þriðjudagur, september 21, 2004

Black Sheep

Þá er bara að koma að því að ég fer til landsins sem bruggar bjór sem heitir Black Sheep, held meira að segja að þeir bruggi líka Föroja bjór.
Ég legg af stað á morgun, ég byrja á að þenja drusluna til Habbnar í Hoddnafirði. Ég var búinn að vanda mig rosalega við að búa til ferðaáætlun í tölvunni og kom stormandi til yfirmanns verksins með áætlunina og ætlaði aldeilis að sannfæra hann um að bráðnauðsynlegt væri að leggja fyrr en seinna í hann. En ekki kom til þess að á sannfæringarkraftinn reyndi því hann sagði strax að ég færi af stað daginn áður en skipið siglir.
Um þetta leyti á morgun verð ég sennilega að panta mér mat á einhverju gistiheimili á Höfn.

*********

Ég er búinn að vera í allan dag að pakka niður suðuvélum slípirokkum og fleira dóti sem þarf til að setja upp tanka í útlandinu, verkstjórinn kom á korters fresti til að spyrja hvort ég væri ekki að verða búinn og alltaf svaraði ég honum eins: jú allt það stærsta er komið í kassann og bara smáhlutir eftir. Held hann hafi verið eitthvað smá stressaður.

**********

Ég braut almennar siðareglur í gær og fór í Skífuna til að kaupa mér geisladisk, ég á ekki von á að "hljóðlega af stað" með Hjálmum komi til með að fást á Amazon. Diskurinn er drullufínn og kemur mikið á óvart. Svei mér þá ef þetta er ekki fyrst Reggae diskurinn sem ég kaupi og hann er Íslenskur í þokkabót.

sunnudagur, september 19, 2004

Sunnudagsmorgunn

Það er ekki að spyrja að því að ég var vaknaður einum og hálfum tíma seinna í morgun en í gærmorgun, ég fór náttúrulega að sofa eftir einn bjór og mynd sem drap mig næstum úr leiðindum, það var hin geypilega hressa mynd you´ve got mail. Það ætti að koma stórt skilti á skjáinn á undan myndinni þar sem stendur: þessi mynd er ekki ætluð karlkyns áhorfendum eldri en 16 ára.
Ég var kominn út í búð hálftíma eftir að ég vaknaði eða um klukkan hálf níu, ég nennti nefnilega ekki í búðina í gærkvöld þegar við komum heim. Nú ættu skarpir lesendur að vera farnir að átta sig með einföldum reikningi að ég var vaknaður klukkan átta í morgun en klukkan hálf sjö í gærmorgun, jamm ég mætti Meinvill í eldhúsinu klukkan hálf sjö á Laugardagsmorgni og hvorugt okkar var að koma af skralli. Fyrir nokkrum árum hefði eini sénsinn til að ég væri vakandi klukkan hálf sjö á laugardagsmorni verið að ég hefði verið að koma úr partýi eða af einhverri brennivínsbúllu.

************

Ég er búinn að yfirskipuleggja næstu viku. Síðan á föstudag er ég búinn að hræra af og til í forriti sem heitir autoroute 2002, ég er búinn að láta forritið hanna fyrir mig akstursleiðir til Seyðisfjarðar og þaðan til Fuglafjarðar með viðkomu í Þórshöfn. Þetta er ægilega fínt forrit sem teiknar leiðina á kort og gefur leiðbeiningar um hvenær ég á að beygja, stoppa og taka eldsneyti og hvar er skynsamlegt að sofa, semsagt skrambi sniðugt forrit. Ég gerði tvær útgáfur af ferðaplani, annað planið gerir ráð fyrir brottför úr bænum á hádegi á þriðjudag og lýkur upp úr hádegi á fimmtudag í fuglafirði en hitt gerir ráð fyrir að ég leggi af stað um miðja nótt úr bænum og keyri í einum spreng til Seyðisfjarðar. Mér líst betur á að taka þessu rólega og dóla mér austur þannig að maður fari ekki á límingunum þó það springi eitt dekk á leiðinni.

************

Í gær bakaði ég tvær kökur, eina fyrir mína familíu og eina fyrir Meinvills familíu. Tilefnið er ekkert. Mig langaði bara að baka þær, ég veit reyndar ekki hvort þetta kallast kökur því á engilsaxnesku kallast hellegheitin sticky date pudding with caramel sauce. Þetta er geysilegt gúmelaði sem klístrast um allan munn og er ekki á nokkurn hátt hollt, ég held meira að segja að döðlurnar séu óhaollar í þessu.

*************

Ég sá fyrrverandi vinnuveitanda minn í sjónvarpinu í gær, hann er bakari eins og ég en munurinn á okkur er að hann sækist eftir bruna en ég reyndi alltaf að forðast bruna meðan ég starfaði í bakstrinum. Hann var eins og áður þegar hann hefur komið í imbanum að slökkva eld í húsi sem vantaði brunavarnir í. Kallinn kemur alltaf jafn vel fyrir sama hvar talað er við hann. Ég man eftir því þegar ég hitti hann fyrst í Janúar fyrir rúmum tíu árum, þá var ég að sækja um vinnu hjá honum og fór heim til hans í atvinnuviðtal, ég bankaði upp á með hjartað í buxunum því ég var viss um að allir vinnuveitendur væru skapofsamenn sem nærðust á að sýna starfsfólki sínu hversu klárir þeir væru og hversu vitlausir starfsmennirnir væru. Ég man enn eftir því þegar dyrnar opnuðust og hrammurinn kom vaðandi á móti mér og mér var kippt inn um dyrnar svo upphófst mikill hlátur og skemmtilegar samræður.
Þegar viðtalinu lauk fór ég keyrandi heim aftur og ekkert nema eitt risastórt spurningamerki yfir móttökunum sem ég fékk hjá honum. Fáir menn hafa komið mér meira á óvart enn sem komið er.

föstudagur, september 17, 2004

Óstundvísi

Óstundvísi er leiðinda ávani sem fólki gengur misjafnlega að venja sig af. Þegar maður bíður eftir einhverjum sem segist ætla að vera staddur á einhverjum fyrirfram ákveðnum stað á fyrirfram ákveðnum tíma en viðkomandi er ekki á þessum stað á þessum tíma getur maður orðið annaðhvort svekktur eða pirraður. Nú gætu sumir verið farnir að taka þetta til sín en ekki er ætlast til þess heldur er ég að svekkja mig á að Baggalútur ætlar að taka sér þingmannalengd á sumarfríi frá netinu og ætla ekki að koma aftur fyrrr en 1. okt. buhu og ég sem var orðinn svoooo spenntur að lesa delluna sem frá þeim flæðir.

***********

Ég er byrjaður að taka saman verkfærin sem ég tek með mér til nágrannalandsins, ég er ekki kominn með neitt stóra hrúgu á borðið, bara svona botnfylli í tösku. Ég býst við að geta byrjað á fullu á morgun að smala hinum ýmsustu verkfærum.

Ég er óskaplega feginn að ég fer eftir viku en ekki í gær með ferjunni til Þórshafnar því ég er nokkuð viss um að ég hefði skoðað botninn í klósettinu full vel í fellibylnum sem gekk yfir landið og miðin í nótt.

Annars er svo magnað með íslenskar fréttastofur að þær eru svo uppteknar af að segja okkur hvernig veðrið er þessa og hin stundina í Ameríkuhreppi að þeir gleyma að segja manni frá fellibyl sem brunar á 52 metra hraða á sekúndu yfir landið okkar

sunnudagur, september 12, 2004

Myndir

Ég er búinn að bæta aðeins við myndaalbúmið mitt, ég setti aðallega inn myndir sem við höfum tekið í sumar og síðustu daga.

*********

Við horfðum á Pirates of the carribean í gærkvöld. Myndin er assgoti skemmtileg eins og flest annað sem Johnny Depp tekur sér fyrir hendur. Ég held því gjarnan fram að ég hafi ekkert gaman af bíómyndum og í næstu setningu segi ég að ég ætli að fara að safna verkum eftir þennan og hinn leikstjórann eða þessa og hina mynd með einhverjum leikara. Myndir með Johnny Depp koma sterklega til greina í söfnunaráráttunni. næsta mynd sem ég stefni að að kaupa með honum er fear and loathing in las vegas, algjör snilldar ræma.

laugardagur, september 11, 2004

Laugardagurinn ellefti september

Þá er hinn ógurlegi ellefti seftember runninn upp mér til mikillar skelfingar. Ég er nefnilega viss um að heimsendir verði þennan dag, ekki endilega í dag heldur bara einhvern ellefta september. Fyrir þremur árum þegar rellurnar lentu á blokkunum í New York var ég inni í skorsteinshúsi (við kölluðum skorstenshús alltaf niðurgang því það er stigi í því) á bát sem ég var að vinna í hjá ónefndu plastfyrirtæki hér í bæ, minn gamli kunningi Óli Palli var eins og venjulega með þáttinn sinn á rás tvö og gerði sig líklegan til að þeyta skífum allan daginn, en í miðju fyrsta eða öðru lagi stoppaði hann skyndilega og sagði að lítil flugvél hefði flogið á annan tvíburaturninn í New york, ég sperrti eyrun og hlustaði af áhuga á það sem fyrir eyru bar en að lokum bar forvitnin mig ofurliði og ég skakklappaðist heim til að sjá atburðinn í sjónvarpi.

Ráðamenn vestra segja að heimurinn hafi breyst þennan dag. Ég er ekki viss um að hann hafi breyst mikið, bara orðið soldið hægvirkari, í það minnsta gengur mér oft illa að komast gegnum tollhlið eftir að þetta gerðist. Ég held að heimurinn hafi líka orðið uppstökkari en hann var áður. Fátt annað hefur breyst!

**********

Ég keyrði Meinvill í næsta hverfi svo hún gæti unnið að verkefni með skólasystur sinni. Eins og flestir geta getið sér um til þurfti ég að stoppa í sjoppu á leiðinni því Meinvill þurfti að kaupa gervi Peffsí í gervi gleri, fyrir valinu var ágæt lúgusjoppa sem var akkúrat í leiðinni milli þessarra tveggja húsa sem Meinvill þurfti að fara milli. Þegar röðin kom að okkur bað ég afgreiðslustúlkuna um eina flösku af gutlinu og ekki stóð á henni að skutla flöskunni inn í bíl og ekki stóð á mér heldur að skjóta skotsilfrinu inn um lúguna hjá henni. þess má geta að meinvill rétti mér tvo gyllta peninga til að borga vökvann með, um leið og ég hafði greitt fyrir teygði ég mig í gírstöngina, setti í fyrsta og byrjaði að sleppa kúplingunni, með það sama fann ég nístandi sársauka í hægri upphandlegg og heyrði í sömu andrá vein úr sætinu við hliðina á mér eins og lúgustelpan væri föst í bílnum og væri að byrja að dragast með bílnum frá lúgunni, ég leit eldsnöggt til vinstri en sá engann fastann í bílnum og leit þá til hægri til að sjá hvort einhver væri að dragast undir hægra framhornið á bílnum en sá engann, þá loksins skildi ég út á hvað hávaðinn gekk, ég hafði gleymt að fá fimmtíukall til baka og Meinvill hafði gefið mér olnbogaskot í handlegginn fyrir, jamm og já olnbogaskot upp á fimmtíukall. Þess ber að geta að ég fékk fimmtíukallinn til baka þannig að ég vona að ég fái ekki á baukinn næst þegar ég hitti Meinvill.

*********

Jæja ég er farinn út til að festa bílskúrshurð fyrir umhverfisráðherra ættarinnar og listmálarann.

fimmtudagur, september 09, 2004

Strembin helgi

Fúff hvað síðasta helgi var strembin, föstudagurinn fór í að bera stóla og borð frá Lækjartorgi og upp í Stórholt eða svona því sem næst(mér fannst leiðin svooo löng meðan á því stóð) fyrir dyrum stóð afmæli hálf-ítalans og ekki hægt að láta gestina standa upp á endann, þegar á leiðarenda var komið hitti ég sambýlismann tengdamömmu minnar, hann er flugvirki sem gerir við bíla og kemur býsna vel fyrir. Laugardagurinn fór í að kaupa afmælisgjafir handa frændsmáfólki meinvills, laugardagskvöldið nýttist í matarboð þar sem húsráðendur voru nokkuð öruggir um að vera með góða brunatryggingu meðan á eldamennsku með eldfimum efnum stóð. Sunnudagurinn var tekinn snemma í tveggja ára afmæli hálf-Ítalans þar sem við hittum fullt af fóki sem við höfum aldrei séð aður,alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk. Seinna þennan sama sunudag fórum við í fertugsafmæli til leigubílstjórans í sama hverfi og fyrra afmælið var haldið í. Í því afmæli var okkur boðið að skoða myndir sem var varpað upp á vegg með skjávarpa, myndirnar voru assgoti flottar og myndefnið frábært, gönguferð um Hornstrandir. Veisluhaldarinn spurði hvort við vildum ekki færa okkur í betri sæti þannig að við gætum séð myndirnar, áður en ég gat staðið upp eins og píla væri í rassinum á mér neitaði Meinvill myndasýningunni hátt og snjallt eins og þeim einum er lagið sem eru soldið sunnan við sjálfa sig og eiga til að svara einhverju allt öðru en spurt var um. Mikill hlátur greip um sig meðal gesta sem þetta heyrðu.

Það hlaut að vera

Ég skildi ekki neitt í því hvað lá á að læra á hringsuðuvélina svona í einum grænum því eftir því sem ég best vissi átti ekki að byrja að nota hana í neinu verki fyrr en í okt eða nóv. Ég komst að ástæðunni í gær, rétt áður en ég fór heim úr vinnnni, ég á nefnilega að fara til annars lands til að brúka gripinn, ferðinni er svosem ekki heitið langt úr landi og reyndar bara eins stutt og hægt er til að kalla það útlönd þ.e. ég á að fara til færeyja til að sjóða saman rör. Með í för verður enginn annar er aðal maðurinn í austfjarðadeild fyrirtækissins og og einhver einn annar frá mínu fyrirtæki, einn verður fenginn að láni frá norðurlandi en ég kann engin deili á honum.
Fyrirtækið sem ég á að fara að smíða fyrir er staðsett í Fuglafirði, ég á ekki von á að staðurinn dragi nafn sitt af skrautfuglum, meira svona hvítum fuglum með svarta vængi. Ég veit ekkert um staðinn annað en að þetta er víst svipað líflegt og að vera sendur til ísafjarðar að vinna.


**************

Mánudagurinn byrjaði of hratt fyrir minn smekk. Ég sat í mestu makindum og stúderaði vélina mína meðan einn vinnufélagi minn stóð á vinnupalli og málaði veggi deildarinnar, allt var í mánudagsrólegheitagírnum þangað til einn tók sig til og keyrði hlaupaköttinn á vinnupallinn með þeim afleiðingum að pallurinn hallaði mikið frá veggnum og sá sem á honum stóð greip í bitann sem kraninn keyrir á og með það sama keyrði kraninn yfir puttana á manninum með tilheyrandi sársaukaöskrum. Tveir puttar brotnuðu og sá þriðji fór hálfur af og kurlaðist. Ég stökk til og rétti pallinn af og hljóp svo út til að vísa sjúkrabílnum leiðina að slysstaðnum. púff hvað maður var eitthvað óþægilega vakandi eftir hamaganginn.

föstudagur, september 03, 2004

Fyrsti dagur í embætti

Ég mætti eldsnemma í vinnuna í morgun til að setja mig inn í embættið sem hringsuðumaður fyrirtækisins, ég byrjaði á að finna mér stól til að sitja á því ég var með fjóra leiðbeiningabæklinga yfir vélina sem ég á að vinna á og það er betra að sitja meðan maður les. Lesturinn hófst yfir kaffibolla klukkan hálf átta stundvíslega. Ég var ekki búinn að sitja lengi með spekingssvipinn þegar bankað var í öxlina á mér og ég beðinn um að skjótast upp í sveit til að klára bryggjuna sem ég smíðaði í sumar fyrir forstjóra ríkisstofnunarinnar, það átti bara eftir að klára að festa hana almennilega niður því það skemmdust einhverjir boltar þegar við settum hana saman á sínum tíma. Bryggjan tók ekki mikinn tíma frá lestrinum, því miður því það var gott veður í sveitinni og hefði verið ágætt að dvelja þar lengur. Forstjórinn var ekki á staðnum þannig að það var ekkert grillað handa okkur að þessu sinni.
Klukkan eitt settist ég aftur og gróf upp spekingssvipinn sem ég hafði lagt til hliðar meðan ég skrúfaði bryggjuna saman. Klukkan korter fyrir sex fann ég loksins hvernig ég gæti fengið fínu vélina til að snúast einn hring og sjóða fyrir mig þannig að ég fór sæll og glaður heim.

*************

Ég sá frétt í bæjarblaðinu um að fyrrverandi nágranni minn hafi lent í því að fá hund inn í garðinn sinn og skipti engum togum að hundurinn drap gæludýrin hans sem eru hænur af landnámskyni og endur sem spóka sig í garðinum hjá þeim í hrauninu á mörkum Hafnarfjarðar og Bessastaðahrepps. Nú telst ég vera nokkur dýravinur og hef verið frá því ég man eftir mér en ég er ekki í öllum tilfellum dýraeigendavinur. Það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér en hundaeigendur í þéttbýli, hundarnir fara lítið í taugarnar á mér því þeir geta lítið gert að því hversu vitlausir þeir eru. Aftur á móti gerir maður örlitla kröfu um að eigendur hundanna hafi eitthvað meira en merg milli eyrnanna. Nú er spurning um að hafa samband við kallinn á álftanesinu sem skaut hundhelvítið sem ruddist inn á jörðina hans(hefði kannski á að reyna við eigandann líka) og gefa honum einn eða tvo skotpakka til þess að reyna að stemma stigu við þessari plágu sem hundarnir eru á þessu svæði sem þau búa á.
Í vor fórum við Meinvill í göngutúr kringum Hvaleyrarvatn, veðrið var gott og fullt af fólki var að æfa flugukast við vatnið, þegar við vorum um það bil hálfnuð með hringinn komu tveir ljótir hundar hlaupandi á móti okkur, þeir hlupu framhjá mér en ráku skítug trýnin í Meinvill því henni er verr við hunda en mér, ég byrsti mig á eigandann þegar hann reyndi eitthvað að gelta á hundana og sagði honum að reyna að hafa hemil á hundunum svo þeir flöðruðu ekki upp um fólk sem kærði sig ekki um það. Svarið sem ég fékk frá honum var:" en þeir eru góðir" jamm og já þeir voru örugglega góðir og ég væri ekki hissa þó þeir væru það enn en samt kæri ég mig ekki um að sjá þeim fyrir slefklút í formi buxnanna minna.
Ég hef stundum velt því fyrir mér þegar hundur flaðrar upp um mig og rekur trýnið á þann stað sem maður vill í flestum tilfellum hafa út af fyrir sig að hlaupa eins og fætur toga að eigandanum, faðma hann og beygja mig svo niður og þefa af klofinu á honum...... ég er allavega viss um að hann reyndi að gera eitthvað til að banda manni frá sér.

Enívei hundar eiga ekki heima í þéttbýli og mér finnst að menn mættu alveg skjóta hund nágrannans eins og einn góður vinnufélagi minn gerði þegar hann var skiptinemi í suður ameríku þ.e. ef maður getur sannað að hundurinn hafi pirrað mann með spangóli og gelti svo ekki sé talað um að hann hafi skitið einhversstaðar annarsstaðar en inni á lóð eigandans.

*************

Mogginn klikkar ekki á smáatriðunum frekar en vanalega, í dag birtist þessi klausa á mbl.is:

Margur íslenskur athafnamaðurinn hefði án efa viljað vera í sporum ungmennanna úr Vestmannaeyjum sem urðu á vegi blaðamanns hins virta bandaríska viðskiptadagblaðs Wall Street Journal fyrr í þessum mánuði og lentu fyrir vikið á forsíðu blaðsins í gær.

Þess ber að geta að þegar greinin var virt var 2. september og því spyr ég eins og þeir sem halda úti batman.is hvenær er fyrr í mánuðinum þegar frétt birtist 2.september?

fimmtudagur, september 02, 2004

Embætti

jamm nú skil ég hvernig fólki líður þegar það fær að fara á námskeið og fær svo skrifstofu með tölvu í kjölfarið. Ég er ekki beint að fara á námskeið heldur á ég að sitja á morgun úti í horni og stúdera rafsuðuvél sem er tölvustýrð og sýður saman rör. Þetta kann að hljóma einfalt en ég er ekki viss um að það sé svo einfalt því ég á að forrita vélina og í þokkabót kann enginn á vélina í fyrirtækinu því hún er ný og engin svona vél áður verið til í fyrirtækinu. Það sem ég á að gera er að lesa bæklinginn og setja vélina svo upp og vinna á hana, þegar ég er búinn að læra á hana á ég að kenna einhverjum öðrum á hana svo hægt sé að leysa mig af á vélinni því þetta er það sem ég á að gera næstu mánuði. Ég verð að viðurkenna að ég var pínu upp með mér þegar verkstjórinn hringir úr sumarfríinu til að skipa mér að læra á grip sem enginn kann á og kostar hálfa þriðju milljón í þokkabót.

************

Hér eftir kemur símtal sem átti sér stað milli listmálarans og Armors sem vinnur með Meinvill:

Bóksalinn:Bókabúð góðan dag
Armor: Góðan dag átt þú til eftirréttauppskrifatbók
Bóksalinn: hmmm hvaða?
Armor: veitiggi
Armor: er listmálarinn við?
Bóksalinn: já augnablik
Listmálarinn:já halló
Armor: Góðan dag ég heiti Armor er að vinna með Meinvill sem er konan hans skakklappa sem er bróðir umhverfisráðherra(ættarinnar) sem er konan þín og mig bráð vantar uppskriftabók sem þið gáfuð skakklappa í afmælisgjöf.
Listmálarinn: hnyklar brýrnar ræskir sig og segir já ég kannast við það og hún er til.
Armor: skellir á og áður en listmálarinn nær að leggja tólið frá sér er Armor búin að þjóta gegnum búðina, hrifsa bókina og er að borga þegar listmálarinn rankar við sér og leggur símtólið frá sér.
Nú er Armor búin að taka gleði sína og getur hætt að öfunda Meinvill þegar Meinvill kemur í vinnuna angandi af kökum og kræsingum úr fínu bókinni.

Listmálarinn sagði mér að hann hafi gert sér grein fyrir um leið og hann tók upp tólið að Akureyringur væri á hinum enda línunnar og þessvegna hafi hann sýnt mikla stillingu og almennilegheit. Hann lét það fylgja með að Akureyringar gætu ekki gert neitt að því hvernig þeir eru(hann er úr næsta skurði við hliðina og ætti að þekkja þessa granna sína).

miðvikudagur, september 01, 2004

Asnalegar auglýsingar

Það kemur fyrir að fyrirtæki hrinda af stað grút leiðinlegum auglýsingaherferðum sem bylja á manni af og til allan daginn. Oft á tíðum er hin mesta skemmtun að horfa/hlusta á þessar auglýsingar og sbr Essó auglýsingarnar með Þorsteini Guðmundssyni og osta auglýsingarnar með Helgu Brögu. Oft vill þó brenna við að einhverjir gaurar sem eru skemmtilegir og hressir í vinnunni er settir framan við hljónema og sagt að vera fyndnir, þessi leið á sennilega að spara fyrirtækinu háar fjárhæðir sem annars myndu renna til gráðugra leikara sem eins og alþjóð veit eru hálaunafólk(Ingvar E Sigurðsson var með 61000 á mánuði í fyrra). Sælgætisgerð ein hér í bæ er á góðri leið með að gera mig galinn á daginn meðan ég er í vinnunni, þeir hafa sennilega fengið bílstjórnn sinn til að skreppa upp í útvarp og sprella svolítið við hljóðnemann eitthvað svona svakalega fyndið sem er síðan spilað fyrir og eftir hvern einasta fréttatíma á Rúv. Þessar auglýsingar eru svo fúlar að mér finnst að Amnesty International ætti að beita sér fyrir að þessar auglýsingar verði bannaðar í alþjóðalögum, það kemur jú einhversstaðar fram í alþjóðalögum að pyntingar séu bannaðar.


********************

Margir eru sammála um að Landsbankinn hafi sett met í leiðindum þegar þeir gerðu auglýsinguna um sjúkdómatrygginguna sem þeir kalla launavernd. Mér finnst þær auglýsingar pirrandi en ég stekk ekkert á fætur til að slökkva þegar þær birtast. Ég skil nefnilega ekki hver markhópurinn er sem Landsbankinn er að falast eftir því eftir því sem ég best veit eru flestir í stéttarfélagi sem tryggir mann bak og fyrir og ef það dugar ekki borga þeir útför fallins félaga. Í auglýsingunni segir þú heldur 70% af laununum þínum í tvö ár ef þú færð þér launavernd frá Landsbankanum. Mér er bara spurn til hvers að fórna 10% af laununum sínum í þessa vitleysu eða dellu eftir því hvaða nafn hæfir. Ef maður tollir sæmilega í vinnu og skiptir ekki um vinnu eftir árstíðum þá á maður að halda 80% af launum sínum í tvö ár burt séð frá því hvort maður skiptir við Landsbankann eða einhvern annan.
Einu verður maður að vara sig á í öllum þessum líftryggingapytti og það er að maður verður að kaupa tryggingu handa sjálfum sér en ekki ríkinu því þegar maður fær greidda út tryggingu þá falla ríkisbæturnar niður því tryggingabæturnar koma fram sem laun og lækka á greiðsluna frá ríkinu eða í versta falli fellur hún niður. sem er skítt því flestir kaupa svona tryggingar til að líða ögn skárr og til að hafa heldur meira milli handanna en ef maður væri bara með ríkisbætur.

Annars held ég að það sé búið að reka leiðinlegu stelpuna úr saumaklúbbnum eftir að hún hélt ræðuna yfir vinknum sínum og opinberaði heimsku sína með því að kaupa launaverndina sem er dregin af ellilífeyrinum ef eitthvað kemur upp á hjá henni.