sunnudagur, janúar 29, 2006

Ég er kominn með vöðvabólgu af of mikilli tölvunotkun. Ég er búinn að setja persónulegt heimsmet í móttöku og sendingum tölvupósta. Ég er búinn að skrifast á við tvo ráðherra, formann nefndar, þingmenn og almenna borgara á netinu. Ástæðan er að hópur sem við erum búin að hitta einusinni í viku síðan í nóv er að reyna að berjast fyrir því að þeir sem ættleiða börn frá útlöndum fái styrk frá ríkinu.

Það er svosem ekkert að gerast í þessu máli en vonandi kemst hreyfing á það sem fyrst. Ég fékk svar frá formanni nefndar sem gæti hugsanlega komið að málinu fyrir okkur og komið því inn á þing. Áður en það verður þurfum við að hitta nefndarmenn á fundi sem ég veit ekki hvort eða hvenær verður. Öll hin norðurlöndin styrkja fólk sem ættleiðir börn frá útlöndum, íslenska ríkið styrkir okkur ekki og það sem verra er við þurfum að borga skatta upp á mörg hundruð þúsund af þessu brölti, meira að segja eru styrkir frá stéttarfélögum skattlagðir í topp. Þessu ætlum við að breyta.

Þetta tekur tíma en skal takast.

****
Hópur 14 er búinn að fá upplýsingar um börnin sín og myndir af þeim. Við erum búin að fá að sjá myndir af einni stúlku sem er fædd 1.nóv í Kína, foreldrar hennar eru með okkur í baráttuhópnum.
Eftir 4-10 vikur fara þau svo út til Kína til að sækja stelpuna, það er ekki laust við að maður fái smá fiðring í mallann við að sjá myndirnar.

Við erum í hópi 16 þannig að við erum þarnæst. Við reiknum með að fara út í september eða október.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Þá er strangri en ekki langri helgi að ljúka. Ég náði þó að sofa út báða dagana.

***

Í gær fórum við í langa heimsókn til að hitta tilvonandi ferðafélaga sem ætla með okkur til Kína. Okkur líst vel á hópinn og við erum spennt að hitta þau aftur. Ég held að stefnan sé sett á að hittast einusinni í mánuði fram að brottför sem verður vonandi ekki mikið seinna en í september. Gosh mér finnst þetta svo langt í burtu að mér finnst ég ekki þurfa að gera neinar ráðstafanir nærri því strax en ef maður telur skiptin sem við komum til með að hittast fyrir brottför þá er það ekki svo oft.

***

Meinvill hélt upp á afmælið sitt í dag. Það var fullt hús af fólki og fullt borð af sætindum. Sumir gestirnir fengu séð aðallega eina sort, sérstaklega frænka mín sem lagðist á nammiskál með marglitu nammi. Hún var svo aðgangshörð að amma hennar bað mig að gera eitthvað í málinu, sem ég gerði. Ég tók bara stóru skálina meðan hún sneri sér undan og setti í staðinn skál sem er að öllu leiti eins og hin nema bara 20 númerum minni, sú stutta áttaði sig á breytingunni og þráspurði "hvað gerðist eiginlega?" Ég sagði henni að það væri afþví hún hefði borðað svo mikið úr hinni skálinni að hún skrapp saman. Ég held hún hafi ekki trúað mér.


föstudagur, janúar 20, 2006

Það er einn rosa spes gaur að vinna með mér, hann er rúmlega fimmtugur og ber með sér að það logar ekki á öllum perum hjá honum. Í gær heyrði ég sögu af honum þar sem hann var að vinna fyrir trésmið. Stykkin sem hann var að vinna við voru merkt með bókstöfum og þurftu að vinnast í ákveðinni röð sem trésmiðurinn ákvað. þar sem þeir stóðu er gjarnan vélagnýr. Hér eftir fer samtal smiðsins og Magga.

Maggi: hvað tökum við þá næst
Smiðurinn: D
Maggi: B?
Smiðurinn:D
Maggi: B?
Smiðurinn: D eins og í Daníel
Maggi stundarhátt með þjósti: Það vinnur enginn Daníel hér.

***

Á morgun ætlum við að hitta tilvonandi ferðafélaga okkar. Ég er spenntur.

Ussum fuss maður gæti eins lokað síðunni eins og að skrifa svona sjaldan.

****

Fljótlega eftir að ég skrifaði síðast hér inn hringdi Orkuveitustarfsmaðurinn í mig og bauð mér í jeppó. Það stóð ekki á svari frá mér. Næst tók fátið við því ég hafði stuttan tíma til að ferðbúast og ferðabúnaðurinn dreifður tvist og bast út um alla íbúð. Við fórum örstutt uppfyrir bæinn, festum okkur ekkert en löbbuðum samt næstum til byggða því við fundum hvert hverasvæðið á fætur öðru og ekki mátti hætta leitinni að því næsta. Hörku fjör og ekki laust við að mig langaði í jeppa eftir þennan túr.

***

Ég var sendur í Helguvík á miðvikudag til að laga eitthvað í sorpeyðingarstöðinni. Ég hafði ekki komið þangað inn síðan ég datt þar og braut á mér hnéð fyrir næstum tveimur árum. Það var rétt sem þáverandi flokkstjóri sagði mér að það eru málningarslettur upp um allan vegg eftir mig, ég hélt nefnilega á málningarbakka þegar ég lagði af stað niður, en einhverra hluta vegna náði ég að skilja hann eftir uppi á syllunni sem ég var að príla upp á. Alveg magnað því öll lögmál segja að ég hefði átt að fá bakkann framan í mig í lendingunni.

***

Meinvill átti afmæli á miðvikudag, ég rétt marði að komast heim á undan gestunum.

***

Ég sá mynd frá borg í Rússlandi áðan, undir henni stóð " ís hylur tré í Yekaterinburg 1440 km austur af Moskvu" þetta gæti ekki verið mikið nákvæmara, þetta er sama vegalengd og milli Reykjavíkur og Kritiansund í Noregi.

Þessi mynd er á galleríi sem Ap uppfærir á hverjum virkum degi, Íslenskir blaðamenn þýða margar fréttir af Ap þannig að það verður spennandi að sjá hvort þessi mynd dúkkar ekki upp með sömu nákvæmnis staðsetningu og Ap gefur upp í mogganum eða fréttablaðinu.

***

Ég hef átt samskipti við tvö fyrirtæki síðustu daga, bæði eiga það sameiginlegt að sýsla með póst og sendingar. Ég held ég hrósi báðum í hástert fyrir góða þjónustu. Annað þeirra er hinn Íslenski Póstur sem er að ég held með frambærilegasta þjónustuver sem um getur, hitt er Breska útgáfan af Amazon sem er líka með gott þjónustuver.

Mig var farið að lengja eftir pöntun frá Amazon, hún hafði lagt af stað frá þeim þann 6. jan en ekkert bólaði á henni í gær. Ég hringdi því í póstinn til að vita hvort hún hefði tafist í tollinum, svo var ekki og mér var bent á að tala við sendandann. Ég svitnaði því ég hafði heyrt að ómögulegt væri að hafa samband við Amazon, það væru endalausar "hjálpaðu þér sjálfur" blindgötur hjá þeim og ekkert netfang. Eftir smá ráp og marga smelli á "þetta svaraði ekki spurningu minni" komst ég inn á eitthvað svæði þar sem hægt er að senda fyrirspurnir. Ég klambraði saman fyrirspurn á minni fátæklegu ensku, þar sem ég rakti raunir mínar og viðraði þá skoðun mína að sendingin væri týnd. Ég bjóst ekki við svari frá þeim fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku þ.e ef það kæmi nú á annað borð.

Tuttugu og einni mínútu og sautján sekúndum seinna kom átta síðna svar frá Amazon þar sem fyrstu sjö og hálfa síðan fór í að biðjast afsökunnar fyrir hönd konunglega póstsins og svo hálf þar sem ég var beðinn um að smella á tengil ef sendingin birtist ekki innan sólarhrings. Í dag hringdi ég svo aftur í Póstinn til að vera viss um að mega smella á tengilinn og tilkynna sendinguna týnda. Fyrir svörum hjá Póstinum varð mjög þjónustulunduð kona sem tók sér smá tíma til að leita að sendingunni, hún tilkynnti mér að sendingin hefði skriðið inn til þeirra klukkan 12:23 í dag og búið væri að tollskoða hana og hún tók meira segja á sig krók til að finna út hvenær kassinn kæmi til mín. Mér fannst bölvað að kassinn kemur ekki fyrr en á mánudag, en það er fyrir öllu að hann er fundinn og ég er væntanlega laus við vesenið sem hefði fylgt því að tilkynna hann týndann.

sunnudagur, janúar 15, 2006Veturinn er greinilega kominn í öllu sínu veldi. Í það minnsta er snjór yfir öllu.
Þegar snjór hylur hæð og lægð fer ég út með malað bygg og set á bakka sem ég festi við svalahandriðið, svo bíð ég spenntur eftir að sjá hvort litlu vinir mínir snjótittlingarnir koma í mat. Í gær komu þeir og kláruðu af heilum bakka og núna fyrir klukkan ellefu eru þeir búnir af einum og eru þessa stundina að klára af öðrum bakkanum í dag. Mér finnst voðalega gaman að sjá forganginn í þeim þegar þeir slást um matinn, það er svo mikill hamagangur í þeim að þegar bakkinn er fullur af fuglum og ekki fleiri komast að, stekkur bara sá næsti upp á hópinn og hossar sér þar til ahnn dettur niður úr hópnum og nær í korn.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Ég er orðinn háður einu laginu sem Múm spilaði á tónleikunum á laugardag. Það heitir "Islands of the childrens children" og er af plötunni summer make good, nánar tiltekið lag númer sjö. Gargandi snilld. Þegar ég kynntist tónlistinni þeirra fyrst fór ég of hratt í hlutina og óverdósaði á fyrri tveimur plötunum þeirra, svo kom nýasta platan þeirra út rétt upp úr páskum 2004, þá var ég ekki búinn að losna undan óverdósinu og setti plötuna upp í hillu án þess að gefa henni séns. Nú er aftur á móti stóri sénsinn og platan í spilaranum.

***

Ég horfði á Kastljós áðan. Þar var mannorðsmorðinginn Jónas að reyna að segja okkur að allt sem stendur í Dv sé satt. Það er nefnilega það. Eitt fór ég þó að spá í þegar ég horfði á kallinn, hann er sláandi líkur aðal fautanum í bíómyndinni Snatch, þessum sem hendir líkunum fyrir svínin því þau eiga svo gott með að melta beinin. Ég er viss um að Guy Richie hefur séð Jónas í viðtali og hugsað: Svona týpu verð ég að fá í mynd hjá mér. Ég fékk sama hroll niður eftir bakinu þegar ég sá Jónas eins og þegar ég sá hinn kallinn í bíó.

Dæmi hver fyrir sig.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Þar sem Nfs ætlar sér að græða heilmikið á neyð fjölskyldu mannsins sem Dv tók af lífi í morgun, finnst mér ekki nema sjálfsagt að þeir greiði fyrir útför hans. Hvert er siðferði þessa fyrirtækis? Fyrst flytja Dv og Fréttablaðið frétt um fatlaðan mann sem einhver kjaftasaga segir að hafi nauðgað drengjum. Seinna sama dag kemur frétt á Vísi um að maðurinn hafi fyrirfarið sér í morgun vegna fréttarinnar og auglýsingu komið inn í fréttina um frétt af málinu í Fréttatíma Nfs.Þetta er tekið af visir.is "Karlmaður á sextugsaldri svipti sig lífi í morgun, eftir að DV birti mynd af honum á forsíðu og bendlaði hann við kynferðislegt ofbeldi gegn ungum piltum. Ásakanirnar gegn honum hafa ekki verið sannaðar og bróðir mannsins segir að DV hafi nánast rekið hann í dauðann. Nánar verður sagt frá þessu í fréttum NFS klukkan hálf sjö". Svo kjamsar þessi brjóstumkennanlega fréttastöð á málinu. Afhverju labbaði ekki einhver af Nfs yfir á Dv og gaf þeim sitthvorn á baukinn fekar en að velta sér upp úr þessu máli sem mér finnst ekki fréttamatur fyrr en búið er að gefa út ákæru og menn hafa eitthvað í höndum sem byggja má málssókn á.

Ég þarf ekki að setja fram þá spurningu hvort ritstjórar blaðsins hafi sómatilfinningu, þeir hafa það ekki og ritstjórar fréttablaðsins eru bullandi samsekir í málinu með því að stoppa ekki birtingu þessarar myndar af manninum.

Ég segi bara: Ritstjórar og starfsmenn 365 prentmiðla þið eruð sek um morð á manni sem fékk ekki tækifæri til að svara fyrir sig eftir lögformlegum leiðum. Skammist ykkar. Mér varð líka flökurt að sjá uppgerðar samúðarsvipinn á puntdúkkunum í Ísland í dag þegar þær fylltu upp í galtóman þáttinn sinn með kjaftavaðli um málið.

mánudagur, janúar 09, 2006

Skrýtið þegar fyrirtæki taka fullkomlega heilar heimasíður og henda þeim í ruslið því rýma þarf fyrir betur útlítandi síðu. Sparisjóðurinn gerði þetta við heimabankasíðuna sína þeir hentu síðunni sem ég var farinn að kunna þolanlega við og var farinn að rata um hana. Þá hentu þeir síðunni og settu í staðinn síðu þar sem allir hnappar eru annarsstaðar en á gömlu og það sem meira er, þeir breyttu orðunum á hnöppunum þannig að nú þarf ég að hugsa í hvert sinn sem ég ætla að athuga stöðuna...... sennilega flokkast þetta samt sem lúxusvandamál en ekki grundvallar.

Alveg datt mér í hug að einhverjir þröngsýnir kapítalistar hafi misskilið boðskap tónleikanna sem haldnir voru á laugardagskvöld. Ef einhver náði því ekki þá var þeim stefnt gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnar Íslands. Mér finnst of mikið virkjað á landinu, mér finnst líka of mikið gert út á hráefnisframleiðslu í stað fullvinnslu. Mér finnst ekki sniðugt að treysta um of á fáar atvinnugreinar.

Mér finnst að Íslendingar eigi að einbeita sér að fullvinnslu afurða frekar en að vera fastir í þessari bölvuðu hráefnisframleiðslu endalaust. Það er líka skemmtilegra að vinna við hátækniiðnað. Og snyrtilegra yfirleitt.

sunnudagur, janúar 08, 2006

Við fórum á tónleika undir yfirskriftinni "ertu að verða náttúrulaus?" í gær. Málefnið var gott, miðinn ódýr og fullt af uppbyggjandi áróðri gegn Framsóknarflokknum og skemmdarverkum ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunnar.

Þegar við komum, rétt fyrir klukkan átta var KK að klára atriðið sitt, ég get því ekki dæmt um hvort hann var góður... hann hlýtur að hafa verið góður hann er það alltaf *** handa honum.

Björk og Zeena Parkins tóku við af honum og fluttu fimm lög eftir því sem Meinvill taldi. Mjög fínt ***
Múm spiluðu á eftir þeim, þau voru með flesta hljóðfæraleikara á sviðinu, þau voru líka með flottasta atriðið að mínu mati ***** fullt hús stjarna og gæsahúð allan tímann.

Sigurrós komu á eftir Múm og spiluðu eitt lag, þeir voru með litla yfirbyggingu, fá hljóðfæri og spiluðu bara eitt lag. Lagið var gott og flutningurinn góður eins og þeirra er von og vísa, en eitt lag er soldið lítið að mínu mati. **

Magga Stína var næst. Hún gekk eins og fíll um sviðið með fiðluna, hljómurinn á þeim var ekki góður í fyrstu tveimur lögunum, gítarinn rann saman í einn hljóm sem varð að hávaða. Síðasta lagið þeirra var "fílahirðirinn frá zúrín" flott útgáfa af laginu sem Rás tvö nauðgaði allt of lengi. **
Rass átti salinn meðan þeir spiluðu sín þrjú lög. Í þriðja og síðasta laginu fengu þeir liðsstyrk skólahljómsveitar vesturbæjar, meðan þeir stóku lagið "congratulations/celebrations" Það var ekki bara fyndið heldur eitthvað miklu meira. Báðar hljómsveitirnar voru í hljómsveitarbúningum, Rass var í hvítum bolum og bar hver liðsmaður einn staf í nafni hljómsveitarinnar, Skólahljómsveit vesturbæjar var aftur á móti í hefðbundnum rauðum lúðrasveitarbúningum. ****

Dr Spock spilaði eitt lag, Prófesorinn skipti um föt og kom aftur á svið, nú í bleikum spandex buxum og ber að ofan. ***

Damien Rice fór á kostum í sínum flutningi, ég átti ekki von á öllum þessum krafti frá honum, enda ekki heyrt mikið meira en eitt lag með honum. Lisa Hannigan söng með honum eins og svo oft áður, hún hefur eina fallegustu söngrödd sem ég hef heyrt. Þvílík skemmtun og upplifun að hlusta á þau. ****

Mugison var fullur held ég, en hann var fyndinn, sérstaklega þegar hann hætti í miðju lagi til að stilla sér upp fyrir gítarsóló. Hann spilaði eitt lag einn og eitt með Hjálmum ***

Hjálmar byrjuðu á að taka lagið með fulla kallinum Mugison, svo tóku þeir tvö eða þrjú lög einir, Segi það og skrifa Hjálmar er ein skemmtilegasta hljómsveit landsins. *****

Ghostigital tóku þetta á kraftinum. Ég held að fáir hafi skilið tónlistina þeirra, ég skil hana og finnst þeir frábærir, ég get ekki beðið eftir að kaupa plötuna þeirra þann 7. Mars. Damon Albarn tók tvö lög með þeim, í öðru laginu spilaði hann á hljóðfæri sem ég veit ekki hvað heitir en er eins og lítið hljómborð sem blásið er í endann á. Í hinu laginu spilaði hann á gítar og söng lagið Aluminium. ****,5

Ham voru næst síðastir. Ég hef ekki séð Ham spila á tónleikum síðan ég veit ekki hvenær, sennilega eru 15-16 ár síðan. Það var eins með þá og Möggu Stínu hljóðið varð ekki almennilegt fyrr en í síðasta lagi, gítarhljómurinn rann saman í samfelldan hávaða sem gerði ekki annað fyrir mig en að búa til suð í eyrun mín.**

Egó enduðu partíið á gömlum slögurum sem allir þekkja og geta sungið með. Bubbi var flottur og ekki skemmdi að fá flugeldsýningu innanhús. Gítarsólóin draga eina stjörnu af þeim því þeir stilltu sér ekki upp fyrir þau. ***

Ef ég á að setja út á eitthvað þá eru það borðarnir með slagorðunum sem voru hengdir á veggina í höllinni. 99% gesta á tónleikunum voru íslendingar sem tala væntanlega ágæta íslensku og því engin ástæða til annars en að hafa skilaboðin til okkar á íslensku en ekki ensku. Annars var allt annað til fyrirmyndar.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Mikið varð ég spenntur í dag þegar ég heyrði í útvarpinu að: "hér að handan verður talað við einhvern (sem ég man ekki hver er)". Afhverju var ekki búið að segja frá því í fréttum að Þorfinnur Ómarsson er látinn en er samt enn bæði í útvarpi og sjónarpi?

Ég myndi segja að þetta væri frétt vikunnar. Hugsa sér fyrirsögnina í Dévaff.

***

Éraðfará tónleika á Laugardag ligga ligga lá. Það er ekki sem verst að ég á plötur með flestum sem spila á þeim og flestir sem koma fram eru í uppáhaldi hjá mér. Málefnið er líka til fyrirmyndar, náttúruvernd.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Það var innan við einnarstikuskyggni í morgun á Hellisheiði. Stundum sást bara framrúðan innanverð, ég var fremstur af þremur eða fjórum bílum sem siluðust eftir heiðinni á vegöxlinni sem er ekki eins slétt og vegurinn. Það var soldið óþægilegt þegar maður sá enga stiku, þá hægði ég bara enn betur á mér og vonaði að enginn væri að flýta sér mikið á eftir mér.

mánudagur, janúar 02, 2006

Ég er kominn með strípur og hef makað mig enda á milli með brúnkukremi, ég keyri með olnbogann út um gluggann með græjurnar í botni og taktfasta mússík í hátölurunum, ég kem inn í verslanir með sólgleraugu á nefinu þrátt fyrir að dimmt sé úti. Ástæðan er sú að ég er búinn að vinna heilan dag á Selfossi. Jamm svona er lífið á Selfossi. Í morgun beið mín það verk að skjótast austur til að smíða einn lítinn pall í mólkursamlaginu. Ekki ónýtt það að komast aðeins út úr bænum á nýju ári. Ég lenti í blinda þoku á leið austur en skafrenningi á heimleiðinni. Og ekki má gleyma að ég fékk mér hvítingu á tennurnar.

***

Fólk er búið að þrasa allavega þrisvar í dag yfir ávörpum forseta og forsætisráðherra. Getur einhver sagt mér hvenær þessi ávörp eru flutt, eru þetta einhver leyniávörp? Aldrei hef ég orðið svo frægur að rekast á þessi ósköp sem jafnan skekja þjóðina.

sunnudagur, janúar 01, 2006

Gamla árið gert upp:

Uppáhalds plöturnar mínar á árinu voru:
The lonesome crowded west með Modest mouse
I´m a bird now með Antony and the Johnsons
oh me oh my..... með Devendra Banhart
og nokkrar fleiri sem ég keypti.

Mesti hamagangur ársins var í mars þegar við giftum okkur, þá varð ég líka eins stressaður og hægt er að verða án þess að það líði yfir mann eða maður hrinlega drepist standandi.

Mesta ferðalag ársins var þegar við fórum á spíttkerrunni westur í sumarfrí, þrátt fyrir að vera á ágætum bíl löbbuðum við 100 Km.

Eina utanlandsferðin var farin til Spánar í október, það var gaman.

Sama dag og við lentum á Spáni eignaðist ég frænda sem hlaut nafnið Flosi, hann er voða sætur.

Í sumar fórum við í allskonar skoðanir og úttektir til þess að hægt væri að sjá hvort við værum klikkuð eða að drepast, ástæðan er að við ætlum okkur að ættleiða barn frá Kína. Þetta er rosa ferli sem mun seint líða manni úr minni. Ég hélt samt miðað við lýsingar annarra sem hafa gengið í gegnum sama ferli að þetta væri enn meira mál og reyndi meira á mann.

Í sumar ákvað ég að henda Jeppanum á haugana, í stað þess að laga hann og koma á götuna aftur. Síðan þá hef ég ekki átt jeppa, en mig langar samt helling í annan.

Gleðilegt ár og takk fyrir síðastliðið ár, já og undanfarin ár.

***

Í gær var gaman, í dag er ekki eins gaman. Á morgun þarf ég svo að fara í skítagallann aftur.

***

Ég horfði á fréttir áðan á hinni stór skrýtnu söð NFS. Hver í ósköpunum raðar fréttunum hjá þeim? Fyrst kom löng frétt um áramótafögnuð í New York og svo kom frétt um hátíarhöld hér á landi. Mér finnst nú áhugaverðara að fá fréttir af hátíðum hér nær okkur en úti í heimi, jafnvel þó að CNN þyki hátíðarhöldin í New York merkileg.