sunnudagur, október 30, 2005

Helgin er búin að vera viðburðarík. Föstudagurinn fór í að sveigja fimlega framhjá föstum, klesstum, oltnum, brunnum og heilum bílum sem siluðust mis hratt og beint um göturnar í þessu fyrsta vetrarskoti á höfuðborgarsvæðinu. Ég ákvað að reka ekki nef út fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir. Það gekk líka eftir.

Laugardagurinn hófst á ferð í musteri mammons í Kópavogi því okkur vantaði afmælisgjöf handa mágkonunni sem er gift bauna bró. Þegar gjöfin var fundin, borguð og innpökkuð var haldið á æskustöðvarnar til að gefa hana. Þar fengum við kökur og kruðerí í maga og kaffi með. Ákaflega gott og móðins eins og þeirra er von og vísa.

Þegar það var frá var brunað í höfuðstaðinn til að horfa á sætasta frændann sem ég á enn eftir að fylla myndavélina mína með. Hann var hress og sendi mér fyrsta hornaugað sem hann hefur litið mig, enda ekki skrýtið því ég, þessi stóri andstyggilegi frændi, færði sængina hans aðeins frá andlitinu á honum þar sem hann svaf værum hádegisblundi. Þegar við vorum búin að horfa nóg á hann í bili fórum við í Fjarðarkaup og eyddum aleigunni í mat og rúðuvökva.

Dagurinn í dag er samt búinn að vera sá fyndnasti sem ég hef upplifað lengi. Rétt fyrir hádegi brá ég mér til mömmu og pabba og sníkti þar kaffi. Meðan ég lapti kaffið úr bolla sem er samstæður undirskálinni strikaði ég utan um hendurnar á bróður dóttur minni.

Þegar ég keyrði inn götuna þeirra sá ég mjög stuttann blaðburðardreng, sem var ekki mikið meira en 8 ára, þar sem hann dró blað upp úr töskunni sinni og braut saman, í sömu mund missti hann bækling innan úr blaðinu án þess að taka eftir því. Þegar ég fór svo heim sá ég að hann hafði komið við hjá mömmu og pabba því það lá bæklingur við tröppurnar þeirra og reyndar við öll hin húsin í götunni líka. Annaðhvort er þessi blaðburðardrengur svo latur að hann nennir ekki að beygja sig eða svo utan við sig að hann tók ekki eftir því að blaðið léttist um helming í hvert sinn sem hann braut það saman.

Hálfi ítalinn er hjá okkur núna, hann fékk far hjá afa sínum til okkar í nýja bílnum rétt fyrir hádegi. Rétt fyrir kaffi ákváðum við að skella okkur niður að læk til að gefa köldum og hröktum öndum og gæsum nýbakað brauð. Sá stutti sá um matarútdeilinguna meðan við hin stærri stóðum hjá og hrópuðum hvatningar og leiðbeiningarorð til hans. Fuglagerið kringum hann stækkaði og þéttist í hlutfalli við hvað pokinn léttist uns ein gæsin gerðist of nærgöngul og beit stubbinn í puttann, honum var að sjálfsögðu mjög brugðið og hrópaði "ÁI baba beit á puttann minn". Mér fannst þetta býsna fyndið og hristist allur af hlátri sem ég reyndi að bæla niður svo ekki heyrðist til mín, Meinvill fannst þeta ekki eins fyndið og beygði sig niður að stubbnum til að hugga hann, skipti þá engum togum að ein gæsin teygði upp hálsinn og beit Meinvill beint í rassinn gegnum vel hannað gat á gallabuxunum hennar. Þá gat ég ekki meir og datt næstum út í lækinn í hláturskasti. Djöfull vildi ég að vídeóvélin hefði verið með í för. Þess ber að geta að þau þáðu ekki far hjá mér í bílnum heim til mömmu þar sem vöfflur og súkkulaðikakaka voru á borðum. Til að sjá myndir af atburðinum má smella hér.

fimmtudagur, október 27, 2005

Voðalega langar mig aftur til útlanda, þangað sem hlýrra er. Ég er búinn að draga ullarsokkana fram aftur og er því komin með táfýlu og græjur. Varasalvinn er kominn í vasann og húfan niður í augu.

****

Cocorosie er til þess fallin að hlýja manni um hjartaræturnar, Antony syngur með þeim og Devendra Banhart gaular einhversstaðar á plötunni þeirra, ég á eftir að finna hann.
Voðalega er vinahópurinn hans Antony flinkir tónlistarmenn og konur.

***

Ef ég fer einhverntíman í framboð til borgarstjóra Hafnarfjarðar ætla ég að hafa uppi á fyrrverandi skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík og biðja hann um að skrifa upp á auglýsingu þess efnis að ég hafi fallið með sóma í bókfærslu, leikfimi, stærðfræði og félagsfræði. Ég var bara að sinna almannatengslum og reykja sígarettur á kaffihúsi niðri í bæ og ekki síst að reyna að hafa ofan af fyrir hinum lötu vinum mínum. Ekki mátti þeim leiðast í skólanum.
Reyndar þarf ég ekki að ljúga neinum prófskírteinum upp á mig því ég á útskriftarskírteini í fleirtölu.

****

Rosalega finnst mér lítið varið í þá tónlist sem boðið er upp á í útvarpi þessa dagana. Það er ekkert spennandi að gerast hér á landi nema kannski Hjálmar, en ég er hræddur um að eftir meistaraverkið "hljóðlega af stað" komi plata sem nær ekki upp í þær væntingar sem maður gerir til þeirra.

Annars býður talstöðin enn upp á hinn mikla menningarvitaþátt "Glópagull og gisna skóga" með Auði Haralds á fimmtudögum, það styttir manni stundir í vinnunni. Ég er reyndar ekki búinn að tékka á Rás eitt sem á það til að spila eitthvað skrýtið og skemmtilegt sem aðrir þora ekki að setja yfir geislann.

miðvikudagur, október 26, 2005

Ég gleymdi að minnast á það í gær að ég eignaðist sætasta frænda í heimi meðan við Meinvill vorum á leið til Spánar.

Til hamingju Auður og Jóhannes.

þriðjudagur, október 25, 2005

Madrid er æðisleg. Við þurftum reyndar að vaða heimilislausa, betlara og mellur í hné en ef framhjá því var litið er borgin rosalega flott og fólkið indælt. Það skildu fáir ensku en það kom ekki að sök því allir voru af vilja gerðir að aðstoða mann gegn vægu gjaldi, ekki eins og danir sem neita að skilja mann ef maður talar dönsku með hreim.

Áður en við förum aftur til Spánar eða áður en við förum til Kína ætla ég að vera búinn að læra að segja já, nei, takk og að telja. Ég held það komi manni áleiðis.

Það er Dunkin Donutsstaður í Madrdid. Þeir selja gúmelaði og café americana grande(0,5 l svart kaffi í pappamáli), mmmm donuts. Það uxu á mig handjárn og skjöldur við að koma þarna inn.

Það er ekki slor að spóka sig í 18°C og sól eins og var hjá okkur á sunnudag. Það er slor að þurfa að skafa af bílnum sama dag og maður hefur verið í 18°C og sól að spóka sig.


FJ Hópurinn er ekki flinkur að þjónusta farþegana sína, flugvélin þeirra var verri en Peach air vélin sem við nafni flugum með til London um árið. Bæði var hún þrengri og það brakaði líka meira í henni en ferskjuvélinni. Ekki bætti úr skák að starfsfólkið skrökvaði að okkur þegar ég bað um púða, aðal og yfir flugfreyjan sagði enga púða til en fimm mínútum seinna sá ég flugþjón með fullt fang af púðum að útdeila fremst í vélinni. Þegar við vorum rétt sloppin undan hrópum betlara vændiskvenna og umrenninga byrjuðu flugfreyjurnar(og freyjinn) að hrópa Saga bútikk og hringla í baukunum sínum.

Ef einhver er á leið til Spánar mæli ég með öllum stöðum sem selja heitt súkkulaði og djúpsteiktar lengjur sem ég veit ekki hvað heita, en þó sérlega Chocolateria de san ginés í Madrid því það er eina sérhæfða súkkulaðiterían sem ég veit um. Svo er ekki verra að í næsta nágrenni er Plaza Mayor. Það er fallegt torg sem var byggt árið 1619 og var notað til verslunar utan tollmúra, nautaats og opinberra aftaka fyrr á öldum, nú er þetta bara túristastaður og vettvangur safnara sem skiptast á undarlegustu hlutum (frímerkjum, gosflöskutöppum og mynt).

Mig langaði ekki heim eftir þessa ljómandi fínu ferð.

miðvikudagur, október 19, 2005

Meðan við verðum ekki á staðnum til að ýta á takka á tölvum verður hægt að skoða eitthvað af ferðinni hér og hér á gsmbloggsíðunum sem við erum líka með.

þriðjudagur, október 18, 2005

Ekki á morgun heldur hinn fer ég í flugvél og alla leið til Madridar. Ég er búinn að leggjast yfir Lonely Planet til að finna út hvað maður getur gert í Madrid, mér sýnist ein löng og mikil gönguleið verða fyrir valinu. Gönguleiðin heitir Gamla Madridarganga og er 7 km löng. Hún hefst hér og endar hér. Vonandi verða hin mestu furðuverk á leið okkar, ég veit allavega að við kíkjum inn á chocolatería de san ginés sem er einhverslags súkkulaðigúmelaðissölustaður.

Á föstudag förum við svo á árshátíð á hótelinu sem við munum búa á.
Voðalega er ég orðinn spenntur.

****

Meinvill er komin með myndavélasíma, næsta verk er því að koma upp mblog síðu svo hægt verði að senda myndir jafnóðum heim ef spánverjarnir eru orðnir nógu tæknivæddir.

***

sunnudagur, október 16, 2005

Renault náði seinni titlinum í formúlunni í dag, því ber að fagna.

****

Þrír vinnudagar eftir fyrir utanlandsferðina ógurlegu. Ég er kominn með nautabanaklippingu og er orðinn smámæltur.

föstudagur, október 14, 2005

HAHAHA.
Davíð Oddsson var búinn að lofa að koma í Kastljós í kvöld en hann hætti við! Og ástæðan? Þið töluðuð ekki nógu fallega um ræðuna mína í gær. HAHAHA

Hver saknar svona fýlypoka?

Það var dóni sem var á eftir mér í ríkinu áðan. Hann var svo klaufskur að hann missti bjórflösku í gólfið þannig að hún brotnaði og innihaldið skvettist á vinsti buxnaskálmina mína. Þetta hefði verið í lagi ef hann hefði beðist afsökunnar og ef þetta hefði verið eitthvað annað en Thule. Guinnes eða Erdinger hefði sloppið án afsökunnarbeiðni en Thule kommonn.

****

miðvikudagur, október 12, 2005

Fólk ætti ekki að gera grín að öllum hringtorgunum í hér í Hafnarfirði, það er komið í ljós að með breytingu umferðarmannvirkja hefur tekist að fækka umferðarslysum um 56%. Geri aðrir betur. Kannski er þetta líka afþví að það hefur lítið verið hægt að keyra í bænum undanfarin tvö ár vegna vegaframkvæmda.

Mér heyrðist að það hafi átt að halda fund í einu hraðahindruninni, sem hefur nafn og er merkt inn á kort, í kvöld. Þar átti að ræða hvort ætti að leyfa breikkun Reykjanesbrautar. Ég bíð spenntur eftir sendingunni úr Hnoðraholtinu, ææ við viljum ekki veg svona nálægt okkur.

Ef Garðbæingar neita enn einusinni að hleypa ýtunni í gegn hjá sér, legg ég til að allir þeyti hornið á bílnum meðan keyrt er framhjá þessu aulahverfi.

þriðjudagur, október 11, 2005

Ég sá viðtal við Thelmu Ásdísardóttur í Kastljósi áðan. Hún var að segja frá kynferðislegu ofbeldi sem pabbi hennar og vinir hans beittu þær systur árum saman. Ég verð að segja að hún kom rosalega vel fyrir þessi kona. Pabbi hennar hefur verið hreinn óþokki.

Þegar ég var lítill var mér bannað að ganga nálægt húsinu sem þau bjuggu í. Það vissu allir hverslags óþokki bjó í þessu húsi en ég veit ekki til að neitt hafi verið gert. Ég held að allir sem bjuggu í hverfinu hafi vitað hvaða mann pabbi þeirra hafði að geyma. Öðrum börnum var bannað að fara í heimsókn til þessara stelpna, því það vissu allir að pabbi þeirra misnotaði börn. Það vissu líka allir að hann væri fyllibytta og ofstopafullur. En þrátt fyrir allt þetta var ekkert gert.

Nú kann einhver að hugsa, þetta var fyrir hátt í 30 árum síðan og svona gerist ekki í dag. Ég held það sé ekki rétt, ég held þetta gerist á hverjum degi úti um allan bæ og við gerum ekki neitt.
Sennilega teljum við ekki skyldu okkar að tilkynna þegar okkur grunar að eitthvað gruggugt sé á seyði, sennilega erum við að bíða eftir að einhver taki af skarið, stigi út úr hópnum og geri eitthvað. Það er óþægilegt að taka af skarið en ég held það sé enn óþægilegra að gera það ekki til lengri tíma litið.

Þessi ólánssama fjölskylda bjó í næstu götu fyrir neðan okkar götu þannig að ég átti oft leið þarna framhjá húsinu þeirra. Ein systranna var í bekk með systir minni en flosnaði snemma upp úr skóla. Hún hætti að mæta í 8. bekk.

Ég vona að saga þeirra verði til þess að fólk hugsi sig ekki um heldur hringi og láti vita ef það veit um svona hrottaskap. Þetta er ekki flókið fólk á bara að taka upp símann og hringja á lögguna því ofbeldi er ofbeldi hvar sem það er framið.

Í okkar samfélagi er lögð ofur áhersla á að uppræta fíkniefnaneyslu, gott mál EN afhverju getur mönnum liðist að eyðileggja líf annara með ofbeldi án þess að nokkuð sé gert. Í fyrri viku var maður dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að drepa mann með hnefahöggi. Þetta kalla ég umburðarlyndi í lagi. Ef viðkomandi hefði verið með 5 gr af fíkniefnum í vasanum hefði hann fengið þyngri dóm fyrir dópið en morðið.

Ég vona að þetta fari að breytast.

sunnudagur, október 09, 2005

Við fórum alla leið upp í Grafarholt í dag til að vera við skírn nýasta afkvæmis Guðnýjar og Sævars. Drengurinn fékk nafnið Baldur Páll og lét sér vel lynda, í það minnsta mótmælti hann hvorki vatnsaustrinum né nafninu.
Ég þurfti að stoppa tvisvar á leiðinni til að taka bensín því bæði er langt upp í Grafarholt úr Hafnarfirði og svo var maður svo þungur á sér eftir veitingarnar að það kom niður á eyðslu bílsins, og þá sérstaklega í brekkunum á heimleiðinni.

***

Ég keypti þessa bók í gær. Í henni eru margar flottar uppskriftir, margar eiga það sameiginlegt að innihalda dass af hrísgrjónavíni. Ég fór því á heimasíðu ÁTVR til að leita mér að þessu matargerðarefni. Ég veit ekki afhverju rauðvín kom upp í leit minni að hrísgrjónavíni, en þó veit ég að ég ætla ekki að kaupa svona vín vegna lýsingarinnar á bragði þess. Ef útihúsakeimur heillar ykkur skulið þið drífa ykkur niður í ríki. Ég ætla aftur á móti að halda áfram að leita að Shaoxing hrísgrjónavíni.

Ekki veit ég hvaða landasullari er í smakkinu hjá Ríkinu. Hann sannfærir mig ekki um hvað skal kaupa því þetta er líka með útihúsakeim. Hvað ætli sé næst hjá honum, mildur fúkki, hnakkur og bensínstöð?

laugardagur, október 08, 2005

Ég er búinn að kjósa í dag. Ég kaus með sameiningu Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Það var eingöngu gert til að Hafnarfjörður geti drottnað yfir Vogabúum og hirt af þeim allt byggingarlandið.

miðvikudagur, október 05, 2005

Það eru svo sannarlega stórmál sem koma upp á Alþingi í þingbyrjun. Einn flokkur hefur það sem sitt helsta baráttumál að útrýma kanínum og lögleiða haimabruggun. Svo trommar herðatréð að norðan upp í pontu og þakkar borgarstjóra fyrir að fjarlægja steypuklumpa sem hafa haldið uppi fallegum myndum Raxa á Austurvelli. Ekki nóg með það því þessi sami Halldór Herðatré Blöndal steig í ræðustól alþingis og sagði að Slippstöðin á Akureyri væri traust fyrirtæki. Hvurnig er það, eru þingmenn hættir að fá dagblöðin ókeypis heim til sín eða hefur bara farið fram hjá Halldóri Herðatré að Slippstöðin fór á hausinn á föstudaginn? Eftir því sem ég best veit fara traust fyrirtæki ekki á hausinn.
Mér finnst samt eins og fjölmiðlar hafi fyrst farið á límingum við að einhver óþekk(t)ur þingmaður steig bindislaus í pontu. Væri ekki rétt að fresta þingi aftur og taka ekki úr lás fyrr en búið verður að finna eitthvað þarft að gera fyrir þingmenn.

****

Bölvað vesen var að komast heim í dag úr vinnunni. Öll umferðarljós voru óvirk með þeim afleiðingum að bílstjórar urðu ráðviltir og örvinlaðir því þeir vissu ekkert hvað þeir ættu að gera.
Ég komst með góðu móti alla leið að gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar þar sem allt sat fast. Þrír strætóar lokuðu gatnamótunum og enginn komst leiðar sinnar. Þegar ég var búinn að bíða þarna smá stund og sá að ekki ætlaði að greiðast úr flækjunni ákvað ég að smella mér niður Miklubraut og niður í Lönguhlíð. Þar tók ekki mikið betra við, ljósin þar voru líka óvirk en það hefði verið í lagi því maður hefði getað beygt inn í Lönguhlíðina. Þegar ég var búinn að bíða stundarkorn duttu ljósin í gang og rautt kom á mig og bílana þrjá á undan, það hefði svosem verið í lagi ef rauða ljósið hefði ekki logað á mig næstu 6 mínúturnar. Bílarnir þrír á undan mér laumuðu sér yfir á rauðu en innan við hálfri mínútu eftir að þeir fóru yfir kom grænt á mig en þá lögðu þeir sem voru orðnir óþolinmóðir í Lönguhlíð af stað á móti sínu rauða ljósi og í veg fyrir mig og hina sem voru á grænu.

Alveg undarlegt að um leið og eitthvað smávægilegt kemur upp á í umferðinni fara allir á taugum og hætta að hugsa rökrétt, bara af því að þeir vita ekki hvernig á að höndla þær aðstæður sem upp eru komnar. Mér finnst með ólíkindum að þessir kjánar sem komu úr Lönguhlíð sáu ekki að umferðin á Miklubraut var stopp og komið grænt á beygjuakrein. Svona er þetta og ég komst nærri árekstri.

sunnudagur, október 02, 2005

Rosalega var gaman í gær á árshátíðinni sem við fórum á, langt úti í sveit. Það vantaði ekki mikið upp á að við þyrftum að taka miða með í göngin.
Þegar við komum inn á staðinn sem árshátíðin fór fram á sá ég gamlan kunningja úr sporti sem ég stundaði þegar ég var unglingur. Ég var að spá í að heilsa upp á hann en ákvað svo að fyrst ég hefði ekki séð hann í 15 ár og í þokkabót þekkti ég hann ekki vel þá, ákvað ég að geyma kveðjuna þar til ég hitti einhvern sem ég þekkti þó sæmilega. Ég sá ekki eftir að hafa sleppt kveðjunni því í miðjum forréttinum stóð þessi fyrrverandi kunningi upp og sagði brandara sem átti alls ekki við í fínni matarveislu þar sem 400 manns voru saman komin. Mér má vera nokk sama hvort kona þessa manns hleypir honum í sparigatið á sér eða ekki.

Annars var maturinn æðislegur og skemmtiatriðin (þessi skipulögðu) voru til mikillar fyrirmyndar. Gísli Einarsson út og suður var veislustjóri, Hundur í óskilum skemmti eftir matinn og Sálin sló botn í veisluna.
Mér er illt í maganum eftir Hund í óskilum, þvílíkt sem mennirnir eru fyndnir.


****

Mamma, tengdamamma, pabbi, tengdapabbi, meinvill og ég borðuðum vöfflufjall með rjómafelli í dag. Tiefnið var ekkert. Ég stóð sveittur við vöfflujárnið sem einhver gæti kallað vöffluvél sbr. ristavél og kaffivél, í lengri tíma til að baka nógu margar mokkavöfflur (sem eru sælgæti) ofan í fólkið. Ég bakaði líka venjulegar vöfflur með heitri súkkulaðisósu, mokkavöfflurnar voru með espressosýrópi. Assgoti gott en óhollt.

****

Hefur einhver sem les þessa síðu skrönglast upp á íþróttafjallið sem er að pirrast út í Bónus?
Var bara að spá í hvort það væri gestabók á staðnum.

laugardagur, október 01, 2005

Í gær stækkaði mússíksafnið um 6 diska og dvd safnið um einn. Ég fór á plötumarkaðinn og keypti þrjá diska og einn dvd og fékk svo þrjá frá útlandinu. Á plötumarkaðinum keypti ég diska með Public Enemy, Goldfrapp og The million dollar hotel. Frá Breska heimsveldinu komu diskar með Modest Mouse, Sigur Rós og Devendra Banhart. Rosalega er Devendra skrýtinn og skemmtilegur.

Mér finnst skrýtið að eldgamlar plötur á svona plötumarkaði skuli vera svona skelfilega dýrar, ég sá hundgamlan disk með Mamas and the papas sem kostaði það sama og nýr diskur kostar í hinni fok dýru Skífu. Þetta er diskur sem er fullur af gömlum lögum sem eru löngu búin að borga sig upp og vel það.

Mig langaði soldið í diskinn en er ekki viss um að hann væri stöðugt í tækinu þannig að ég bíð bara þar til þetta er komið á skaplegt verð.

*****

Ég er kominn með dellu fyrir tedrykkju. Ég er búinn að viða að mér nokkrum gerðum af tei og ketillinn er alltaf uppi á borði. Skemmtilegt sport það. Grænt, kamillu, myntu og earl grey. Svo er litli putti rekinn upp í loft og sötrað á öllu saman.

****

Hvað er hægt að nota í stað kaffibætis í vöffluuppskrift? Ég á mokkavöffluuppskrift sem mig langar að prófa að gera en það á að vera kaffibætir í henni og ég veit ekki hvar eða hvort hann fæst. Ég er búinn að leita með google en þar finn ég bara allskyns rætur sem má nota í staðinn en ekki bara instant eða eitthvað svoleiðis.