fimmtudagur, desember 29, 2005

Ég fékk nýtt debetkort í gær, það væri nú ekki í frásögur færandi, nema fyrir þær sakir að það var sérlega mikill eltingaleikur að fá þetta kort. Það byrjaði á því að ég fékk tilkynningu fyrir tveimur mánuðum þess efnis að ég gæti sótt nýtt kort þann 20. des. Ég ákvað að vera tímanlega í því og fór nokkrum dögum fyrr ef ske kynni að kortið hefði dottið inn, því ég var hvort eð er á ferðinni þarna framhjá, það var ekki og mér sagt að koma á réttum tíma því kortið yrði ekki tilbúið fyrr.

20.des var ég aftur á ferðinni framhjá bankanum. Ég snaraði mér inn, þreif gamla kortið upp úr vasanum, skellti því á borðið, rétti út höndina með flatan lófan upp og heimtaði kortið mitt. Konan í afgreiðslunni horfði afsakandi á mig og sagði kortið ekki komið, ég brást hinn skársti við og bað um að kortið yrði sent heim til mín í ábyrgðarpósti, hún hélt nú ekki "við sendum ekki í pósti innan höfuðborgarsvæðissins, en við getum sent þetta í annan banka fyrir þig ef þú vilt"

Ég þáði það og bað um að þetta yrði sent í Sparisjóðinn, næst heimili mínu. Í gær ákvað ég svo að sækja kortið þegar ég var búinn að versla í matinn. Þegar ég renndi upp að Sparisjóðnum sá ég að eitthvað var ekki eins og hafði verið fyrr, annaðhvort var Sparisjóðurinn búinn að snúa sér að ritfangasölu eða þá var hann fluttur. Ég skundaði að hurðinni þar sem hékk tilkynning um að Sparisjóðurinn hefði flutt þaðan snemma í haust. Þá var ekki annað að gera en að fara í höfuðstöðvarnar því fyrst þetta útibú var hætt hljóta þau að hafa sent kortið í höfuðstöðvarnar.

Þegar þangað var komið, kom í ljós að ekkert kort var hjá þeim. ohhh hvar er það þá? Konan í afgreiðslunni tók upp símann og hringdi út um allan bæ til að kanna hvert kortið hefði farið.

Eftir mikla leit og enn meiri eftirgrenslan kom í ljós að kortið hafði verið sent í útibúið sem er staðsett í anddyrirnu á matvöruversluninni sem ég var nýkominn úr.

Í sem fæstum orðum, ég klofaði yfir kortið áður en ég fór í öll önnur útibú til að leita að því. Það besta er að ég mundi ekki eftir kortinu fyrr en ég sá útibúið í anddyrirnu.

***

Það er komin mússík í spíttkerruna aftur, ég setti nýtt útvarp í hann í gærkvöld. Útvarpið sem Meinvill gaf mér í jólagjöf. Mikill var léttirinn að geta keyrt aftur á þess að þurfa að flauta lagstúf sjálfur, fyrir utan hversu mikil móða kemur innan á rúðurnar þegar manni er mikið niðri fyrir og flautar af krafti.

Nú þarf ég bara að muna að kaupa ekki aftur Kenwood með veltiframhlið. Þegar tækið var alveg að smella á sinn stað kom lag af diskinum sem var fastur í gamla tækinu í útvarpinu, tilviljun? Sennilega, ef ekki þá yfirskilvitlegt.

miðvikudagur, desember 28, 2005

Þetta er allt saman lygi, lygi segi ég og skrifa.

Ég er búinn að vera að velta fyrir mér íþróttafréttum að undanförnu. Ég hef mest orðið var við þessar sem koma í lok allra fréttatíma á öllum útvarpsstöðvum og í lok allra sjónvarpsfréttatíma, hinar fletti ég einfaldlega yfir.

Ef þið sem fylgist með þessum svokölluðu íþróttafréttum haldið að þær snúist um íþróttir, hafið þið ekki hlustað nógu vel. Þetta er eins og versta sort af rausi þess sem hefur ekkert að segja og fer því að segja manni hver í kringum hann/hana er: veikur, í meðferð, brotinn, atvinnulaus, næstum dáinn og hver sagði hvað og uppskar andúð.

Ég ætla hér að taka dæmi af öllum fyrirsögnum á mbl.is/mm/sport klukkan 11:04 í dag til að sýna fram á að þetta snýst að litlu leiti um íþróttir.

Newcastle hyggst áfrýja rauða spjaldinu: Þetta er um eftirmál íþrottaleiks.

Eiður Smári segist vilja skora 100 mörk fyrir Chelsea: En ekki hvað? Hann vinnur jú þarna.

Nba: Bryant og Carter leikmenn síðustu viku. Hver er leikmaður dagsins? eða mínútunnar?

Wigan og Portsmouth bítast um Tekke: Sennilega vilja þessi fyrirtæki fá manninn í vinnu.

Kiel vann stórleikinn gegn Gummersbach: Þetta er eina fréttin af úrslitum.

Tungumálavandræði hjá Portsmouth: Það var nú líka á síðasta vinnustað sem ég vann á, án þess að því væri slegið upp í íþróttafréttum.

Henry bestur í Frakklandi, enn einusinni: Hann fékk viðurkenningarskjal.

Þetta var uppi á forsíðunni á íþróttasíðunni á mbl áðan.

Svo er það kaflinn um þá sem spiluðu einusinni fótbolta, það er að segja voru hættir áður en ég fæddist, ekki að það sé einhver gríðarlegur mælikvarði, en engu að síður er aldarþriðjungur síðan það gerðist.

Það mætti alveg semja lag um þá:
Einn datt á hausinn
Annar varð fyllibytta
Sá þriðji klessti bíl
Og fjórði horfði á

Það mætti líka telja puttana með lagstúfnum, það mætti þá jafnvel koma því inn hjá börnum að keppnisíþróttir eru á engan hátt mannbætandi, í lagstúfnum.

Ég held það mætti alveg að ósekju henda flestum íþróttafréttamönnum út af fréttastofunum, þeir geta þá stofnað blað á sama grunni og Hér og nú og Séð og heyrt. Sjáið flottu takkaskóna og þau eiga von á barni.

mánudagur, desember 26, 2005

Mig langar að flytja annaðhvort upp í sveit eða til útlanda. Þetta kemur alltaf öðru hvoru yfir mig og þá aðallega þegar mikið er búið að vera að gera og mig langar að slappa af.
Jólin eiga að vera þannig að maður liggur flatur með konfekt sér við hlið og góða bók í fanginu, á nokkurra tíma fresti stendur maður upp, labbar út í bíl og brunar heim til einhvers sem nennir að elda. Þannig hefur þetta verið, þar til nú. Öll jólin hef ég staðið í eldhúsinu án þess að nokkur matarlykt komi upp úr pottunum hjá mér, ég er nefnilega búinn að koma mér í þá aðstöðu að bjóðast alltaf til að malla eftirréttina. Þessvegna er ég ekki búinn að liggja neitt uppi í sófa með bók og konfekt, í gær bar ég fram mascarpone trifle með jarðarberjum í magnaðri veislu heima hjá mömmu og pabba. Í kvöld bar ég fram Créme Brulé heima hjá tengdaforeldrunum.

***

Eins og ég skrifaði hér nokkrum fæslum neðar er ég í fríi þar til á næsta ári, það þýðir ekki konfekt og bók því Meinvill er búin að koma mér í endalausar bílaviðgerðir, með glannalegum akstri á þýska ruslahaugnum, ég held þetta sé sprottið af gengdarlausri öfund yfir öllu fríinu sem ég ætlaði að nota í sófanum. Látið mig vita ef þið hafið séð bláan bíl með grænum ljósum keyra upp á kant og í allar holur til að beygja stýrisenda.

***

Nýjasti frændi minn setti Evrópuheimsmet í jólagjöfum á aðfangadag, hann fékk hrúgu sem var ekki mikið minni en sæmilegasti fjóshaugur (án arfa og gorkúla). Þvílík heppni að pabbi hans er bóndasonur og kann að koma fjóshaugum í burtu í fáum handtökum. Á meðan foreldrarnir unnu á vöktum við að rífa utan af gjöfunum svaf drengurinn í bílstólnum sínum bakvið stólinn sem ég sat í. Ég er að spá í að gera svona á næstu jólum.sunnudagur, desember 25, 2005

Gleðileg jól

Þrátt fyrir brjálað veður og gríðarlegan hita, er ég í miklu jólaskapi (eirðarlaus). Ég er búinn að gera eftirrétt fyrir kvöldið og taka til mesta ruslið eftir pakkaupptöku gærdagsins.

Voðalega er notalegt að vera í fríi.

mánudagur, desember 19, 2005

Jibbí jei ég verð í fríi milli jóla og nýárs. Húrra húrra, ef einhver verður líka í fríi á sama tíma legg ég til að við dettum rækilega saman í það, alla dagana. Ég á nóg af snöfsum sem má sulla í sig, eina gerð fyrir hvern frídag. Nei ég er nú bara að djóka, ég man enn hvað laugardagurinn var ónýtur.

***

Það er magnað hvað við losnum ekki úr grútarfabrikunni úti á Granda, þó ég keyri ekki á mínum prívat bíl þangað á morgnanna, hef ég ekki misst marga daga úr. Sem er mjög gott því það er betra loft þar en í höfuðstöðvunum.

***

laugardagur, desember 17, 2005

Ég er hættur að drekka áfengi. Síðasti sopinn var tekinn í nótt klukkan tvö. Ef þið ætluðuð að draga mig með á fyllerí þá er það of seint, ég ætla aldrei að bragða þennan andstyggðar drykk aftur. Í mesta lagi einn bjór, en ekki meira.

Í það minnsta verður enginn ókeypis bjór drukkinn, hann fer svo illa í maga og haus.

Ég kom heim úr vinnuskralli einhverntíman í nótt, ég var svooo fullur að ég sá tvöfalt, gekk út á hlið, datt, ældi, röflaði og stein dó svo í rúminu mínu svo vaknaði ég klukkan níu og fór í klippingu. Ég er nokkuð viss um að það hefur svifið á dömuna sem klippti mig því ég angaði víst eins og spritttunna.

Þar hafið þð ástæðuna fyrir því að ég ætla ekki aftur á fyllerí.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Mig svíður í munninn eftir að borða súkkulaði mengað af chillíi. Ég er búinn að reyna að skola því niður með stórbauki af maltappelsíni.
Á sama stað og ég fékk súkkulaðið, fékk ég súkkulaðihúðaðar kaffibaunir, þær eru góðar mmmm.

****
Ef þið voruð að spá í hvort einn dagur í síðustu viku var lengri en hinir, get ég staðfest að miðvikudagurinn var hálftíma lengri en hinir dagarnir. Ég fékk launa og tímaskriftaseðil í dag, á tímaskriftaseðlinum stóð að ég hefði unnið 8 dagvinnutíma og 16,5 næturvinnu þennan miðvikudag og samt var ég kominn heim upp úr klukkan níu um morguninn.

Sumir dagar eru bara betur launaðir en aðrir.

*****

föstudagur, desember 09, 2005

Það er farið að sjá fyrir endann á framkvæmdunum á heimilinu. Ég hef ekki getað unnið neitt í heila viku í þessu vegna anna bæði í samkvæmislífinu og vinnunni. Á þriðjudag tíu mínútum áður en ég átti að fara heim úr vinnuni, eftir tíu tíma vinnu, kom verkstjórinn til mín og spurði hvort ég gæti unnið aðeins lengur, ég hélt það nú, enda ekki mikið mál að bæta aðeins við sig. Klukkan níu um kvöldið áttaði ég mig á að ekki væri allt með felldu og hringdi heim til að tilkynna fjarveru frá rúminu mínu um nóttina. Ég hélt mér gangandi á kaffi og sælgæti alla nóttina því ég var frekar sybbinn. Ég hlakkaði líka mikið til að sjá vinnufélagana mæta því ég hélt að þeir myndu leysa okkur af svo við gætum farið heim að sofa, svo var ekki þannig að ég varð að vinna til klukkan rúmlega níu morguninn. Það er ekkert vit í að vinna svona langan dag því síðustu klukkutímana gerir maður endalausar vitleysur. Síðustu tvo tímana sofnaði ég í tíma og ótíma meðan ég reyndi að sjóða stykkin saman sem við vorum að smíða, eins og gefur að skilja fer svefn og rafsuða ekki vel saman. Það var kærkomið að koma heim og sjá fyrst sturtuna og svo rúmið rétt undir tíu, sem gerir tuttugu og sjö tíma á fótum og þar af 26 í vinnu og þar af sextán án kaffi og matartíma. Algjör bilun. Korteri eftir að ég lagðist upp í rúm, byrjaði einhver snillingur að vinna fyrir utan gluggannn minn með bensíndrifna steinsög, því mátti ég klöngrast á fætur aftur og loka glugganum.

***

Þeir sem hafa snefil af tónlistaráhuga ættu að tékka á plötunni Cripple Crow með Devendra Banhart. Þetta er algjör djöfuls snilld með vini Cocorosie og Antony and the Johnsons.

Það er gæsahúð við hverja spilun. Hér má nálgast eitthvað um plötuna.

mánudagur, desember 05, 2005

Hvurnig er það, er alveg harð bannað að senda fólk í frí vegna viðvarandi efnisskorts?

Innlent mbl.is 5.12.2005 22:20
Dularfullt ljós sást á himni
Bóndi nokkur í Eyja- og Miklaholtshreppi lét lögregluna á Snæfellsnesi vita af dularfullu, rauðu ljósi sem sést hefði á himni í kvöld. Lögreglan hefur fullvissað sig um að ekki hafi verið um neyðarblys að ræða. Telur hún líklegt að bóndinn hafi séð stjörnuhrap en treystir sér ekki til þess að dæma um hvort geimverur hafi verið á ferð.

***

Ég er að spá í að fá mér bol til að nota í vinnunni, á honum á að standa: Ég hata vinnuna mína og skítaloftið í henni. Nú er árið 2005 að klárast og 2006 kemur eftir rúmar þrjár vikur og það virðist alveg ómögulegt að setja upp mannasæmandi loftræstingu í vinnunni hjá mér. Ég var eins og sambland af sótara og kolanámuverkamanni með berkla þegar ég kom heim í dag, þrátt fyrir að hafa ekki verið að gera neitt sem hefði átt að skíta mann út.

Ef ekki verður breyting á verður maður bara að þefa uppi fyrirtæki sem á loftræstingu og hreint loft því ég ætla ekki að helga líf mitt innöndun á sóti og eitri.

sunnudagur, desember 04, 2005

Fyrir réttum sólarhring þagði ég í minnst tuttugu mínútur án þess að vera sofandi. Þetta afrekaðist vegna ofáts á jólahlaðborði. Metið frá í fyrra, níu ferðir, stendur enn þrátt fyrir góða tilraun upp á fimm ferðir í gær. Síðasti bitinn átti í vandræðum með að rata niður í maga og var fastur einhversstaðar milli munns og bringu, þegar hann sýndi ekki á sér neitt fararsnið ákvað ég að renna honum niður með vænum sopa af jólaöli, það varð til þess að bitinn fór niður í maga en jólaölið bólgnaði út í annars yfirfullum maga. Fyrst varð mér illt, svo óglatt, svo illt, svo ropaði ég og allt lagaðist. Ég fór samt ekki aðra ferð.
Grand Hótel fær margar, margar stjörnur fyrir frábæran mat og fína þjónustu, það hefði reyndar mátt bjóða upp á kaffi og taka síðasta diskinn, að öðru leyti var þetta fullkomið. Ekki skemmdi svo félagsskapurinn fyrir.

***

Litli frændi fékk nafn í gær, hann heitir Flosi. Við heimsóttum familíuna í dag bæði til að fá það sem við lánuðum þeim til veisluhaldsins og til að gefa Flosa skírnargjöfina sína. Mér tókst í fyrsta sinn að fá hann ekki bara til að brosa heldur líka til að hlæja, ég setti bara í fávitagírinn og hljómaði eins og búskmaður þar sem ég smellti í góminn og frussaði til skiptis með þeim árangri að í stað þess að bresta í grát, hló hann. Og ég líka.

***

föstudagur, desember 02, 2005

Óttalegt drasl eru þessar fréttaupptökur á Rúv.is. Alltaf þegar ég ætla að hlusta á eitthvað sem mér finnst mjög merkilegt en hef misst af, get ég ómögulega opnað þann þátt sem ætlast er til. Nú er það umræða um umferðarslys og ómenningu sem ég get ekki opnað og er langt kominn með að naga lyklaborðið í sundur í bræði minni.

***

Nú er ég mættur í Garðabæinn aftur, ég þarf ekki lengur að keyra tíu kílómetra framhjá vinnustaðnum til að mæta til vinnu. Svaka hressandi að vera þrjár í stað þrettán mínútur að koma sér í vinnu.