sunnudagur, maí 30, 2004

Smáfólk 2

Þá er það búið í bili.Ítalski unginn var hjá okkur í heimsókn og gisti síðastliðna nótt.
Hann var eins og ljós allan tímann og lék við hvurn sinn fingur. Í gær grilluðum við fyrir gestinn og okkur, fyrir valinu var nískupúkasvínasteik sem var á tilboði í gulu búðinni. Ítalski gesturinn borðaði þetta allt með miklum tilþrifum og nokkrum sóðaskap. Drengurinn var alveg til fyrirmyndar og fór að sofa fyrir allar aldir og án slagsmála. svo vaknaði hann líka fyrir allar aldir og dró aldraða frænku sína að sjónvarpinu þannnig að þau gætu horft saman á barnaefni í boði ríkissins, á meðan notaði ég tækifærið og tætti spelkuna af löppinni og svaf tvo tíma í viðbót.Þessi spelkudrusla sem ég fékk er nefnilega þeim eiginleikum gædd að hún sýður á manni löppina með tímanum.

Þegar líða fór að hádegi stillti ég mér upp við imbann og horfði á eina leiðinlegustu formúlu sem ég hef séð í mörg ár.Ég held að fegurðarsamkeppni sé meira spennandi en sá óskapnaður sem fram fór í dag.
Þegar líða fór á daginn skelltum við ítalinn okkur út á svalir til að henda servíettu upp í loftið og fylgjast með mannlífinu sem var með léttklæddara móti í dag enda ágætis veður, en mitt í þessu sólbaði og servíettukasti hringdi síminn inni. Við rukum inn til að svara, þetta var þá móðir ítalans að athuga hvernig hefði gengið hjá okkur.Ég sagði henni eins og er að drengurinn hafði verið eins og ljós. Og rétt um það leiti sem ég sleppi orðinu sé ég á eftir drengnum þar sem hann sviptir upp hurðinni á baðherberginu og ryðst inn á frænku sína sem þá var í baði.Ég skrönglaðist á eftir honum til að reyna að stoppa hann en það var um seinan,hann hafði þá þegar séð að baðkarið var fullt af vatni og þá var ekki aftur snúið. Ég mátti taka drenginn og hátta og meðan ég reif fötin utan af honum skipaði ég frænkunni upp úr baðinu,,,,,,, það þurfti nefnilega annar að nota það. Þegar drengurinn var kominn úr öllu skellti ég honum niður á gólf og meir sá ég ekki af honum.Ég heyrði hinsvegar að Meinvill hafði tekið á móti honum og hjálpað honum í baðið. Ég var bara nokkuð rólegur yfir þessu öllu og settist við tölvuna og heyrði þar sem dreingurinn skríkti af kæti inni á baði.svo liðu nokkrar mínútur og þá heyrði ég eitthvað torkennilegt hljóð og mikil blótsyrði sem ég er ekki frá að hafi komið frá frænkunni.Þau hljómuðu einhvernveginn svona:"andskotinn sjálfur ertu búinn að skíta í baðið ooooooohhhhhhh hvernig nær maður þessu ógeði upp úr?". ég lét mér fátt um finnast og hélt bara áfram að tölvast.Þegar drengurinn kom fram var ekki að sjá á honum að hann skammaðist sín fyrir það sem hann hafði gert.

Soaking

laugardagur, maí 29, 2004

Smáfólk

Jæja þá er dagur að kvöldi kominn. Við Meinvill fórum í kaffi til Moms í dag,þar var boðið upp á kökur og kruðerí.Þegar við vorum búin að slefa á bringuna í nokkrar mínútur og spjallað við fólkið komu aðal gestirnir.Við vorum nefnilega ekki þeir tignu gestir sem beðið var eftir.
Inn um dyrnar skundaði heil fjölskylda ættuð af litlu og lágu nesi. Skömmu síðar var blásið til mikillar átveislu.Litla prinsessan sem allir biðu eftir þurfti ekki að hafa neitt fyrir að stela senunni.Hún þrammaði styrkum fótum um stofuna hjá ömmu sinni og heimtaði marmaraköku hjá gestunum,kom þrammandi með opinn munn. Litla prinsessan hafði eitthvað farið fram úr sjálfri sér þarna í danaveldi því hún var soldið krambúleruð í framan eftir að hafa rennt sér eftir gólfteppi og dottið á hurðakarm.
Þegar allir voru búnir að gæða sér á kökunum hringdi dyrabjallan,úti stóð önnur fjölskylda, sú er ættuð af holtinu.Fjölskyldufaðirinn var allur krambúleraður í framann eftir að flasnig hafði ráðist á hann í vinnunni.Þá var samkoman nú farin að líkjast biðstofunni á endurkomudeildinni á slysavarðstofunni.Þetta unga par af holtinu var með frænda prinsessunar með sér. Ægilega sætur lítill prins með gullkeðju um hálsinn.
Prinsessan hafði eitthvað að athuga við uppröðun blómavasa hjá ömmu sinni, þannig að þá var ekkert annað að gera en að breyta bara uppröðuninni eftir sínu höfði.Einnig þurfti að gera nauðsynlega úttekt á stöðugleika kaffiborða þannig að það sé hægt að senda pabba sínum skýrslu um öryggi kaffi og innskotsborða þegar hann kemur til landsins.


Way Too Happy

Laugardagur

Jæja þá er kominn laugardagur,ég sé reyndar lítinn mun á honum og öðrum dögum. Reyndar eru fleiri heima og eftir því er nú tekið.Annars er þetta voðalega eins og gærdagurinn og dagurinn þar áður.Laugardagar eru fyrirtaksdagar til að versla í matinn.Nú er ég alveg löglega afsakaður í búðinni þegar ég kem skröltandi á eftir Meinvilli sem gengur af öryggi um búðina og tínir hverja nauðsynina á eftir annari ofan í grindina. Annars er ég eitthvað hálf tómur í hausnum núna. Litla frænka kemur á eftir í heimsókn til ömmu sinnar og þar ætla ég að vera og sitja fyrir þeim.... ég er ekki búinn að kaupa ís handa henni enda finnst mér það ekki viðeigandi svona strax.

föstudagur, maí 28, 2004

Stríð

Ég er kominn í stríð við börnin í hverfinu.Þannig er að nú er þokkalegt veður og börnin í næsta húsi kunna að nýta sér það og hafa drifið sig út.Sennilega er imbinn á heimilinu bilaður því ég hef aldrei áður séð börn að leik þarna úti.Þetta eru stelpur á aldrinum 4-9 ára myndi ég giska á. Nú hefur adrei þótt stórmannlegt að ráðast að börnum.Þessvegna ákvað ég að reyna að verjast frekar en að sækja.
Þetta er nú svosem ekki líkamleg vörn eða í formi blótsyrða heldur er þetta þögul vörn gegn mússíkinni sem þau spila við þennan leik sinn.
Ég varð fyrst var við mússíkina þegar ég var í sakleysi mínu að grilla hamborgara áðan.. þá glumdi fyrst Geirmundur Valtýsson um hverfið en skömmu síðar tók Helga Möller við og ískraði eitthvað með laginu.Þar sem veðrið er með mestu ágætum hef ég reynt að skipta sem oftast um loft í íbúðinni með því að hafa svaladyrnar opnar. En þá flæðir fleira en ferskt loft inn því það er ekkert ferskt við að Eiríkur Hauksson, Helga Möller og Pálmi Gunnars flæði inn með ferska loftinu og syngi um gleðibanka/gleðihús og fólk sem býr í svoleiðis húsum (gleðimenn og konurnar þeirra). Þar með sé ég mig knúinn til að reyna að spila einhverja skemmtilegri mússík á meiri styrk en börnin og þar erum við komin að þessari vörn sem ég er í. Það skal tekið fram að tónlistin sem fær það hlutverk að yfirgnæfa tónlistina sem börnin spila er gaddavískennd raftónlist frá meistara Aphex Twin.Ég er nú samt ekki svo illa innrættur að ég taki og spúi þessari mússík fram af svölunum hjá mér. Reyndar benti umhverfislöggan hún systir mín mér á áðan að það þyrfti sennilega að sótthreinsa hverfið eftir Geirmund, en þá átti reyndar eftir að heyrast í bæði Selmu og Birgittu þannig að sennilega verður hverfið brennt í kvöld.

Shut UpLjósritun

Jæja þá er ég búinn að fara í enn eina myndatökuna.Það eina sem ég veit að kom út úr henni er að ég er enn með brotið hné.Ætli ég verði ekki bara svona eitthvað fram á sumar. Mér til mikils hryllings sagði læknirinn mér í gær að hann ætlaði að kíkja á löppina á mér eftir tvær til þrjár vikur og upp úr því mætti fara að athuga hvort ég mætti fara að tylla í fótinn. Ég er nú svo aldeilis hissa,þetta snýr nú eitthvað á haus finnst mér til að byrja með átti ég að labba um og halda löppinni liðugri og mér var meira að segja sagt að fara að sleppa hækjunum því þetta leit svo vel út. Já já leit vel út fuff það sem ekki er skoðað lítur örugglega vel út. Þetta verður alltaf skemmtilegra og skemmtilegra. Fyrst er manni sagt að labba inn í röntgen tuttugu mínútum eftir að löppin brotnaði og svo mánuði seinna að maður megi ekki stíga í fótinn..... ég býst við að eftir hálfan mánuð verði ég kominn í hjólastól og eftir mánuð verði ég orðinn rúmliggjandi í það minnsta virðist þróunin hingað til benda til þess. Enívei þá fór ég í BT áðan og reyndi að yngja mig upp með því að kaupa mér tölvuleik. Áður en ég veit af verð ég kominn með risa hraun og súperdós eins og hinir lúðarnir.


Helgin lítur annars bara vel út uppáhalds frænka mín er að koma til landsins á morgun með mömmu sinni, svo kemur pabbi hennar eftir tvær eða þrjár vikur þá er víst vissara að kaupa danska súperbjórdós og fagna vel.
Maður ætti að fara að svipast um eftir einhverjum góðum ís því mér skilst að það sé lítið mál að kaupa frænkuna með ís.

Crawling Baby


fimmtudagur, maí 27, 2004

Plast og Pappi

Fyrir nokkrum árum var kona nokkur að nafni Sólveig Gullseta Pétursdóttir dómsmálaráðhera á Íslandi.Hennar verður sennilega einna helst minnst fyrir tíða blaðamannafundi af litlu tilefni, dýra salernisaðstöðu og pappalöggur.
Hvorki blaðamannafundirnir né salernisaðstaðan voru nokkrum manni til skemmtunar en pappalöggurnar voru aftur á móti skemmtilegar og enn skemmtilegri voru þeir sem stálu þeim. Ég keyrði nokkrum sinnum fram hjá þessum ljósrituðu lögregluþjónum og fannst þeir bara nokkuð vinalegir ég var reyndar aldrei viss hvort þeir væru að reyna að húkka far eða reyna að segja manni að maður stæði sig með sóma í umferðinni.Kannski voru hafnfirsku pappalöggurnar að húkka far því þær hurfu allar(þeim hefur sennilega verið skutlað upp í flugstöð).
Fólk hló að Sollu Setu fyrir þetta framtak hennar og þar á meðal hló ég og hlæ enn þegar ég hugsa um þetta.
Nú er það svo að stétt manna stendur í því að framleiða annan eins óskapnað og pappalöggurnar í formi hljómsveita.Þetta er ekki bundið við útlönd því þessi óþverri hefur skotið rótum hérlendis líka.

Auglýst er eftir hæfileikalausu fólki sem lítur sæmilega út og er nógu vitlaust til að taka þátt í dellunni.... Ég er að sjálfsögðu að tala um plastbandið nælon og Idolvitleysuna sem stöð2 stóð fyrir.Ég vona heitt og innilega að þetta gangi hratt yfir og endist ekki sumarið.
Sérstaklega að fólk reyni að gleyma karókísöngvaranum úr Grindavík.Þann mann sá ég í rauðu slúðurblaði um daginn þar sem hann var að kaupa eða leigja bíl. Við erum að tala um mann sem á að heita poppstjarna og þetta ætti að vera feitletrað, hann var semsagt að fá afhentan bíl og ekki einhvern poppstjörnu bleikan Porche eða Ferrari NEIBB hann fékk sér 45 hestafla Ford Station fjölskyldubíl og það sægrænan.Og þetta var heilsíðufrétt í blaðinu.

Einhverjir framtakssamir menn skrúfuðu pappalöggurnar niður og stálu þeim.Vill ekki einhver gera slíkt hið sama við þessar pappahljómsveitir.... það mun enginn sakna þeirra
þetta eru jú bara innihaldslausar umbúðir.

Famous 3

Símatími

Jæja þá er hafin enn ein bið eftir símtali frá Dr sveitalækni.Biðin hófst með símtali í þessa blessuðu heilbrigðisstofnun sem var farið með mig í eftir að okkur stiganum sinnaðist.Bara það eitt að tala við starfsfólk þessarar stofnunar getur gert mig brjál....ég veit ekki hvort það var svona hvasst kringum símadömuna eða hvort hún blæs svona gengdarlaust í símann,reyndar er alltaf hvasst þarna suðurfrá þannig að það er svosem ekkert óeðlilegt þó gustað hafi um hljóðnemann hjá henni.En áfram með símtalið ég semsagt óskaði eftir að fá að tala við Dr sveitalækni.

Ég: Góðan dag get ég fengið að tala við......
Símadaman: Það er bara allt búið.
Ég: Það er nóg að tala við hann í síma.
Símadama: Augnablik.... sími hringir(lengi)
Símadama2(þessi sem andar í símann): ðan dag (afhverju byrjar fólk að tala áður en það tekur tólið af)
Ég: Góðan dag ég ætlaði að fá að tala við Dr Sveitalækni
Símadama2: Hann er upptekinn
Ég: Getur hann ekki bara hringt í mig í dag?
Símadama2 blæs í símann og svarar: Kennitala/nafn/símanúmer
Ég: kennitala/nafn/símanúmer (Ég er ekki alveg sjúr á því hvenær ég hætti að heita mínu ágæta nafni og fór að heita einhverri talnaröð að fyrra nafni)
Símadama2: Gessovel
Ég: Ha?
Símadama2: Gessovel
Ég: segi ekki neitt og bý mig undir að leggja á en er ekki viss svo ég hreyfi mig hægt og heyri eitthvað muldur í símanum svo ég dríf tólið upp að vinstra eyranu aftur og þruma á hafnfirsku eitt stórt "hvað segiru" í símann?
Símadama2: Gessovel
Og þá skellti ég á.

Ég skil ekki afhverju það er ekki hægt að segja bara: Þá er það komið og það verður hringt í þig um miðnætti eins og síðast þegar þú skildir eftir skilaboð til læknissins... en gessovel þýðir sennilega það sama......gott ef hún muldraði ekki vessgú líka.

Nurse

miðvikudagur, maí 26, 2004

Kaffi

Það getur alveg eyðilagt heilu dagana þegar fyrsti kaffibolli dagsins klikkar.Það gerðist í morgun,en dagurinn er samt allur að koma til.Þannig er mál með vexti að fyrir réttri viku brast mér þolinmæðin gagnvart kaffikönnunni minni sem er búin að sjá mér fyrir ágætu kaffi síðustu 8 árin. Kannan var alls ekki hætt að hella upp á eða hætt að halda heitu heldur átti hún það til að stíflast á ögurstundu og þá flæddi korgurinn ofan í könnuna og úr varð grautur en ekki kaffi.Þetta gerðist oftast þegar allt var orðið kaffilaust og ekki hægt að endurtaka uppáhellinguna.
En sem sagt fyrir réttri viku fékk ég Meinvill til að keyra mig í raftækjabúð svo ég gæti keypt nýja uppáhellingarmaskínu.Við brunuðum sem leið lá í búðina og rétt fyrir lokun náðum við að skutla okkur út um dyrnar á búðinni með kaffimaskínuna í fanginu áður en búðinni var skellt í lás.
En aftur að morgunkaffinu hinni heilögu uppáhellingu.... ég settist við tölvuna eins og alla aðra daga til að drekka í mig fróðleik heimsins (skoða batman á netinu og hanga á msn) og bar fyrsta kaffibolla dagsins upp að vörunum,,,, þetta var samt ekki alveg eins og það átti að vera kaffið bragðaðist eins og það væri ekki alveg nýtt.Eitthvað gamalt bragð breyddist yfir tunguna.... Ég var nú nokuð viss um að hafa hellt upp á enda heyrði ég varla fréttir fyrir hávaðanum í græjuni þegar hún var að klára.Ég kláraði úr bollanum og fékk mér annan bolla bara til að athuga hvort ég væri eitthvað klikk eða hvort nýja designer kaffikannan brást.Ég komst að því mér til skelfingar að sennilega er ég eitthvað að verða klikk því ég hafði gleymt að skipta um kaffi í græjunni... semsagt ég hellti aftur í gegnum gamla kaffið frá í gær.... enda var ekkert spes bragð af þessu glundri.

Damn Damn

þriðjudagur, maí 25, 2004

Ferðaskrifstofur

Einhverntíman gerðist ég mjög svo bjartsýnn og taldi alveg víst að ætti bæði eftir að verða ríkur og heppinn.Ég var svo viss um að þetta myndi henda mig á sama tíma að ég skráði mig á póstlista hjá öllum ferðaskrifstofum bæjarins.Frá því ég skráði mig hef ég verið tilbúinn með sundskýluna mína rúllaða inn í handklæði og sólarvörn við hliðina tilbúinn að grípa tækifærið þegar tilboðin streyma inn um menningarferðir til Parísar eða sólarferð til Spánar eða Portúgal og allt á kostakjörum..... En hvorugt hefur enn hent þ.e. að ég verði skyndilega ríkur eða að það komi eitthvað þrusu tilboð um ferð til fjarlægra landa á spottprís.Ja fyrr en núna síðustu þrjár vikur eða svo þá hrannast tilboðin inn og flest byrja tilboðin í sólina svona: STÖKKTU hingað eða HOPPAÐU þangað eða hlauptu til því nú getur þú stokkið á tilboð á ferðum út um allar trissur.
Mér er skapi næst að hringja í þann sem sendir mér þennan óskapnað og biðja viðkomandi að breyta textanum í hausnum í eitthvað annað en ódýrt,hopp,stökk,hlaup eða eitthvað annað sem ég get ekki framkvæmt á hækjunum (ódýrt er reyndar hægt á hækjum)... Fyrir utan það að meðan maður stundar ekki vinnu safnar maður ekki gjaldeyrisforða.

Því segi ég dólaðu þér í sólina eða labbaðu í fríið eða slakaðu þér í sumarferð.... ef þið kunnið fleiri góð slagorð sem mætti benda ferðaskrifstofunum á þá endilega setjið þau í commentin


On The Beach

mánudagur, maí 24, 2004

Blóðbað

Við Meinvill gerðumst (lág)menningarleg um helgina og tókum mynd á leigu.Svo byrjaði mennigin.Fyrst horfðum við á besta sjónvarpsþátt landsins popppunkt og svo horfðum við á Kill Bill þessu var skolað niður með poppkorni frá Betty crocker og kóladrykkjum frá ölgerðinni og vífilfelli.Þessi mynd er svo góð að við neyðumst jafnvel til að rjúfa áralanga hefð fyrir að sniðganga samráðandi kvikmyndahúsasamsteypur og sjá seinnihlutann af þessu blóðbaði sem er svo gengdarlaust að það þarf að skipta myndinni yfir í teiknimynd á kafla þar sem hún er svo blóðug.
En það er ekki allt blóðugt og ofbeldisfullt í myndinni því það er algjör snilldar hljómsveit sem kemur fram í henni... ég var eitthvað búinn að lesa um þessa hljómsveit á netinu en gerði mér ekki grein fyrir að hún væri svona flott.Japönsk kvennahljómsveit sem spilar brimbrettarokk... það getur ekki orðið mikið flottara.

Svo er bara að bíða eftir að herlegheitin verði gefin út á DVD saman í pakka þannig að maður geti bætt þessari snilld í safnið.


Pick Your Nose

Heilbrigðis eitthvað

Jæja og ég sem var búinn að semja einhverja svakalegustu ræðu sem um getur, til þess eins að fá tíma hjá liðamótalækninum mínum.Ég álpaðist nefnilega ekki til að detta á stéttinni hjá honum þannig að ég lenti hjá einhverjum sveitalækni á suðurnesjum.... Ég held að læknar á suðurnesjum séu ekki vanir að eiga við fólk sem hefur bara dottið.Ég held að þeir séu vanari að eiga við fólk sem hefur verið reynt að drepa eða hefur verið drepið eða á eftir að drepa eða einhverja sem eru nýbúnir að drepa einhverja aðra og hafa meitt sig við að koma viðkomandi fyrir í gjótu.
En allavega þá er þessi læknir sem ég er að reyna að fá tíma hjá í einkarekna heilbrigðiskerfinu sem svo margir sjá allt til foráttu.... en ekki ég, mér finnst bara fínt þegar ég hringi í einkarekna spítalann minn og fæ svör frá fólki sem ég hef á tilfinningunni að hafi áhuga á starfinu sínu og vilji endilega eitthvað fyrir mann gera.

Semsagt ræðan sem var samin í huganum til þess að sannfæra konuna á símanum um að ég væri kannski ekki dauðvona en vantaði samt lækni var aldrei flutt.. heldur svaraði bara mjög almennileg kona í símann og sagði mér að hún ætlaði að gera allt til þess að ég næði í þennann annars ágæta lækni..

Þetta er eitthvað annað en um daginn þegar ég hringdi á bráðavaktina og talaði við einhverja símadömuna:
Ég: Já góðan dag ég heiti.... og ég var í myndatöku í gær og þar kom í ljós að hnéliðurinn á mér er brotinn, get ég fengið samband við lækni.
Símadaman: Hvað er langt síðan þú slasaðir þig
Ég: Það eru ellefu sólarhringar síðan
símadaman: Ellefu sólarhringar,,,, þér liggur þá ekkert á fyrst það er svo langt um liðið þú getur svosem reynt á morgun að ná í einhvern lækni.
Ég: ég er búinn að reyna að ná í lækni í allan dag ég er með brotið hné og það þarf að laga það.
Símadaman:Er þetta ekki sárt
Ég: Ekki lengur
....... Þess ber að geta að ég fékk samband við lækni 6 klukkutímum seinna og þá var það sveitalæknirinn....

Doctor

sunnudagur, maí 23, 2004

Sönnsjæn

Jæja það er alveg greinilegt hver les þetta blogg því það er ekki að spyrja að því að daginn eftir að maður kvartar undan rigningunni er henni kippt í burtu og sólin sett í staðinn.Þetta var svo gott að ég náði að láta sólina skína á hægri löppina,sú vinstri er í fatla og fær ekkert sólbað næstu fjórar og hálfa vikuna, í það minnsta.

Dagurinn í dag er líka góður að því leiti að formúlan fór svo assgoti vel Jarno Trulli vann og hefði farið enn betur ef annar þýski bróðirinn hefði ekki verið að þvælast fyrir Alonso í göngunum.

Racecar

laugardagur, maí 22, 2004

Rigning regn skúrir væta demba haglél slydda

Þetta er gróf lýsing á veðrinu sem hefur verið nokurnveginn upp á hvern einasta dag síðan ég fékk að prófa hvernig er að liggja á trébretti í sjúkrabíl.
Ég er farinn að hafa áhyggjur af því að það komi frétt um það á næstunni að veðurfarsbreytingarnar séu orðnar svo svakalegar að við fáum monsoon rigningar næstu þrjá mánuði.Ekki það að maður ætti að vera farinn að venjast því að það sem flestar þjóðir kalla sumar þýðir regntímabil á þessu blessaða landi okkar.Venjulega væri mér nokk sama hvort það er rigning eða ekki enda ætti ég undir venjulegum kringumstæðum að stunda vinnu svona eins og flest fólk.En nú er það svo að ég væri bara alveg til í að sitja einn og einn dag á svölunum með kaffi og blaðið og fylgjast með því sem gerist í götunni og ná mér í lit á aðra löppina(þá hægri).En því hefur ekki verið að heilsa þennan mánuð.Þannig að ég verð bara að sætta mig við að sitja inni og glamra eitthvað á tölvuna og skoða myndir af sóskini.

Sunburn

föstudagur, maí 21, 2004

En hvað það er orðið gaman

Jæja mér finnst þetta líta mun betur út en ég þorði að vona...enívei þá er þetta blogg aðallega sett upp til að drepa tímann meðan nóg er til af honum.Þannig er nefnilega mál með vexti að síðan okkur stiganum bar ekki saman um í hvaða hæð við ætluðum að vinna (ég vildi upp en stiginn niður)hef ég haft alveg óendanlegan tíma til að gera allt mögulegt.....Gallinn við þetta er aftur á móti að ég er allsendis ófær um að gera nokkurn skapaðan hlut annað en að sitja í tölvunni eða vaska upp.Þar sem ég nenni ýmist ekki að vaska upp eða er búinn að því þá er víst best að sitja bara í tölvunni, jafnvel þó maður hafi ekkert að gera í henni og uppvaskið bíði í vaskinum.

Annars sagði vinnuveitandi minn mér í dag að læknar gæfu vottorð um að maður mætti ekki sinna heimilisstörfum.Ég ætti nú eftir að sjá upplitið á Meinvill ef ég kæmi með svoleiðis heim einn daginn...Það er víst meira að segja hægt að fá vottorðið sundurliðað, vinnuveitandinn hafði fengið uppáskrifað að hann mætti ekki ryksuga. Það er spurning hvort maður borgar sér fyrir ryksuguvottorð og svo sér fyrir uppþvottavottorð. Og þá er það spurning hvort Tryggingastofnun niðurgreiðir ræstitækni. Þá fær maður einn lyfseðil og einn ræstiseðil. það gæti verið skemmtilegt svo er líka kompaní í því maður gæti lært kínversku svona rétt á meðan það væri þurrkað af tölvunni og vaskað upp.Ég þyrfti nú að smella mér í að finna út úr þessu.

En hvað dagarnir eru fljótir að líða

Í dag er föstudagur og mér leiðist eins og alla hina dagana síðan við stiginn vorum ekki sammála.Ég ætla ekki að splæsa fleiri stöfum á þetta fyrr en ég sé hvernig þetta kemur út......