað á tjaldið.

Ef manni hefði leiðst eitt augnablik þarna þá hefði maður bara horft á gelgjurnar sem lágu á grasinu fyrir framan okkur, þær voru allar með sólgleraugu á stærð við framrúðu í rútu, allar töluðu frekar hátt og þær voru allar með fermingarmyndavélarnar sínar og skiptust á að taka myndir af hópnum þar sem þær lágu í óskipulegri hrúgu á grasinu. Ég held að meinvill hafi ekki skemmt sér minna við að fylgjast með þessum vitleysingum en að fylgjast með tónleikunum.

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Beirút hvað, ég fór út að labba um daginn, nánar tiltekið upp í Breiðdal. Við vorum að leita að merkjum í hinum sívinsæla ratleik Hafnarfjarðar. Þegar við komum upp á brekkubrún byrjuðu skothvellir að heyrast, ég taldi víst að ég hafði lagt bílnum við Krýsuvíkurveg en ekki við gatnamótin Ísrael/Líbanon. Ég greip myndavélina með stóru linsunni og beindi henni að byssufantinum til þess að sjá í hvaða átt hann fretaði, hann var bara of langt í burtu til þess að ég sæi inn í hlaupið en fyrst komu hvellir og svo kom hviss hljóð á eftir þannig að mér datt svosem í hug að hann væri að plaffa eitthvað í áttina að okkur. Ég hafði nú ekki meiri áhyggjur af því en svo að ég gerði ítrekaðar tilraunir til að ná mynd af kauða svo að ef hann næði að gata á manni peruna þá gæti löggan stuðst við eitthvað. Hann var allavega á rauðri Toyotu, svo mikið er víst og sennilega frekar nískur því ég held að það hljóti eingöngu að vera letihaugar, sóðar og nískupúkar sem fara þarna uppeftir að skjóta frekar en að fara á skotæfingasvæðið niðri við Staumsvík. Allavega virðist ekki vera pláss í bílunum þeirra fyrir tómu hylkin undan blýinu á heimleiðinni.

***

Mér finnst fyndið að fjölmiðlarnir skuli allir vera með fulltrúa uppi við Kárahnjúka til að vera tilbúnir í slaginn ef Umhverfisverndarsinnar hreyfa sig.Ætli þeir verði líka tilbúnir með fulltrúa í næsta tjaldi við þann sem rotaði flesta á einhverri útihátíðinni um verslunarmannahelgina í fyrra, bara svona til að ná sveitaballasveiflunni hans ef einhver verður í ár?

***

Ég væri búinn að skrifa meira í fríinu ef ég kæmist einhverntíman inn á bloggerinn, ég veit ekki hvort þetta er nýja tengingin okkar sem er svona leiðinleg eða hvort blogger hefur bara svona mikið að gera.

laugardagur, júlí 22, 2006

Nei ó nei ég er ekki dauður og ekki hættur að blogga heldur er ég í sumarfríi og ýmist úr bænum eða í.

***

Við skruppum upp í Borgarfjörð í sumarbústað í síðustu viku. Fyrstu tvo dagana var háklassa sumarveður á fleygi ferð með blautu og rennblautu en svo stytti upp og ég brann. Ég er búinn með tunnu af aftersun og það rýkur stanslaust úr mér án þess að ég sé byrjaður að reykja.

Ég tók 500 myndir í fríinu og set kannski einhverjar á netið þegar ég nenni. Markverðast í fríinu var þegar við sáum alla laxana stökkva í Norðurá og þegar ég skvetti vatni á þriggja ára son kjötsúpunar, hehe sá fékk að finna fyrir því uss.

mánudagur, júlí 03, 2006

Mánudagur 26.6.06

Í gær labbaði ég upp í dal sem heitir því skemmtilega nafni “vestur í dal” jebb þetta er ekki nein vitleysa í mér, dalurinn heitir þetta samkvæmt nákvæmu landakorti sem ég fjárfesti í um daginn. Þar lenti ég í meiri Hitchcock ævintýrum því þegar ég ætlaði að fara að fikra mig niður dalinn í rólegheitum kom önnur flúgandi rotta og reyndi að hræða úr mér líftóruna. Þessir árar flögra kringum mann í smá stund og taka svo dýfu niður að manni þannig að hvín í vængunum. Við þetta bregður manni óskaplega því maður heyrir ekki í þeim fyrr en þeir koma í lágflugi rétt yfir hausinn á manni aftan frá og þá begður manni svo mikið að hausinn dettur næstum af.


Föstudagur 23.6.06
Í gær vorum við í fyrsta sinn varaðir við matnum hjá kokkinum. Hervör stórvinkona okkar kom til okkar með hausasúpu í forrétt og hallaði sér yfir borðið og sagði okkur í hálfum hljóðum að við skyldum passa okkur á matnum þetta kvöld. Það var hvorki hráefnið né gæði þess sem hún varaði okkur við heldur voru það skammtastærðirnar sem hanni leist ekki á.

Við svitnuðum allir úr hófi fram, sýnilega mest þó við sem höfum verið ér lengi í mat og sennilega ég mest því ég hef borðað heima hjá Hervöru og þar eru skammtarnir stórir. Ég fékk mér vel af hausasúpunni því maður veit aldrei hvenær maður fær svoleiðis góðgæti næst. Á eftir hanni kom sjávarréttadiskur á stærð við aðalrétt og svo kom lambalæri í aðalrétt. Þegar kallinn hótaði okkur köku gáfumst við upp og forðuðum okkur því það er aldrei hlustað á mann þegar maður reynir að afþakka mat hérna.Miðvikudagur 21.6.06

Ég mætti eina ferðina enn hingað mánudaginn 19.jún. Núna erum við sex saman, tveir úr bænum, tveir að vestan og tveir frá vestmannaeyjum. Við nenntum náttúrulega lítið að vinna við komuna hingað þannig að við boðuðum komu okkar snemma í mat til kokksins. Eftir matinn dreif ég mig í fjallgöngu, ég hafði nefnilega gefist upp fyrir sí auknum hliðarhalla á fimmtudag þar sem ég gekk nánast fyrir björg. Nú átti að reyna að komast fyrir hlíðina hinumegin frá þannig að loka mætti hringnum. Ég skellti mér upp í skarð sem er hér ofan við bæinn og þaðan ofan í Góðadal sem er all stór dalur hér hinumegin við fjallið.

Ferðin sóttist vel og þegar ég var farinn að nálgast dalbotninn fór ég að sjá héra hlaupa hingað og þangað og rollurnar jörmuðu hástöfum. Ég sá líka fugl sem ég óttaðist að ég kannaðist við frá fyrri tíð meira um hann síðar.

Þess má geta að það er ekkert í Góðadal annað en endalaus mýri, klettar á þrjá vegu, fjölskrúðugt dýralýf, tveir lækir og girðingar hingað og þangað. Samt liggur þangað af einhverjum óskiljanlegum orsökum heilmikill stígur með handriði og stiga og svo eru skriðuvarnir með honum á kafla svo ekki renni úr honum í leysingum.

Ég brunaði niður stíginn og hugsaði allan tíman að ef ég kæmist ekki fyrir hornið yrði ég að labba aftur upp alla brekkuna sem ég var á leið niður. Eftir því sem mér sýnist er 400 metra hækkun frá sjávarmáli og upp í skarðið og lækkun aftur um 300 metra niður í dalinn hinumegin.

Þegar ég var búinn að stíga í hvern mýrarflákann á fætur öðrum, klofa fyrir litla læki og skrika fótur í skriðum kom ég að litlum hól, efst á honum var lítil girðing sem ekkert var innan annað en smá dýjamosi og gras í kringum hann. Mér datt helst í hug að þarna væri gamall grafreitur. Ég stoppaði þarna og kastaði mæðinni eitt augnablik og fékk mér vatn að drekka. Meðan ég virti fyrir mér útsýnið sá ég hvar nokkuð stór, dökkur fugl flaug lágflug ca.100 metra frá mér. Ég þóttist kannast við ættarsvipinn á honum frá fyrri tíð eða nánar tiltekið úr einhverjum göngutúr þar sem íslenskur frændi hans gerði atlögu að okkur. Ég ákvað að láta hann ekki trufla mig og hélt áfram að labba og hugsaði með mér að ég ætlaði nú ekki að láta einhverja koddafyllingu stoppa mig frá því að kanna umhverfið og svala forvitninni.

Ég arkaði aftur af stað út dalinn (mér sýnist á korti að hann sé ca. 3 Km að lengd) og varð ekkert var við fuglinn að öðru leiti en því að hann flögraði stöku sinnum yfir hausinn á mér í mikilli hæð. Eftir nokkurra mínútna göngu meðfram girðingu komst ég að því að hlíðin er ófær þeim sem klæðast eingöngu strigaskóm á sterum. Ég sneri því við og hugsaði um bölvaða brekkuna sem beið mín framundan.

Eftir stutt labb komst ég að því að ég hafði greint fuglinn rétt, í það minnsta heyrði ég heljarinnar hvin og augnabliki síðar horfði ég beint í augun á stórum brúnum andskota sem ég hélt að væri kjói en hald í dag að sé bara veiðibjalla.
.
Mér dauðbrá og minntist sögu af félaga mínum sem lenti ítrekað í árás frá fugli fyrir mörgum árum en náði aldrei að hlaupa hann af sér við mikinn fögnuð ferðafélaga sinna. Ég ákvað að sókn væri besta vörnin og reyndi að grípa fuglinn næst þegar hann steypti sér niður að mér en komst ekki nálægt honum, þessvegna tíndi ég nokkra smásteina til að reyna að grýta fuglhelvítið ef hann kæmi nógu nærri. Nokkrir steinanna fóru nærri fuglinum en hittu ekki þannig að ég varð að mjaka mér út af svæðinu sem hann hafði helgað sér.

Eftir mikið puð komst ég í brekkuna með stígnum og mér til mikils léttis var handriðið enn hangandi uppi þannig að ég gat notað það til að toga mig upp brekkuna en þó bara hálfa leið því neðri hluti stígsins liggur bara upp smá klettabelti og svo tekur snarbrött grasbrekka við. Ég gat misnotað girðingu sem liggur upp brekkuna til að toga mig upp að næsta hluta stígsins og þaðan var létt leið upp í toppinn á rustarskarði og að lokum heim aftur. Mér telst til að leiðin sem ég labbaði þarna á þremur tímum sér ca. 8 Km löng með fyrri hækkun upp á 400 metra og þeirri seinni upp á 300. Mjög falleg leið sem ég ætla þó ekki að labba aftur í bráð enda sé ég ekki fyrir mér erindið sem eg gæti átt þangað.